Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 13:41:41 (1193)

1997-11-13 13:41:41# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), EKG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[13:41]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi færa hæstv. forsrh. þakkir fyrir ákaflega athyglisverða og góða skýrslu um starf og starfshætti Byggðastofnunar en ég held að það sé kannski meiri þörf á því að ræða þessi mál núna bæði almennt, eins og hér hefur verið gert, og einnig um starf Byggðastofnunar sem hefur verið að taka mjög miklum breytingum upp á síðkastið.

Í fyrsta lagi stöndum við núna frammi fyrir miklu alvarlegri stöðu í byggðamálum en við höfum gert á undanförnum mörgum árum. Það er hraðari flótti af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og það sem er kannski verra er að í mörgum sveitarfélögum þar sem staðan hefur verið bærileg, þá hefur hún verið að versna. Sveitarfélög sem hafa gert meira en að halda í við fólksfjölgunina í landinu hafa verið að láta undan síga og það er kannski það alvarlegasta veikleikamerki sem við sjáum í byggðaþróun í dag. Við höfum upplifað það almennt talað, ef litið er yfir lengri tíma, að byggðaþróun hefur verið á þann veg að landsbyggðin hefur verið að láta undan síga gagnvart höfuðborgarsvæðinu en það er hins vegar nýtt í málinu þegar svo er komið víðast hvar að staða landsbyggðarinnar er orðin svona alvarleg. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál málefnalega og förum ofan í þessa þætti og eitt af því sem við höfum verið að gera m.a. í stjórn Byggðastofnunar, er að við höfum verið að reyna að fara skipulega ofan í þessi mál.

Það vakti satt að segja dálitla undrun hjá mér á sínum tíma þegar ég settist í stjórn Byggðastofnunar að komast að því að ekki lægju fyrir neinar skipulegar eða skjallegar upplýsingar um ástæður búferlaflutninga á landinu. Að vísu var það svo að á vegum Húsnæðisstofnunar, á árinu 1987 hygg ég, fór fram einhver slík athugun en sú athugun er alls ekki nægjanlega ítarleg til þess að við gætum svarað áleitnum spurningum.

Ég get tekið undir að það er orðið býsna langt síðan þessi skýrsla hefði átt að vera tilbúin, en aðalatriðið er að hún mun líta dagsins ljós á næstu dögum og vikum og þá mun eitt og annað mjög fróðlegt koma fram. Það sem hefur verið kynnt af þessari skýrslu, bæði í stjórn Byggðastofnunar og einnig á opinberum vettvangi á sérstakri ráðstefnu sem haldin var, hefur sýnt okkur, og það held ég að sé kannski það mikilvægasta, að ástæður búferlaflutninganna eru mjög margvíslegar. Við héldum áður fyrr að tiltölulega einfalt væri að ráðast gegn vandanum ef við hefðum bara eitt atriðið undir og t.d. ef staða grundvallaratvinnuvega þjóðarinnar væri í lagi, þá væri allt í lagi á landsbyggðinni. En þetta er einfaldlega ekki þannig. Það er að vísu alveg rétt sem hér kom fram í umræðum áðan að auðvitað er það meginforsendan fyrir því að byggð haldist og byggð sé í lagi að staða atvinnugreinanna sem landsbyggðin byggir sitt á sé góð því að þó að allt annað væri gott, skólamál, heilbrigðismál og allt annað, þá væri staðan á landsbyggðinni mjög alvarleg ef grundvallaratvinnuvegir hennar væru ekki í lagi.

En það breytir hins vegar ekki því sem hefur komið fram og er alveg greinilegt á þeim upplýsingum sem við höfum séð af skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, að ástæður byggðaþróunarinnar eru miklu fjölbreytilegri en við kannski töldum og jafnvel mismunandi milli svæða. Það er t.d. alveg dagljóst að ástæður þess að fólk er að flytja af Norðurl. v. eru ekki þær sömu og t.d. frá Vestfjörðum. Það er alveg ljóst að íbúar á Vestfjörðum, Austfjörðum og norðausturhorninu eru miklu óánægðari með stöðu samgöngumála en íbúar t.d. á Suðurlandsundirlendinu eða íbúar á Norðurl. v. Þetta mun koma greinilega fram í þessari athugun og þá kemur að því sem snýr að okkur stjórnmálamönnunum og það er hvernig við munum bregðast við þessu. Hvernig munum við túlka þessa niðurstöðu? Hvernig munum við síðan vinna úr þessu og marka stefnuna til framtíðar? Ég held að hér muni reyna mjög mikið á okkur vegna þess að þetta mun þýða að þegar fram í sækir þurfum við að breyta áherslum. Það getur verið, og meira en það, það er augljóst mál að ef við ætlum að draga eðlilegan lærdóm af þessum niðurstöðum, þeim skilaboðum sem fólkið í landinu er með þessu að segja okkur, þá verðum við að leggja meiri áherslu á vegagerð á stöðum þar sem fólk er mjög óánægt með stöðu mála og gefur auga leið að er einn af ráðandi þáttum þess að fólkið er að yfirgefa heimahaga sína.

