Markaðshlutdeild fyrirtækja

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 13:43:36 (1133)

1997-11-12 13:43:36# 122. lþ. 23.4 fundur 217. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (tímarit) fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[13:43]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 230 hefur 5. þm. Norðurl. e., hv. þm. Tómas Ingi Olrich, beint til mín svohljóðandi fyrirspurn um markaðshlutdeild stærstu fyrirtækja landsins í útgáfu tímarita: Hefur ráðherra upplýsingar um markaðshlutdeild tveggja stærstu fyrirtækja landsins í útgáfu tímarita?

Samkvæmt skýrslu Samkeppnisstofnunar frá desember 1994 um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi voru Fróði hf. og Samútgáfan hf. stærstu fyrirtæki á landinu í útgáfu tímarita árið 1993. Samútgáfan hefur hætt starfsemi og breytingar eru sífellt að eiga sér stað á þessum markaði.

Í fyrrgreindri skýrslu er getið um markaðshlutdeild einstakra fyrirtækja. Síðan sú skýrsla var unnin hafa orðið miklar breytingar á markaðnum þannig að hlutfallstölur sem þá giltu eiga ekki lengur við. Ekki hefur verið aflað upplýsinga um veltu þessara fyrirtækja á þessum markaði svo að sjá megi markaðshlutdeild tveggja stærstu fyrirtækjanna í dag.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Telur ráðherra ástæðu til, með tilliti til markaðshlutdeildar þessara fyrirtækja, að setja lög sem takmarka umsvif og starfsemi þeirra umfram það sem samkeppnislög segja til um?

Samkeppni virðist vera virk á þessum markaði og ekki hefur orðið vart við samkeppnishindranir þannig að ekki er ástæða til sérstakrar lagasetningar í framangreindu skyni. Í samkeppnislögum er mælt fyrir um þær heimildir sem samkeppnisyfirvöld hafa til að grípa inn í samkeppnishömlur, bæði þær sem bannaðar eru, svo sem verðsamráð og þær sem að mati þeirra hafa skaðleg áhrif á samkeppni á viðkomandi mörkuðum. Þessum reglum er beint að þeim fyrirtækjum sem í krafti stöðu sinnar á markaðnum geta skaðað samkeppni með aðgerðum eða annarri hegðun sinni. Á grundvelli þessara reglna er unnt að hafa eftirlit með og grípa til aðgerða gegn samkeppnisháttum markaðsráðandi fyrirtækja þegar og ef ástæða þykir til. Það hefur og sýnt sig að samkeppnisyfirvöld hafa gripið til íhlutunar gegn ýmsum markaðsráðandi fyrirtækjum þegar þau hafa talið fyrirtæki skaða samkeppni með hegðun sinni. Það er því álit mitt að þær íhlutunarheimildir sem felast í almennum reglum samkeppnislaga, einkum 17. gr. laganna, séu fullnægjandi til að taka á málum sem upp kunna að koma og varðað geta samkeppnislega hegðun á þeim mörkuðum sem fyrirspyrjandi fjallar sérstaklega um.