Móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 14:30:29 (1157)

1997-11-12 14:30:29# 122. lþ. 23.11 fundur 237. mál: #A móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Að því er varðar menntmrn. og afskipti þess af málinu er því til að svara að ráðuneytið blandar sér ekki í þessi tæknilegu málefni á vegum Ríkisútvarpsins heldur lætur Ríkisútvarpið sjálft um að taka ákvarðanir á þessu sviði enda er það í bestum samskiptum við viðskiptavini sína og á að fylgjast með því hvernig það þjónar hagsmunum þeirra. Útvarpinu ber að sjálfsögðu að halda þannig á málum að menn geti notið þeirrar þjónustu sem það hefur að bjóða sé það tæknilega mögulegt. En það svar sem ég les er fengið frá Ríkisútvarpinu og mun ég nú fara með það mál sem Ríkisútvarpið vill að komi fram sem svar við fyrirspurninni.

Sérstök tímasett áform um aðgerðir vegna móttökuskilyrða útvarps og sjónvarps á Suðurnesjum eru ekki uppi að því er tekur til Ríkisútvarpsins. Það sem hér fer á eftir um stöðu málsins er byggt á upplýsingum frá Ríkisútvarpinu.

Sendir sjónvarpsins á Vatnsendahæð þjónar höfuðborgarsvæðinu og öðrum byggðum bólum sem hann dregur til. Auk þess eru minni endurvarpar notaðir til uppfyllingar innan meginþjónustusvæðis hans. Á Reykjanesi eru slíkir uppfyllingasendar á Þorbirni við Grindavík, í Sandgerði og við Vogastapa. Útgeisluðu afli Vatnsendasendisins er dreift í nokkrar meginstefnur. Helmingur aflsins fer í breiðan geisla í átt til alls sunnanverðs Snæfellsness. Þessi geisli þjónar einnig Kjalarnesi, Akranesi og upphaflega einnig Mýrum og allt til Stykkishólms. Fjórðungur aflsins fer í breiðan geisla til austurs sem nær austur fyrir fjall og suðaustur sem þjónaði í upphafi sem aðalflutningsleið til Vestmannaeyja en er nú varaleið þangað. Þá fer einn áttundi hluti aflsins í norðaustur og annar áttundi hluti í vestsuðvestur til Reykjaness.

Þegar Stöð 2 og síðar Sýn hóf útsendingar einnig frá Vatnsendahæð voru önnur sjónarmið uppi um dreifingu. Höfuðgeislar þeirra eru tveir. Helmingur aflsins er í norðnorðvestur og helmingur í vestsuðvestur í átt til Reykjaness. Afleiðing af þessu ólíka dreifingarmynstri Sjónvarpsins, Stöðvar 2 og Sýnar er sú að stöðvarnar skiptast á að hafa vinninginn í mismunandi áttir. Hvað varðar Reykjanes sérstaklega hefur geisli sjónvarpsins þangað verið veikari frá upphafi en þó talinn nægilega sterkur.

Viðmiðunarreglur um sjónvarpsdreifingu tilgreina ákveðið lágmark fyrir meðalsviðsstyrk útsendingar í 10 metra hæð yfir jörð. Náist þessi styrkur í 10 metra hæð í 50% tilvika er talið að dreifing sé viðunandi til þeirrar byggðar sem á svæðinu er sem þýðir að einhver breytileiki í styrk getur verið fyrir hendi. Síðan fer það eftir mannvirkjum hvernig sendingar skila sér á einstaka staði. Íbúar verða síðan með hliðsjón af þessum breytileika að koma sér upp mismiklum loftnetsbúnaði til að ná viðunandi sendingum eftir aðstæðum á hverjum stað.

Fyrirliggjandi eru mælingar frá Pósti og síma og einnig hafa verið skoðaðar mælingar sem Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum létu gera nýlega. Þrátt fyrir ólíkar mæliaðferðir virðist almennt mega draga svipaðar niðurstöður af mælingunum miðað við ofangreindar viðmiðunarreglur, sem sé þær að viðtökustyrkur sjónvarpsins á Suðurnesjum sé um viðmiðunarmörk þar sem hann er lakastur en annars staðar yfir viðmiðunarmörkum. Þeir FM-sendar Ríkisútvarpsins er þjóna Suðurnesjum fyrst og fremst eru á Skálafelli, Vatnsenda og Þorbirni. Ekki verður annað séð af mælingum en þessir sendar nái viðmiðunarstyrk víðast hvar en þó einna síst í Sandgerði.

Breytingar á dreifingu aðalsendis sjónvarpsins á Vatnsendahæð með það að markmiði að bæta dreifingu út á Reykjanes er möguleg en það yrði vandasöm aðgerð sem þyrfti að undirbúa mjög vandlega til að halda röskun í lágmarki á svæði þar sem helmingur þjóðarinnar býr. Það er reynsla fyrir því frá fámennari svæðum að breyting á útsendingarmynstri bætir móttöku hjá sumum en gerir hana lakari hjá öðrum. Við forgangsröðun verkefna hjá Ríkisútvarpinu hefur möguleikinn á þessu verið ræddur en ekki tekin ákvörðun að svo komnu.