[13:45]

Ég held að það sé alveg rétt sem hér hefur verið sagt og m.a. kom mjög glögglega fram í máli hæstv. forsrh., að eitt af því sem skiptir hvað mestu máli er fjölbreytnin, fjölbreytni í atvinnulífinu, fjölbreytni í umhverfinu sem fólk lifir og hrærist í. Ég held reynar að menn átti sig kannski ekki alveg á því hversu fjölbreytnin er þrátt fyrir allt mikil úti á landi. En það sem máli skiptir er það hvernig við getum skapað skilyrði fyrir því að auka fjölbreytni bæði atvinnulífsins og menningarlífsins og mannlífsins í heild. Það gerum við með því að tengja byggðirnar betur saman þannig að það skipti ekki miklu máli hvort menn búi í einu 800 manna bæjarfélagi ef það tengist með daglegum samgöngum við stærri heild þannig að við getum skapað þessa viðspyrnu. Þetta sjáum við m.a. að er að takast að þessu leyti á norðanverðum Vestfjörðum með tilkomu jarðganganna.

Ég sagði áðan að við ættum bara að ræða um byggðamálin almennt þó að það sé mjög freistandi. Ég held að það sé ekkert síður mikilvægt að við ræðum um starfsemi Byggðastofnunar og hvernig hún hefur verið að breytast á undanförnum missirum. Það sem mestu máli skiptir í því sambandi er að á vegum stofnunarinnar hafa verið teknir upp samningar við heimamenn í öllum kjördæmum landsins um atvinnuþróunarstarfsemi. Með þessu erum við að reyna að færa aukinn hlut og aukið forræði til heimamanna sjálfra. Við sjáum þar sem þetta hefur gengið lengst, t.d. á Suðurlandi, að þetta er að skila varanlegum og merkjanlegum árangri. Hægt er að benda á að starfsemi Atvinnuþróunarfélagsins með tilstyrk Byggðastofnunar hefur verið að skapa ný störf, tugi nýrra starfa á Suðurlandi, sem ella hefðu ekki komið þangað. Með þessu er verið að gera svæðið byggilegra. Með þessu er verið að gera það að verkum að möguleikar fólks til þess að kjósa sér búsetu eru fleiri. Fólk er með öðrum orðum ekki neytt til þess að setjast niður á eitt svæði vegna þess að þar á því eina svæði eru til staðar þessir fjölbreytilegu kostir. Það er nákvæmlega þetta, virðulegi forseti, sem ég held að við eigum að reyna að leggja mikla áherslu á, að efla þessa atvinnuþróunarstarfsemi.

Það er nefnilega þannig, eins og hér hefur komið fram, að búsetuþróunin er ekkert einkamál dreifbýlisins. Það er ekkert einkamál þeirra sem búa úti í hinum dreifðu byggðum hvernig mál eru að skipast vegna þess að þéttbýlismyndun er mjög kostnaðarsöm. Fyrir um það bil átta árum, árið 1989, gaf Byggðastofnun út rit sem heitir Kostnaður þéttbýlismyndunar um áhrif fólksflutninga á höfuðborgarsvæðið, þar sem m.a. er dregið saman hvernig á mörgum sviðum höfuðborgin, íbúar þar og sveitarfélagið og þar með ríkið jafnframt, verður fyrir miklum kostnaði af þéttbýlismynduninni. Nefnd eru skólamál, dagvistunarmál, heilsugæsla, vegagerð, ferðakostnaður almennings, sorphirða, lóðakostnaður, svo nokkur atriði séu nefnd sem eru bókstaflega íþyngjandi fyrir sveitarfélögin, íbúana og ríkið. Þess vegna skiptir mjög miklu máli fyrir okkur og fyrir lífskjörin í framtíðinni hvernig við munum standa að því að framfylgja þessari byggðastefnu.

