Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 13:00:10 (1189)

1997-11-13 13:00:10# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[13:00]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir margt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni og þann anda sem sveif yfir ræðu hans í ýmsum greinum, en þó er það nú svo að það þarf meira til en góðan vilja einan saman og jákvæða umræðu. Það þarf að taka á ákveðnum grundvallarvandamálum og það er stjórnmálalegt viðfangsefni. Það er rétt að markaðskerfið í heild sinni vísar veginn, þetta óhefta markaðskerfi sem stjórnvöld, ekki bara hér heldur víðast hvar á heimsbyggðinni, hafa verið að ryðja til rúms og leiðir auðvitað allt að einum punkti eðli málsins samkvæmt. En það er ekki viðfangsefni umræðunnar núna.

Ég held að ákveðnir grunnþættir í uppbyggingu okkar samfélags séu þarna lykilatriði og það verður að minna á það í þessari umræðu. Uppbygging stjórnsýslunnar í landinu á árum þegar opinber stjórnsýsla og þjónustusviðið er það sem tekur störfin og þar sem mest eru umsvifin. Það var hörmulegt að á 8. áratugnum voru ekki nægar undirtektir við að skipta landinu í fylki, að búa til héruð í landinu til þess að koma af stað þeirri þróun sem menn nú eru að tala um allt of seint, en þó kannski betra seint en aldrei um ákveðin vaxtarsvæði. Slík uppskipting stjórnsýslunnar er enn þá brýnt viðfangsefni og á að vera á dagskrá. Þar getur ríkisvaldið gengið á undan því að það er fyrst og fremst spurningin um að færa verkefni hins opinbera, og fyrst af öllu það sem við höfum vald á, að færa þau skipulega út á svæðin á landsbyggðinni, út í fylkin. Sameining sveitarfélaga leysir (Forseti hringir.) ekki það mál.

Síðan eru aðrir grunnþættir, virðulegi forseti, sem hv. ræðumaður nefndi eins og samgöngumál og orkumál. Og hvað gera menn? (Forseti hringir.) Hvað gerir núverandi ríkisstjórn í þeim efnum?