Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 11:16:15 (1170)

1997-11-13 11:16:15# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), JónK
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[11:16]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Í 2. gr. laga um Byggðastofnun er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar sem er að stuðla að þjóðfélagslega hakvæmri þróun byggðar í landinu. Spyrja má hvað telst þjóðhagslega hagkvæm þróun byggðar. Það er grundvallaratriði. Ég held að fullyrða megi að það sé ekki þjóðhagslega hagkvæm þróun byggðar þegar svo hagar til um fólksflutninga á borð við þá sem nú eru í landinu þó því kunni að vera haldið fram og kem ég að því síðar.

Það blasir við öllum sem fara um höfuðborgarsvæðið að hér er mikil þensla í byggingarstarfsemi. Þegar maður skoðar það mál betur er á hverju einasta ári byggður upp 2.000 manna kaupstaður, ef svo má að orði komast, innan borgarmarka höfuðborgarsvæðisins. Þetta útheimtir mikil útgjöld fyrir bæjar- og borgarstjórnir á svæðinu. Þessi stöðuga móttaka á fólki er ekki endilega hagkvæm fyrir sveitastjórnarstigið hérna. Fullyrða má að það væri miklu hagkvæmari þróun fyrir Reykjavíkurborg og byggðarlögin í kring að svæðið byggi að fólksfjölgun sinni og önnur svæði landsins byggju líka að fólksfjölgun sinni og jöfnuðurinn væri öðruvísi en hann er. Ég er ekki að mæla á móti því að fólk flytji milli byggðarlaga eða að það séu einhverjir átthagafjötrar í landinu. En sú þróun sem hefur verið er gjörsamlega óeðlileg.

Sveitarstjórnir á þessu svæði koma til fjárlaganefndar og kynna sín mál, a.m.k. sumar hverjar. Borgarstjórn Reykjavíkur gerði það nú í haust. Hvað haldið þið að sé efst á baugi? Það eru vegamál. Það er orðið svo að til þess að koma fólki á milli borgarhluta þarf að byggja brýr sem eru dýrari en yfir hin straumhörðustu vatnsföll vegna þess að umferðin er allt að sprengja og borgin vex gríðarlega. Þetta kostar aukna þjónustu, svo sem stækkun skóla og aukningu í heilbrigðiskerfinu. Þetta er uppbygging sem hefur þegar farið fram víða úti á landi. Fólk er búið að byggja yfir sig úti á landi og þarf síðan að gera það aftur hér. Ef þetta er þjóðhagslega hagkvæm þróun byggðar er það eitthvað önnur túlkun en ég skil.

Þetta er áhyggjuefni. Með fækkuninni úti á landi fjarar undan þeirri þjónustu sem þar er og aðilar sem stunda þá þjónustu lenda í erfiðleikum. Það má taka ótal dæmi um það. Það má spyrja, af því að hér er skýrsla Byggðastofnunar til umræðu, hvernig Byggðastofnun hafi gegnt því hlutverki sínu að sporna við fólksflutningum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Ég tel að það sé hlutverk hennar. Margir segja að úr því að þetta hafi ekki tekist eigi að leggja Byggðastofnun niður í núverandi mynd eins og hv. 13. þm. Reykv. orðaði það, af því að þetta markmið hefur ekki náð fram að ganga. Ég held að það megi fullyrða og það má styðja með mörgum dæmum að hefði Byggðastofnunar ekki notið við þá væri margt öðruvísi en það er á landsbyggðinni því mörgu hefur verið komið til leiðar. Áreiðanlega væri ástandið enn verra ef þessi skipulega starfsemi hefði ekki verið fyrir hendi. Ég held að það verði að undirstrika og festa í minni. Byggðastofnun hefur stutt ýmsa nýsköpun á landsbyggðinni og mörg fyrirtæki sem hafa risið þar á legg og hamlað við fólksflutningunum. En þrátt fyrir þetta er ástandið óviðunandi eins og það er núna.

Samskipti landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins, umræðan um byggðamál, er kapítuli út af fyrir sig. Oft hafa þessar umræður snúist upp í heldur ófrjóar deilur sem eru hvorugum aðilanum til hagsbóta en yfirleitt til bölvunar. Ég vonaðist satt að segja til að þessi umræða væri örlítið að breytast. Mér fannst andrúmsloftið í þessum málum lýsa vaxandi skilningi á því að hér væri vandamál sem þyrfti að bregðast við. En því miður held ég að það hafi verið rangar ályktanir hjá mér.

