Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 11:31:50 (1171)

1997-11-13 11:31:50# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[11:31]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerði að umtalsefni nokkur atriði úr skýrslu Aflvaka. Hann vitnaði m.a. í bls. 6 þar sem talað var um það mat sérfræðinga að innan 15--20 ára muni allt að 90--95% þjóðarinnar búa á svæðinu frá Stykkishólmi að Hvolsvelli og spurði hvaða sérfræðingar þetta væru. Ég vek athygli á því að í neðanmálsgrein er sérstaklega vitnað til bókarinnar Hugmyndasamkeppnin --- ,,Ísland árið 2018``, Þekkingarsamfélagið eftir Þór Sigfússon. Þarna er vitnað í bók sem var gefin út nýlega og Þór er maður sem hefur fulla burði til að leggja mat á þetta og annað. Hann hefur verið til skamms tíma og er enn, held ég, efnahagssérfræðingur fjármálaráðherra.

Við horfumst í augu við búsetubreytingar sem eru ekki einsdæmi. Þetta er að gerast víða erlendis. Enginn segir, hvorki í þessari skýrslu né annars staðar, að 90 eða 95% eigi að búa á einhverjum tilteknum stað. Þegar skýrslan var gefin út þá var hún gefin út með þessum orðum af hálfu aðstandenda hennar, þ.e. Atvinnu- og ferðamálastofu Reykjavíkur og Aflvaka hf., og ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

,,Af hálfu aðstandenda úttektarinnar skal það undirstrikað að til hennar var ekki stofnað til að viðhalda eða kynda undir þeim deilum sem hafa verið milli landshluta eða einstakra hagsmunaaðila heldur þvert á móti. Eftir úttektinni var kallað til að draga fram á eins skýran hátt og kostur er þá heildaryfirsýn sem nauðsynleg er til að ná fram málefnalegri umræðu þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.``

Herra forseti. Í skýrslunni er reynt að draga fram ákveðið talnaefni sem að mínu viti hefur ekki verið gagnrýnt. Vitaskuld er hægt að gagnrýna ýmsar ályktanir sem eru dregnar. Það er eins og gengur og gerist. En ég bið menn um að taka þessa skýrslu og annað sem kom fram í umræðunni málefnalega. Það er greinilegt að við þurfum öll sameiginlega að endurmeta þá byggðastefnu sem hefur verið við lýði undanfarna áratugi.