Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 10:56:30 (1165)

1997-11-13 10:56:30# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[10:56]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar ársskýrsla Byggðastofnunar var rædd á síðasta þingi blandaðist mikið inn í þá umræðu nýleg stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Byggðastofnun. Umræðunni um ársskýrslu Byggðastofnunar var frestað á síðasta þingi og lauk ekki og því var stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Byggðastofnuninni ekki heldur útrædd. Ég mun því gera hana að umræðuefni hér enda er stjórnsýsluúttektarinnar sérstaklega getið í ársskýrslunni fyrir 1996 sem við ræðum hér.

Ég vil ítreka þá skoðun mína að skýrsla Ríkisendurskoðunar er mikil áfellisdómur á Byggðastofnun sem kallar á breytt vinnubrögð og að verkefni og hlutverk Byggðastofnunar verði endurskoðuð frá grunni. Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. forsrh. áðan að til álita komi að hætta lánveitingum á vegum Byggðastofnunar.

Mín skoðun er sú að leggja eigi Byggðastofnun niður í núverandi mynd. Byggðastofnun á ekki að vera lánastofnun í þeirri mynd sem hún er nú heldur á hún fyrst og fremst að sinna því að gera áætlanir um þjóðfélagslega hagkvæma þróun byggðar og einstakra landshluta og vera ráðgefandi aðili í því efni. Þar á að vera í forgrunni að stuðla að fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu sem er ekki síst hagsmunamál landsbyggðarinnar.

Stjórn Byggðastofnunar á líka að leggja af, enda gengur það gegn þeirri aðgreiningu sem á að vera á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að þingmenn sitji í stjórn hennar. Einnig á að leggja af lánafyrirgreiðslu Byggðastofnunar en styrkveitingar til þróunarverkefna og nýsköpunar í atvinnulífinu ásamt áætlunargerð og svæðisáætlunum um þróun byggðar ætti að vera verkefni hennar en fyrirkomulag styrkveitinga, sem nú eru um 100--200 millj. á ári, gæti verið þannig að fjárln. fengi þær til umsagnar eða staðfestingar. Það er ekki einungis að lánafyrirgreiðslan hafi verið mikil og mikið tapast af útistandandi kröfum heldur hefur rekstrarkostnaður stofnunarinnar verið mjög hár, tæplega 24% af heildarkostnaði við Byggðastofnun, eða að meðaltali 150 millj. kr. á ári síðustu tíu árin. Bara að reka lánastarfsemina kostar um 68 millj., eða nálægt 50% af rekstrarkostnaði stofnunarinnar, sem er vissulega eitt og sér rök fyrir því að Byggðastofnun eigi að hætta lánveitingu.

Það er ástæða til þess að spyrja hæstv. forsrh. við þessa umræðu hvað hafi verið gert til þess að hrinda í framkvæmd tillögum Ríkisendurskoðunar eða hvort í undirbúningi sé eitthvað í þá veru að framkvæma þær tillögur sem Ríkisendurskoðun lagði til og fram komu í skýrslu hennar um Byggðastofnun.

Ég tel að stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar staðfesti að við erum og höfum verið á rangri braut varðandi lánastarfsemi Byggðastofnunar. Eða hvað segja okkur þær staðreyndir að af 17--18 milljarða lánum á 10 ára tímabili hafi verið afskrifaðir 3,8 milljarðar, eða 23% af heildarfjárveitingum stofnunarinnar, og í sumum atvinnugreinum eins og fiskeldi hafi nánast allt verið afskrifað, eða 93%?

Enn verri er niðurstaðan þegar litið er til hlutafjárkaupa Byggðastofnunar, en afskrifa varð hlutabréf hjá 38 fyrirtækjum af þeim 44 sem Byggðastofnun tók þátt í. Af 443 millj. kr. sem lagt var í hlutafé voru afskrifaðar rúmlega 270 millj. kr., eða 61% af hlutafjárkaupum stofnunarinnar.