Á dögunum kemur út skýrsla, sem er unnin á vegum Aflvaka hf. og Atvinnu- og ferðamálastofu Reykjavíkur, kynnt af borgarfulltrúa í Reykjavík. Þar segir: ,,Framlög ríkisvaldsins: landsbyggð -- höfuðborgarsvæði.`` Ég varð satt að segja undrandi og mér liggur við að segja dálítið skelkaður þegar ég fór að lesa þessa skýrslu og þær staðhæfingar og umræður sem hún býður upp á. Nægir að vitna í örfá atriði. Á bls. 6 í skýrslunni segir:

,,Almennt virðast sérfræðingar sammála um að þeir samfélagsskattar sem hér eru að verki séu það sterkir að innan næstu 15--20 ára muni allt að 90--95% þjóðarinnar búa á svæðinu frá Stykkishólmi að Hvolsvelli.``

Ég spyr: Hvaða tilgangur er í því að slá fram svona sleggjudómum? Hvaða sérfræðingar eru það sem þarna eru kallaðir til án þess að vitna nokkuð í þá nánar? Síðan er rætt um að það þurfi að rísa sterkir byggðakjarnar á Miðnorðurlandi og Miðausturlandi. Ég er auðvitað sammála því en það bjargar ekki byggðinni í landinu. Það eru öflugir staðir fyrir utan Miðnorðurland og Miðausturland sem ættu að eiga sér lífsvon. Mér dettur í hug það svæði sem hefur fjölgað á þrátt fyrir alla þessa þróun og það er Suðausturlandið og svæðið í kringum Höfn í Hornafirði. Mér þykir einkennilegt ef það á að slá það svæði af í þessari umræðu. Síðan segir hér á bls. 10 eftirfarandi, með leyfi forseta, og það kemur inn á þjóðhagslegu hagkvæmnina:

,,Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna félagslegrar aðstoðar hefur aukist um 106% á árunun 1991--1995 en aðeins um 70% á landsbyggðinni á sama tíma. Kostnaður Reykvíkinga vegna félagslegrar aðstoðar er fjórfalt hærri á hvern íbúa miðað við kostnað sveitarfélaga á landsbyggðinni. Þetta má m.a. rekja til þess að fólk af landsbyggðinni leitar beinlínis til Reykjavíkur eftir félagslegri aðstoð. Þannig höfðu um 20% þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð frá Félagamálastofnun í ágúst 1996 flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur á árunum 1993--1995.``

Þessi sprenging, sem lýst er hér, er afleiðing af þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár og er sagt í öðru orði í skýrslunni að þurfi að halda áfram. Það þurfi 90--95% þjóðarinnar að búa hér á litlu svæði af landinu. Ég er þess fullviss að það hefur eins og í annarri stórborgarmyndun þau áhrif að félagsleg aðstoð mun halda áfram að aukast næstu árin haldi þessi þróun áfram. Hún mun aukast að miklum mun. Þess vegna verðum við að sporna gegn þessari þróun.

Í skýrslunni eru alls konar staðhæfingar um framlög til landsbyggðarinnar. Sumt af því er algjörlega fyrir neðan belti eins og að telja framlög í Ofanflóðasjóð framlög til landsbyggðarinnar. Það er hlutverk þjóðarinnar allrar að bregðast við náttúruhamförum. Það er ekkert fyrir landsbyggðina sérstaklega heldur er það öll þjóðin sem býr við vá af náttúruhamförum. Ég skil ekki þessa landafræði framlaga sem talin er í skýrslunni. Ég vona að hún verði ekki til að vekja upp hina ófrjóu og tilgangslausu umræðu milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar um það nauðsynjamál að snúa þróuninni við og hvert landsvæði búi að sinni fólksfjölgun og íbúaþróun sé eðlileg. Mér finnst að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar verði að svara því og þeir sem ráða hér ríkjum hver tilgangurinn er með útgáfu þessa plaggs.

En ég vil í örstuttu máli nefna í lokin þær úrbætur er ég tel brýnastar. Ég tel sameiningu sveitarfélaga og öfluga stjórnsýslu sveitarfélaga vera mjög mikils virði til að snúa þróuninni við --- flutning verkefna til þeirra. Ég tel mikilsverðast að efla menntun, framhaldsmenntun og menntun á háskólastigi, símenntun og endurmenntun, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Ég er ekki að tala um að stofna fleiri háskóla en úti á landsbyggðinni þarf að efla menntun sem er tengd háskólastiginu og þá sérstaklega fullorðinsfræðsluna, símenntun og endurmenntun. Ég tel að jöfnunaraðgerðir og aðgerðir í samgöngumálum séu mikils virði eins og ávallt hefur verið ásamt öflugu atvinnulífi. Það er þó ljóst að þó að sjávarútvegurinn hafi sótt í sig veðrið eins og hann hefur víða gert á undanförnum árum þá megnar hann einn ekki að snúa þróuninni við. Slagurinn stendur um hin sérhæfðu störf. Þess vegna finnst landsbyggðarfólki hvert sérhæft starf vera svo óendanlega mikils virði að um þau er barist. Að þeim þarf að stuðla þannig að fólk hafi störf við sitt hæfi þegar það hefur lokið menntun sinni.