Aðgerðir í jafnréttismálum

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 14:24:14 (1154)

1997-11-12 14:24:14# 122. lþ. 23.10 fundur 235. mál: #A aðgerðir í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Því miður verður ekki séð að mjög mikið hafi gerst varðandi námsgagnamálið og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það er réttur skilningur hjá mér að hann ætli að láta það viðgangast og telji eðlilegt að þessi mál verði algerlega eftirlitslaus á framhaldsskólastiginu þó að lög kveði á um annað og hvort ekki sé neinn vilji fyrir því að gera úttekt á þeim námsbókum sem eru til staðar. Það er ekki nóg að ná bara til þeirra námsbóka sem er verið að semja. Mér sýnist af þessum svörum að ekki veiti af því að endurflytja þá tillögu sem ég flutti áður um að rækileg athugun verði gerð á þessu til þess að það verði tryggt að 10. gr. jafnréttislaganna komist í framkvæmd.

Varðandi nám í fjölskyldufræðum er það fagnaðarefni að verið sé að athuga það í svokölluðum ratvísikjarna að nám á þessum sviðum komist inn í nýju námskrárnar. Að mínu mati er mjög mikilvægt að uppvaxandi kynslóð fræðist um þessi mál, bæði um jafnréttismál og um fjölskyldumál og vonandi erum við hæstv. menntmrh. sammála um mikilvægi þess að þessi sjónarmið komist alla leið í gegn í nýjum námskrám. Vonandi hefur hæstv. ráðherra pólitískan vilja til að 10. gr. jafnréttislaganna komist í framkvæmd, en þar segir m.a.:

,,Á öllum skólastigum skal veita fræðslu um jafnréttismál, m.a. með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Gæta skal þess sérstaklega að kennslutæki og kennslubækur séu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.``