[11:00]

Áhyggjur hæstv. forsrh. vegna fólksflótta af landsbyggðinni er vissulega hægt að taka undir. En það segir líka allt sem segja þarf að þessum miklu fjármunum hefur ekki verið skynsamlega varið enda var það ein af mörgum gagnrýnisatriðum Ríkisendurskoðunar að Byggðastofnun hafi ekki markað skýra stefnu um það hvar eigi að styrkja byggð í landinu. Alla grunnvinnu vantaði til þess að hægt væri að marka þá stefnu því lán eða annar stuðningur átti að vera í samræmi við byggðaáætlanir, sem gera átti á grundvelli laga um Byggðastofnun, sem fyrst eru að sjá dagsins ljós nú samkvæmt þessari ársskýrslu Byggðastofnunar sem við ræðum hér. Þar kemur fram að aðeins einni svæðisbundinni byggðaáætlun sé lokið sem nær yfir Neskaupstað, Eskifjörð og Reyðarfjörð. Því hefur ekki verið svarað á hverju 17--18 milljarða lán eða styrkveitingar á umliðnum árum hafa verið byggðar eða hvað lá þar að baki og svo virðist vera að lánað hafi verið án nokkurrar fyrirhyggju um hvað best væri fyrir byggðaþróun í landinu til að koma í veg fyrir þá byggðaröskun og fólksflótta sem við stöndum frammi fyrir. Ég minni þar á gagnrýni Ríkisendurskoðunar þar sem því er haldið fram að ætla megi að skort hafi á vilja stjórnarinnar til að láta stofnunina gera áætlun um þróun byggðar og atvinnulífs sem stofnunin á þó að gera samkvæmt lögum. Maður veltir fyrir sér hvort það er til þess að stjórnin hafi frjálsari hendur til að ráðskast með hvert lán- og styrkveitingar renna án þess að markmið og stefna laganna sé höfð að leiðarljósi.

Herra forseti. Hæstv. forsrh. nefndi í máli sínu að von væri á nýrri stefnumarkandi byggðaáætlun til fjögurra ára sem yrði fljótlega lögð fyrir þingið. Það er því ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. --- sem ég veit ekki hvort hlýðir á mál mitt --- í þessari stöðu, hverju ályktun sem ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi árið 1994 hafi skilað. Það er þál. um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir 1994--1997. Þar kemur ýmislegt fram og maður veltir fyrir sér hverju hún hafi skilað í að treysta og efla byggð í landinu og að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins. Talað er um að gerð verði fjögurra ára áætlanir um hvern þjónustumálaflokk sem verður grundvöllur fjárlagagerðar til lengri tíma. Ég spyr sérstaklega um það atriði. Þar kemur einnig fram að forsrh. skipi nefnd til að endurskoða lagaákvæði um áætlanagerð á vegum ríkisins í þeim tilgangi að vinnubrögð verði markvissari og fjármunir nýtist betur. Ýmis fleiri atriði koma þarna fram, t.d. að litið verði á svæðisbundnar áætlanir sem samstarfssamning milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga og stefnt skuli að valddreifingu með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og tillögur um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga verði lagðar fyrir Alþingi sem fyrst. Ég spyr einkum um það. Nú vitum við um grunnskólann sem kominn er til sveitarfélaga. Í umræðunni eru málefni fatlaðra. En ég spyr um þær tillögur, sem samkvæmt þessari áætlun átti að leggja fyrir Alþingi um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Herra forseti. Ég tel að ekkert eitt mál, engin ein leið, hafi lagt eins mikið fram til þróunar byggða til lengri tíma litið og sameining sveitarfélaga, en þróunin í því máli hefur verið ör á umliðnum árum ekki síst í kjölfar sameiningarátaks sveitarfélaga á árinu 1993. Frá áramótum 1993--1994 til september í ár hafa orðið 14 sameiningar með fækkun sveitarfélaga um 32, og samtals hefur sveitarfélögum fækkað frá 1986 um 58 en í dag eru sveitarfélögin 165. Ef teknar eru með þær sameiningartilraunir sem nú eru í gangi, og þær sem samþykktar hafa verið á þessu ári en ekki staðfestar, og gert ráð fyrir að allar gangi þær eftir og sameiningar takist, verða sveitarfélögin 128 og hefur þá fækkað um 95 á rúmlega 10 ára tímabili. Þetta er gífurlega mikill árangur og ætti að skila sér í því að efla landsbyggðina þó það sé vissulega áhyggjuefni að enn er langt í land að öll sveitarfélögin verði það öflug að þau geti veitt íbúum sínum nauðsynlega þjónustu og verið fær um að taka við auknum verkefnum.

