Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 12:01:34 (1178)

1997-11-13 12:01:34# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[12:01]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þm. að skilja mig ekki þannig að ég álíti að sameining sveitarfélaga bjargi þessu máli. Það er svo langt frá því. En ég tel að það geti verið liður í að breyta þróuninni í rétta átt. Og það að ekki hafi enn sést árangur þar sem sameining hefur farið fram getur komið til af því að þetta er nýskeð og hefur ekki hlotið nægilega reynslu. Við megum ekki draga þær ályktanir strax í dag að vegna þess að þróunin hafi ekki snúist við í þeim sveitarfélögum þar sem sameinað hefur verið, þá sé þar með útséð að sú leið skili ekki árangri. Það finnst mér ekki rétt að gera nú þegar.

Hv. þm. nefndi launamál á Vestfjörðum og fer örugglega þar með réttar tölur. Ég er ekki að tala um að þar séu laun að jafnaði hærri en annars staðar. En ég vil bara ekki að menn einfaldi um of umræðuna eins og mér fannst hv. þm. gera þegar hann sagði að þetta snerist um atvinnu og laun og hins vegar um þriðja stjórnsýslustigið.