Markaðshlutdeild fyrirtækja

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 13:53:11 (1143)

1997-11-12 13:53:11# 122. lþ. 23.8 fundur 221. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (greiðslukortafyrirtæki) fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[13:53]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 234 spyr hv. þm. Tómas Ingi Olrich: Hefur ráðherra upplýsingar um markaðshlutdeild stærstu greiðslukortafyrirtækja landsins?

Samkvæmt rekstrarreikningum fyrir árið 1996 er markaðshlutdeild Greiðslukorta hf. 66% og Kreditkorta hf. 34%. Markaðshlutdeildin er mæld út frá heildartekjum.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Telur ráðherra ástæðu til, með tilliti til markaðshlutdeildar þessara fyrirtækja, að setja lög sem takmarka umsvif og starfsemi þessara fyrirtækja umfram það sem samkeppnislög segja til um?

Greiðslukortamarkaðurinn er skilgreindur sem fákeppnismarkaður. Samkeppnisstofnun vinnur að athugun á ýmsum viðskiptaháttum greiðslukortafyrirtækjanna og er niðurstöðu að vænta fljótlega. Stofnunin fylgist í þessu sambandi náið með því sem er að gerast í Evrópu. Ég tel heimildir í lögum nægjanlegar til að hafa eftirlit með þessum markaði og því ekki ástæða til sérstakrar lagasetningar í framangreindu skyni.

Í samkeppnislögum er mælt fyrir um þær heimildir sem samkeppnisyfirvöld hafa til að grípa inn í samkeppnishömlur bæði þær sem bannaðar eru svo sem verðsamráð og þær sem að mati þeirra hafa skaðleg áhrif á samkeppnina á viðkomandi mörkuðum. Hinum matskenndu reglum er beint að þeim fyrirtækjum sem í krafti stöðu sinnar á markaðnum geta skaðað samkeppnina með aðgerðum eða annarri hegðan sinni. Á grundvelli þessara reglna er unnt að hafa eftirlit með og grípa til aðgerða gegn samkeppnisháttum markaðsráðandi fyrirtækja þegar og ef ástæða þykir til. Það hefur sýnt sig að samkeppnisyfirvöld hafa gripið til íhlutunar gegn ýmsum markaðsráðandi fyrirtækjum þegar þau hafa talið að fyrirtækin skaði samkeppni með hegðan sinni. Það er því álit mitt að þær íhlutunarreglur sem felast í almennum reglum samkeppnislaga, einkum þó í 17. gr. laganna, séu fullnægjandi til að taka á málum sem upp kunna að koma og varðað geta samkeppnislega hegðun á þeim mörkuðum sem fyrirspyrjandi fjallar sérstaklega um.