Eitt aðalvandamál margra byggðarlaga er einhæfni atvinnulífsins sem í verulegum mæli má rekja til þess að sveitarfélögin eru of smá til að geta myndað sterkar þjónustuheildir. Þetta kemur ekki síst fram á sviði félagslegrar þjónustu þar sem smæð sveitarfélaganna kemur í veg fyrir að grundvöllur sé fyrir rekstri eða að fagfólk sé fáanlegt. Í því sambandi er athyglisvert, sem fram kemur í nýlegri skýrslu Aflvaka, að á árunum 1993--1995 hafi 20% þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur í ágúst 1996 flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur á tímabilinu. Og þegar litið er til ýmiss konar félagslegrar þjónustu kemur fram að kostnaður á hvern íbúa er fjórum sinnum hærri vegna félagslegrar þjónustu í Reykjavík en í öðrum landshlutum.

Víða um land er ekki að finna fullnægjandi félagslega þjónustu sem fólk hefur þörf fyrir og veldur það því að fólk hefur leitað til höfuðborgarsvæðisins til að fá þörfum sínum mætt. Á þetta ekki síst við um unga fólkið og aldraða sem verða að treysta á ýmsa félagslega þjónustu og verða oft að taka sig upp og flytja í stærri sveitarfélög þar sem þjónustu er að fá. Það er einmitt þetta tvennt, þ.e. einhæfni atvinnulífsins og lítil félagsleg þjónusta í smærri sveitarfélögum, sem leitt hefur til þess að stöðugur straumur fólks hefur verið á umliðnum árum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Til marks um það má nefna að á síðasta áratug fjölgaði Íslendingum um 28 þúsund manns. Þessi fólksfjölgun skilaði sér nær eingöngu til höfuðborgarsvæðisins vegna mikilla fólksflutninga á suðvesturhornið á þessu sama tímabili. Þannig að þrátt fyrir að Íslendingum fjölgaði um 28 þúsund var fjölgunin aðeins um 1.800 manns á landsbyggðinni eða aðeins liðlega 6% af heildarfjölguninni. Þessi þróun virðist halda áfram en samkvæmt skýrslu Aflvaka voru aðfluttir umfram brottflutta til Reykjavíkur á árinu 1995 rúmlega 1.100 manns. Það verður líka að hafa í huga að við þessa fólksflutninga til suðvesturhornsins stöndum við frammi fyrir öðru vandamáli sem verður sífellt áleitnara með síauknum alþjóðasamskiptum og það er að unga fólkið flytji í auknum mæli ekki aðeins frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið heldur munum við eiga í sívaxandi samkeppni við erlendar þjóðir um að halda unga fólkinu hér á landi. Þar spilar menntastefnan stórt hlutverk en sveltistefna ríkisstjórnarinnar í menntamálum er því ekki bara ógn við alla framþróun í landinu og jafnvægi í byggð landsins heldur einnig hemill á þá samkeppni sem við munum í vaxandi mæli eiga í við önnur lönd um að halda unga fólkinu í landinu.

Ég vil einnig gera að umtalsefni atvinnuleysi kvenna sem hefur verið mikið um land allt í tíð þessarar ríkisstjórnar þó atvinnuleysi í heild hafi minnkað og það tengist líka þeirri byggðastefnu sem við viljum sjá. Mikið af þeim sértæku aðgerðum sem gripið hefur verið til á landsbyggðinni tengjast atvinnusköpun sem sniðin er að atvinnuþörfum karla eins og í viðhaldsframkvæmdum og vegagerð. Sú þensla sem verið hefur í efnahags- og atvinnulífinu tengist líka ýmsum stóriðjuframkvæmdum sem eru verkefni sem fremur eru sniðin fyrir karla en konur. Samdráttur hefur aftur á móti verið í ýmsum þjónustustörfum, í heilbrigðisgeiranum, í bankastarfsemi og fleiri greinum sem konur vinna frekar en karlar. Ég nefni sem dæmi að atvinnuleysi kvenna á Norðurlandi vestra var nú í september 6,2% en 1,6% hjá körlum. Það er einnig mikið á höfuðborgarsvæðinu og víða annars staðar á landsbyggðinni eða 4--5% meðan atvinnuleysi karla er 1--2%. Ég spyr því hæstv. forsrh.: Telur hann ástæðu til þess, í ljósi mikils atvinnuleysis hjá konum víða um land, að grípa til sértækra tímabundinna aðgerða til að auka atvinnumöguleika kvenna og t.d. að fela Byggðastofnun að gera sérstaka úttekt á því máli og leggja fram tillögur til að draga úr atvinnuleysi kvenna?

