Aukatekjur ríkissjóðs

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 17:01:17 (1116)

1997-11-11 17:01:17# 122. lþ. 22.16 fundur 100. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (endurskoðun laga) þál., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[17:01]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 100 um endurskoðun á ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/199, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Kristín Halldórsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Guðni Ágústsson og Ögmundur Jónasson. Tillgr. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða ákvæði laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum.``

Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi en var þá ekki rædd og er þess vegna flutt að nýju.

Eins og fram kemur í greinargerðinni er tillögunni fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á þeim ákvæðum laganna sem fjalla um gjöld fyrir fullnustugerðir og búskipti fyrir sýslumenn. Sérstaklega verði í þessu sambandi skoðuð 5. gr. laganna.

Það kom mjög til álita þegar málið var undirbúið að flytja um það sérstakt frv. Hins vegar eru á málinu ýmsir fletir og ýmsar hliðar sem gera það að verkum að það varð niðurstaða mín sem 1. flm., og um það var samkomulag við aðra sem standa að málinu, að flytja þetta fremur í formi þingsályktunartillögu af þeim ástæðum sem ég nefndi.

Hér er sérstaklega verið að vitna til 5. gr. laganna um aukatekjur ríkissjóðs, þann kafla sem fjallar um gjöld fyrir fullnustuaðgerðir og búskipti fyrir sýslumanninn og er að mínu mati mikið réttlætismál eða mál sem gæti snert hagsmuni þeirra sem standa höllum fæti fjármálalega. Í þessari grein er heimild til þess að taka sérstakt gjald vegna beiðni um nauðungarsölu á fasteign eða eign sem verði ráðstafað eftir sömu reglum og fasteign. Gert er ráð fyrir því í lögunum í fyrsta lagi að um leið og beiðni um nauðungarsölu fer fram til þess að fullnusta kröfu skuli þeir sem biðja um slíka meðferð greiða í ríkissjóð 1% þeirrar fjárhæðar sem krafist er fullnustu á að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Allir sjá í hendi sér að slík upphæð getur fljótlega orðið mjög stór ef um er að ræða til að mynda kröfu á fasteign vegna þess að hér er um það að ræða að auðvitað yrði beðið um fullnustu á allri kröfunni, ekki gjaldfallna hlutanum heldur allri kröfunni. Hins vegar gera lögin ráð fyrir því að þetta gjald skuli aldrei vera minna en 9 þús. kr. og aldrei hærra en 30 þús. kr. Þegar um beiðni um nauðungarsölu á lausafé er að ræða skal gjaldið hins vegar ekki vera minna en 3 þús. kr. og ekki meira en 10 þús. kr. í hvert skipti.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að í hvert skipti sem beðið er um fullnustuaðgerð af þessu tagi, nauðungarsölu, skuli lögð fram til greiðslu upphæð sem gæti hlaupið á bilinu 9.000--30.000 kr. Nú skulum við ímynda okkur að fólk lendi í fjárhagslegum vandræðum og kemst í þessa aðstöðu, sem er því miður ekki óalgengt, við sjáum það einfaldlega á blöðunum á hverjum einasta degi, þá er það svo að lögfræðingur, gjarnan fulltrúi stofnunar eða einhverra lánardrottna, verður að reiða fram gjald á bilinu 9.000--30.000 kr. í hvert skipti. Setjum sem svo að hér sé um að ræða fimm kröfur, sem er hreint ekkert óalgengt eins og við sjáum í blöðunum, þá gæti verið um að ræða upphæð á bilinu 45--150 þús. kr. hjá einum einstaklingi. Nú er það auðvitað þannig að sá sem biður um nauðungarsöluna er ekki sá sem borgar þessa kröfu í lokin, heldur er það sá sem kröfunni er stefnt að, þ.e. sá aðili sem hefur lent í fjárhagslegum erfiðleikum.

Til mín hafa leitað einstaklingar sem hafa staðið frammi fyrir því að hafa komist í vanskil og fimm eða sex aðilar beðið um nauðungarsölu. Þessir aðilar hafa sagt sem svo að það síðasta sem þeir mættu við þegar staðan er orðin svona væri að þurfa að borga um 100--150 þús. kr. til lögfræðinga og til þeirra sem eru að biðja um nauðungarsöluna til viðbótar við það að reyna að koma málunum í þeim í skil. Þetta getur stundum jafnvel orðið til þess að viðkomandi einstaklingar ráða ekki við að koma málum sínum í skil og lenda síðan með eignir sínar í nauðungaruppboði sem í allt of mörgum tilvikum leiðir að lokum síðan til gjaldþrots með tilheyrandi óhamingju eins og allir vita með kostnaði fyrir einstaklingana og kostnaði fyrir hið opinbera.

Hér er einfaldlega verið að leggja það til, virðulegi forseti, að þessi mál verði skoðuð með það fyrir augum hvort ekki sé hægt að koma við undanþáguheimild, t.d. að sýslumanni verði heimilt að endurgreiða gjaldið í þeim tilvikum þar sem ekkert hefur orðið af sölu eignar vegna úrræða gerðarþola eða hvort eðlilegt sé að skoða það að sett sé eitt hámark þannig að menn borgi aldrei svona hámarksupphæð ef um er að ræða marga gerðarbeiðendur.

Þetta, virðulegi forseti, er lítið réttlætismál, mál sem getur snert það fólk sem hefur lent í miklum fjárhagslegum þrengingum og á ekki marga kosti í stöðunni. Að mínu mati er um að ræða réttlætismál sem við ættum að reyna að breyta á réttan veg.

Að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. viðeigandi nefndar.