Móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 14:28:33 (1156)

1997-11-12 14:28:33# 122. lþ. 23.11 fundur 237. mál: #A móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Þegar litið er til landshátta mundi maður halda að sérlega ákjósanlegt væri að senda sjónvarps- og útvarpsmerki milli Reykjavíkur og Suðurnesja en svo háttar til að stór hluti þessa svæðis er í beinni sjónlínu frá Reykjavík. Því miður er það staðreynd að víða á Suðurnesjum sjást sjónvarpssendingar illa og sendingar útvarps heyrast mjög illa. Þó að maður sjái víða, sé ekið um svæðið, hvert furðuverkið ofan á öðru af loftnetsgræjum sem fólk er búið að kaupa dýru verði og það hafi orðið sér úti um dýra magnara, þá dugir það ekki til. Margir tryggir aðdáendur Ríkissjónvarpsins t.d., sem virðist koma hvað verst út, sérstaklega á ákveðnum blettum sem kallaðir eru manna á milli dauðir blettir eða draugablettir og mætti með sönnu kalla álagabletti, eru orðnir langþreyttir á að stara inn í þokuna meðan Stöð 2 sést mjög vel á sömu svæðum.

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum lét gera mælingar á sjónvarps- og útvarpsmerkjum dagana 16. og 17. október sl. Niðurstöður þessara mælinga sýna ótvírætt að víða á Suðurnesjum er styrkur merkjanna í eða undir lágmarki.

Einnig kom fram að truflanir eru frá aðflugsradar inn á örbylgjurásir í nágrenni flugvallarins. Fólk sem verst er sett í þessum efnum er orðið langþreytt á ástandinu og því beini ég spurningu til hæstv. menntmrh. sem er svohljóðandi:

,,Hvaða áform hafa stjórnvöld um að bæta móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á Suðurnesjum?``