Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 12:04:05 (1180)

1997-11-13 12:04:05# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[12:04]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að nokkru leyti taka undir það sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hélt fram áðan. Að halda því fram að búseturöskunin sé fyrst og fremst vegna atvinnu og launa er allt of einföld skýring. Það er skýring gærdagsins. Hægt er að taka Vestfirði sem dæmi þar sem vitað er að á u.þ.b. tíu ára tímabili hafa þar verið hæst meðallaun. Þar hefur verið mest atvinna. Þaðan er fólksflótti mestur. Þetta eru fleiri skýringar, t.d. það að fólk vill eiga kost á fjölbreyttari félagslegri umgjörð. Fólk vill eiga betri möguleika í sambandi við menntun. Fólk fer oft af landsbyggðinni á eftir börnunum sínum til framhaldsnáms. Í einhverjum tilvikum er um að ræða of mikla vinnu. Þetta eru nýir hlutir sem við þurfum að ræða. Það er engin ein skýring til á þessu og það er ekkert eitt úrræði til. Þetta mál er flóknara en svo.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Kristni Gunnarssyni varðandi valddreifingu þó ég tali nú ekki fyrir þriðja stjórnsýslustigið. Ég held að ákvarðanataka þurfi að færast meira til sveitarfélaganna. Það er hægt að hugsa sér að sveitarfélögin yfirtaki fleiri verkefni sem ríkisvaldið er með, bæði á sviði menntamála og heilbrigðismála. Það er hægt að hugsa sér endurskipulagningu í skattlagningarkerfinu þannig að t.d. tekjur einstaklinga séu alfarið skattstofn sveitarfélaga. Þetta eru allt hugmyndir sem gætu stuðlað að eflingu byggðar í landinu og við ættum e.t.v. að ræða það út frá þessum sjónarmiðum en ekki einblína á hina gömlu hugmyndafræði um atvinnu og kjör.

Mér finnst líka oft gæta mikillar neikvæðni gagnvart þessu. Það þarf að vera jákvæðari umræða. Við þurfum að hafa það í huga að víða og víðast á landsbyggðinni er hamingjusamt mannlíf. Við skulum ekki horfa fram hjá því að þó að við séum að ræða þær verulegu breytingar sem eru að verða, þá eigum við ekki að tala af of mikilli neikvæðni eða láta umræðuna eingöngu snúast um hina neikvæðu þætti þessarar þróunar.