Markaðshlutdeild fyrirtækja

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 13:40:58 (1130)

1997-11-12 13:40:58# 122. lþ. 23.3 fundur 212. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (öl- og gosdrykkjaframleiðsla) fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[13:40]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. Tómasar Inga Olrich á þskj. 225 er svohljóðandi: Hefur ráðherra upplýsingar um markaðshlutdeild tveggja stærstu fyrirtækja landsins í öl- og gosdrykkjaframleiðslu?

Samkvæmt skýrslu Samkeppnisstofnunar frá í desember 1994, sem áður er vitnað til varðandi stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi, voru tvö stærstu fyrirtæki á þessum markaði árið 1993 Vífilfell hf. og Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. Nokkrar hræringar hafa verið á þessum markaði síðan. Félag sem tengist Vífilfelli á Víking hf. og Sól hf.

Í fyrrgreindri skýrslu er getið um markaðshlutdeild einstakra fyrirtækja. Síðan sú skýrsla var unnin hafa orðið breytingar á markaðnum þannig að hlutfallstölur sem þá giltu eiga ekki lengur við að öllu leyti. Ekki hefur verið aflað upplýsinga um veltu þessara fyrirtækja á þessum markaði svo sjá megi markaðshlutdeild tveggja stærstu fyrirtækjanna í dag.

Sem svar við annarri spurningu hv. þm. á þskj. 225, þá vil ég vísa til þess svars sem ég var með áðan varðandi aðra fyrirspurn á þskj. 224 sem efnislega hljóðar nákvæmlega eins.