Aðgerðir í jafnréttismálum

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 14:21:04 (1153)

1997-11-12 14:21:04# 122. lþ. 23.10 fundur 235. mál: #A aðgerðir í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í lið 9.2.3 í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára til að ná fram jafnrétti kynjanna 1993--1997 segir:

,,Náms- og kennslugögn séu án kynjafordóma og staðalmynda og jafnan samin og endurskoðuð með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.``

Námsgagnastofnun sér um samningu, útgáfu eða útvegun á nær öllu námsefni fyrir grunnskólastigið. Við samningu og val á námsefni frá öðrum útgefendum og við endurskoðun eldra efnis er farið eftir sérstökum gátlistum til að tryggja lágmarksgæði námsefnis, þar á meðal að þau uppfylli þau skilyrði sem sett eru fram í framkvæmdaáætluninni. Stofnunin gætir þess að koma þessum skilaboðum á framfæri við alla námsefnishöfunda og við endurskoðun á eldra námsefni er jafnréttissjónarmiða einnig gætt.

Á framhaldsskólastigi er ákvörðun um val á námsefni í höndum einstakra skóla og jafnvel einstakra kennara og því erfiðara að tryggja með sama hætti og þegar grunnskólinn á í hlut að jafnréttissjónarmið séu höfð í heiðri við val á námsbókum.

Í lið 9.2.5 í framkvæmdaáætluninni segir að stefnt skuli að því að boðið verði upp á nám í fjölskyldufræðum sem felist m.a. í umfjöllun um stofnun, umhirðu og rekstur heimilis, næringarfræði, barneignir, uppeldi og samskipti kynjanna.

Í maí 1977 skipaði ég fimm manna jafnréttisnefnd sem hefur tvíþætt hlutverk. Annars vegar að gera tillögur varðandi nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum sem unnið er að á vegum félmrn. og hins vegar er nefndinni ætlað að gera tillögur um stefnumörkun fyrir jafnréttisfræðslu í skólum og fylgjast með framgangi endurskoðunar aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla.

Stefnumiðum í liðum 9.2.5 í framkvæmdaáætluninni hefur verið komið á framfæri við þá sem vinna að endurskoðun aðalnámskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Forvinnuhópar sem hafa haft það verkefni að gera tillögur um ákveðið námssvið og námsgreinar hafa nú flestir skilað tillögum til verkefnisstjórnar um endurskoðun aðalnámskrár. Um þessar mundir er unnið að því að samræma þessar tillögur og móta heildarstefnu sem nýta á til grundvallar í lokavinnslu námskránna.

Meðal þeirra tillagna sem komið hafa fram eru hugmyndir um sérstaka námsgrein í grunnskóla sem gengur undir vinnuheitinu lífsleikni og enn fremur er verið að útfæra hugmynd um skylduáfanga í framhaldsskólum svokallaðan ratvísikjarna. Í þessum námsgreinum er hugmyndin að fjalla um almennan undirbúning undir líf og starf og ýmislegt í því sambandi sem ekki er tekið fyrir í öðrum námsgreinum. Þar á meðal er eins konar fjölskyldufræðsla í anda framkvæmdaáætlunarinnar sem á að miða að því að með drengjum og stúlkum sé ræktuð ábyrgðartilfinning fyrir heimili og fjölskyldu og báðum kynjum sé kennt að líta á sig sem fyrirvinnu heimilis.