Ég vil líka gera að umtalsefni, herra forseti, jöfnun símakostnaðar á landsbyggðinni, um leið og ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir að koma vitinu fyrir hæstv. samgrh., þegar hann ætlaði að nýta þá sjálfsögðu aðgerð í þágu landsbyggðarinnar að gera landið að einu gjaldskrársvæði, að hækka gjaldskrá staðarsímtala upp úr öllu valdi sem líka kemur sér illa fyrir landsbyggðina. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann ætli að verða við óskum ASÍ, BSRB, Neytendasamtakanna, Landssambands eldri borgara og Samtaka netnotenda um að hverfa alveg frá þeirri ósvífnu gjaldskrárhækkun á símnotendur sem enn stendur eftir. Í ályktun frá þessum samtökum rökstyðja þau mál sitt mjög vel og segja m.a. að með lagningu ljósleiðara um landið skapist forsendur til að gera landið að einu gjaldsvæði án þess að sú breyting hafi áhrif á afkomu Pósts og síma. Það hefur komið fram í umræðum vegna gjaldskrárbreytingarinnar nú að kostnaður fyrirtækisins við flutning símtala milli landshluta er í dag ekki hærri en flutningur símtala innan svæða. Það eru því engin rök fyrir því að hækka þurfi símtölin innan svæða þótt landið sé gert að einu gjaldsvæði. Tækninýjungar hafi gert slíkt mögulegt án kostnaðarauka fyrir fyrirtækið. Jafnframt má reikna með að notkun muni aukast við lækkun en slíkt skilar Pósti og síma hf. auknum tekjum.

Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji nóg að gert eða hvort hann muni beita sér frekar í málinu þegar það liggur fyrir samkvæmt útreikningum sem lagðir hafa verið fram að Póstur og sími á að geta tekið á sig þessar breytingar án þess að það þurfi að koma fram í verulegri hækkun á staðarsímtölum.

Ég vil líka nefna aðra nýlega hækkun hjá Pósti og síma en það er hækkun á póstburðargjöldum sem er líka árás á landsbyggðina því nú í októbermánuði var kúvent þeirri stefnu sem rekin hefur verið og tekin ákvörðun um að taka upp tvö gjaldskrársvæði í póstburðargjöldum vegna blaða og tímarita innan lands, þar með talið fréttabréfa og bæklinga. Gengur þetta ekki þvert á þá stefnu að jafna aðstöðumun dreifbýlis og þéttbýlis? Með því að taka upp tvö gjaldskrársvæði verður yfir 40% verðmismunur á póstburðargjöldum vegna blaða og tímarita, fréttabréfa og bæklinga milli landsvæða. Þetta mun bitna á blaða- og tímaritaútgáfu, ýmissi félagastarfsemi og félagspósti sem kemur verulega niður á félagastarfsemi þegar ýmis félagasamtök eru að senda félögum sínum fréttabréf t.d. Öryrkjabandalagið, eldri borgarar, verkalýðshreyfingin og fleiri aðilar sem auðvitað mun á endanum bitna á neytendum. Auk þess að koma á tveim gjaldskrársvæðum þar sem póstburðargjöld verða 40% hærri milli svæða þá er almenn hækkun á gjaldskránni frá 1. október 53--144%. Ég spyr: Telur hæstv. forsrh. ekki ærið tilefni til að skoða þetta mál því hæstv. samgrh. virðist ekki vera sjálfrátt þessa dagana og vikurnar?

Herra forseti. Ég ítreka í lokin þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra og vænti að fá svar við þeim í þessum umræðum.