Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 12:11:21 (1184)

1997-11-13 12:11:21# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[12:11]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson draga afar skýra mynd af flutningi fólks af landsbyggðinni yfir á höfuðborgarsvæðið, enda er hann með allra raunsæjustu alþýðubandalagsmönnum. Hann nefndi laun annars vegar og atvinnu hins vegar. Þingmaðurinn talaði mikið um sjávarútveginn en sleppti að ræða um mjög mikinn samdrátt sem hefur átt sér stað í landbúnaði og hann sleppti öðru sem ég tel að skipti mjög miklu máli í þessu sambandi, þ.e. aðstöðu fólks til framhaldsnáms. Þess eru mýmörg dæmi að foreldrar utan af landsbyggðinni þurfi að leigja eða kaupa íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem leiðir seinna til þess að þetta sama fólk flytur á mölina. Það er því gríðarlegur aðstöðumunur hvað þetta varðar og við þurfum í raun að jafna.

Ég var í ónefndu fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtæki í Vestmannaeyjum á dögunum. Þar kom fram að árstekjur fiskvinnslufólks voru 1.350 þús. kr. á ársgrundvelli fyrir árið 1996 og 4,2 millj. kr. hjá sjómönnum. Þrátt fyrir þetta fluttu 150 manns á síðasta ári frá Vestmannaeyjum.