Ljósleiðari

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 14:01:51 (1146)

1997-11-12 14:01:51# 122. lþ. 23.9 fundur 222. mál: #A ljósleiðari# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:01]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er mjög gagnlegt að fá fsp. fram í ljósi þeirra umræðna sem verið hafa og til að leiðrétta misskilning sem fram hefur komið, m.a. á hinu háa Alþingi, þar sem menn hafa haldið og raunar fullyrt að lagning ljósleiðarans hafi öll verið greidd af varnarliðinu. Þess vegna var mjög heppilegt að fá fsp. fram og ég er þakklátur hv. þm. fyrir að hafa flutt hana þótt tilviljun ráði því að allar þessar umræður hafi komið á svipuðum tíma.

Mér hefur borist bréf frá forstjóra Póst og síma, Guðmundi Björnssyni, sem svar við fsp.

Fyrsta spurning er: Hver var heildarkostnaður við lagningu ljósleiðara um landið?

Með leyfi hæstv. forseta segir í bréfinu:

,,Heildarkostnaður við lagningu ljósleiðara, að frátöldum innanbæjarkerfum um landið að meðtöldum öllum búnaði sem honum tengist, ljósbúnaði og fjölrásunarbúnaði, eru um 4 milljarðar kr. á verðlagi dagsins í dag. Sá munur sem er á upphaflegum áætlunum, sem koma fram í svari samgönguráðherra á Alþingi 6. nóv. 1992 þar sem fram kom að stofnkostnaður næmi 2,5 milljörðum kr. og núverandi upplýsingum byggist m.a. á því að um var að ræða áætlun fyrir kerfi sem var mun minna að umfangi og flutningsgetu en það sem síðan hefur verið byggt upp auk verðlagsbreytinga. Upphaflega var áætlun miðuð við hringinn í kringum landið ásamt leiðinni til Vestfjarða. Síðan hefur verið bætt við kerfið leiðum á Suðurlandi, Reykjanesi, Snæfellsnesi, Austfjörðum til Siglufjarðar og í Skagafirði. Þannig hefur vegalengd ljósleiðarans verið aukin frá upphaflegum áætlunum, úr um 1.800 km í um 2.500 km jafnframt því sem flutningsgeta ljósleiðarans er nú 2,5 gígabitar á sekúndu í stað 140 megabita á sekúndu samkvæmt upphaflegum áætlunum.``

Spurt er: Hve stór hluti þess kostnaðar var greiddur af Póst- og símamálastofnun og hve stóran hlut greiddu aðrir?

,,Stofnframlag frá Mannvirkjasjóði NATO í formi fyrirframgreiddrar leigu flýtti fyrir lagningu ljósleiðarans um landið. Samningurinn fól í sér fyrirframgreidda leigu til 20 ára á ákveðnu rými í ljósleiðarakerfi en að auki greiðir NATO fyrir viðhald og rekstur á hverju ári. Samningsupphæðin, sem nam um 22 millj. Bandaríkjadala, var greidd jafnóðum og unnið var að lagningu þess hluta ljósleiðarans sem NATO hefur afnot af. Hlutfallslegur árlegur rekstur og viðhald, sem fellur á NATO, er um 1 millj. Bandaríkjadala eða um 70 millj. ísl. kr.``

Ég get svo bætt við þessar upplýsingar, ef ég hef skilið það rétt, að þær afgreiningar frá ljósleiðaranum, sem voru sérstaklega lagðar fyrir NATO, voru upp á Gunnólfsvíkurfjall og Bolafjall svo og á Keflavíkurflugvöll. Þá er rétt að geta þess að sérstökum sérmögnurum var komið fyrir vegna nota varnarliðsins þannig að ekki er allt sameiginlegt í því kerfi sem varnarliðið notar og Póstur og sími. En vafalaust er og rétt að það komi skýrt fram að hlutdeild NATO flýtti fyrir því að ljósleiðarinn var lagður og hjálpaði þannig upp á sakirnar og er kannski rétt að nefna Austfirði, Vestfirði og Norðausturland sem dæmi um það.

Í þriðja lagi er spurt: Hvernig verður samkeppnisstaða aðila í útvarps- og sjónvarpsrekstri tryggð þegar Póstur og sími hf. hefur rekstur á þessu sviði?

,,Póstur og sími hefur ekki á prjónunum að fara út í dagskrárgerð, hvorki fyrir sjónvarp né hljóðvarp. Póstur og sími er einungis flutningsaðili fyrir dagskrár og sér um innheimtu þegar það á við. Aðgangur að ljósleiðarakerfi fyrirtækisins verður opin öðrum aðilum á sama verði og gilda þar sömu sjónarmið og reglur og um aðra fjarskiptaþjónustu.``

Ég vil bæta við þetta að ég hygg að nægilega skýrar reglur séu fyrir hendi í lögum og samningum og samkvæmt hinum gerðum Evrópusambandsins til þess að tryggja samkeppnishæfni á þessu sviði og tel ekki þörf eða hef ekki séð þörf fyrir nýrri lagasetningu þess vegna. Hér er einungis um endurvarp að ræða og samkvæmt þeim skilningi sem ég hef á þeim hlutum hljótum við að fara eftir sömu reglum og gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Í undirbúningi er reglugerð um þessa hluti, sem Póst- og fjarskiptastofnun er að vinna að og í rauninni er ekki meira um það að segja á þessu stigi.

Spurt er: Er fyrirhugað að jafna kostnað við beinar útsendingar sjónvarpsefnis um ljósleiðara frá landsbyggðinni?

,,Vegna hringtengingar ljósleiðarans er sama hvar komið er inn á hann. Dreifing um landið allt kostar alltaf það sama ef um sömu vegalengd er að ræða. Gjaldskrá fyrir myndflutning tekur mið af vegalengd.``

Ég vil bæta því við að öll þessi mál eru vitaskuld í endurskoðun og athugun með hliðsjón af því að allt landið er orðið eitt gjaldsvæði, sem vekur auðvitað ýmsar spurningar, og skýrist eftir að framkvæmdin er hafin.