Ljósleiðari

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 14:14:16 (1151)

1997-11-12 14:14:16# 122. lþ. 23.9 fundur 222. mál: #A ljósleiðari# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:14]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þm. Ágúst Einarsson átti við þegar hann sagði að svörin varðandi það sem NATO hefði lagt fram væru ekki nógu skýr. Ég reyndi í stuttu máli að gera sérstaka grein fyrir þeim sérþörfum sem NATO hafði um afleggjara frá hringstrengnum og vék aðeins að þeim þætti málsins. NATO greiddi fyrir því að hægt var að ráðast í að leggja strenginn með því að greiða þennan hluta stofnkostnaðarins sérstaklega og síðan með því að greiða upp í leigu til 20 ára 22 millj. Bandaríkjadala. Svo er álitamál hvernig á að meta það inn í fjárfestinguna en Bandaríkjamenn fengu þrjá strengi af átta strengjum ef ég kann þetta rétt.

[14:15]

Um síðara atriðið er það að segja að nýbúið er að endurskoða fjarskiptalögin og þau eru í samræmi við samræmd fjarskiptalög innan Evrópska efnahagssvæðisins. Og við erum bundnir af því hér á landi að það rekstrarumhverfi og það olnbogarými sem fjarskiptafyrirtæki hafa sé hið sama og það er innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég hef auðvitað ekkert við það að athuga að farið sé yfir alla þætti málsins. En við getum ekki haft ýmist þrengri eða víðari skilgreiningu á því samkeppnisumhverfi sem við búum slíkum fyrirtækjum hér á landi, borið saman við það sem er á Evrópska efnahagssvæðinu, ég tala nú ekki um eftir að endanlegar gerðir liggja fyrir.

Við erum að tala hér ítrekað ekki um sjónvarpsdagskrá heldur endurvarp og ég vil líka bæta því við að í athugun er nú hvernig hægt sé að nálgast hina ýmsu smærri staði á landinu með not af ljósleiðaranum sem er kominn þar upp að bæjarveggnum.