Byggðastefnan hefur nefnilega verið á margan hátt framkvæmd með öfugum formerkjum. Við köllum það að vísu ekki byggðastefnu þegar við tökum ákvörðun um að leggja mikið fé í uppbyggingu heilbrigðismála á höfuðborgarsvæðinu. Þá heitir það heilbrigðismál. Þá heitir það að koma til móts við eðlileg sjónarmið í þessum efnum. Þegar við hins vegar stöndum frammi fyrir því að það hallar á í heilsugæslu eða sjúkrahúsum á landsbyggðinni og þingmenn bregðast til varnar, þá heitir það kjördæmapot. Þá heitir það ekki heilbrigðismál, heldur kjördæmapot. Þannig er þetta á mörgum sviðum. Það heitir ekki kjördæmapot þegar menn eru að reyna að berjast fyrir því markmiði, sem ég tek undir, að efla menningarstarfsemi, t.d. Þjóðleikhússins, Sinfóníuhljómsveitarinnar eða eitthvað þvíumlíkt. Það heitir menningarmál. Það heitir framlag til þess að efla íslenska menningu og íslenskt þjóðerni og ég veit ekki hvað. Ef aftur á móti þingmanni Austurlands dettur í hug að kannski sé ekkert óeðlilegt að Alþingi styrki djasshátíð á Egilsstöðum um 300 þúsund, þá kemur óðar upp: ,,Þetta er kjördæmapot. Þetta er tilraun til þess að skara eld að sinni köku, til þess að gera sig vinsælan í hópi sinna kjósenda.`` Þannig er þetta, virðulegi forseti. Það er eins og sjónarhóllinn sé svo skakkur. Hann er svo einkennilegur þegar kemur að þessu og það er nákvæmlega þetta sem við sjáum birtast í hinni stórfurðulegu skýrslu Aflvaka sem er ekki furðuleg nema fyrir þeirra hluta sakir að hún hefur fengið svona einhvers konar gæðavottorð frá atvinnumálanefnd Reykjavíkur. Og svo einkennilegt sem það er, þá er því haldið þar fram að það sé dæmi um byggðastefnu að lán banka renni að einhverju leyti út á land og Landsbankinn fær sérstaka gusu úr þessari skýrslu um að það sé einhvers konar byggðastefnuvinkill á því að hann láni mikla peninga til Norðurl. e. og Vestfjarða. Ég verð nú að taka upp hanskann fyrir þennan góða banka. (Gripið fram í: Vanur því.) Vanur því? Bankinn er að lána til sjávarútvegs. Þannig er að sjávarútvegur er stór og umsvifamikill á Vestfjörðum og Norðurl. e. og sjávarútvegur er fjárfrek starfsemi og það hefur ekkert með byggðamál að gera að sjávarútvegur þarf mikla lánafyrirgreiðslu eðli málsins samvæmt. Við getum spurt okkur að því hvort við ættum ekki að draga alveg öfugan lærdóm af þessu. Bankarnir lifa á vaxtamun og vaxtamunurinn myndast af því að geta lánað út peninga og uppbygging bankastarfseminnar hefur eins og allir vita verið á höfuðborgarsvæðinu. Eigum við þá kannski að segja að það sé byggðastefna með öfugum formerkjum að það er verið að lána peninga út á land vegna þess að vaxtamunurinn nýtist auðvitað til uppbyggingar fyrir þessar bankastofnanir? Við sjáum af þessu að það er náttúrlega alveg fáránleg umræða sem fer fram í byggðamálum í landinu.

Ég kom að því áðan að á vegum Byggðastofnunar hefði verið gripið til margs konar aðgerða til að styrkja stöðu stofnunarinnar og sérstaklega til að gegna betur því hlutverki sem henni er ætlað. Það sem fyrst og fremst stendur upp úr er þessi uppbygging og stuðningur við atvinnuþróunarstarfsemina og það er rökrétt framhald af þeirri stefnumótun að nú hefur verið ákveðið, mótatkvæðalaust í stjórn Byggðastofnunar, að flytja hluta stofnunarinnar norður á Sauðárkrók. Ég verð í fyrsta lagi að vekja athygli á því að Byggðastofnun hefur nú þegar starfsemi í Reykjavík, á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Egilsstöðum þannig að það er ekkert nýtt að stofnunin sé ekki undir einu þaki. Við erum einfaldlega að segja sem svo: Þessari starfsemi er ákaflega vel komið fyrir úti á landsbyggðinni á Sauðárkróki og möguleikarnir til þess að sinna henni þaðan eru síst af öllu lakari en þeir eru hér. Hvað er þá óeðlilegt við það að við tökum þessa ákvörðun? Það er auðvitað ekkert óeðlilegt við það. Að þessu leytinu er Byggðastofnun að fara inn á sömu brautir og fyrirtækin hafa verið að gera í landinu. Stóru fyrirtækin hafa verið að opna útibú og færa hluta af sinni starfsemi út um landsbyggðina. Eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson vakti athygli á í Morgunblaðinu í dag, þá á það við um Sölumiðstöðina. Þetta á við um Eimskip. Þetta á við um dagblaðið Dag sem er starfrækt með tveimur ritstjórnarskrifstofum og algjörlega án nokkurra vandamála. Og svo ætla menn að halda því fram að deild fimm manna sem eru að vinna að þróunarmálum geti ekki starfað norður á Sauðárkróki. Það er náttúrlega hvorki hægt að hlæja að þessu né gráta yfir því, það er bara átakanlegt að heyra menn halda fram svona vitleysu.

Ég held að það sé eðlilegt að Byggðastofnun þvert á móti haldi áfram á þessari braut og ef menn hafa reynt að lesa í þá umræðu sem hefur farið fram hérna í dag, þá sjá menn að það er alls staðar krafa um að stofnunin taki til í sínum ranni og breyti sínum starfsháttum og efli sig þannig. Og það að breyta engu í starfsemi Byggðastofnunar er vísasti vegurinn til þess að stofnunin trosni upp og verði að engu. Þannig verður hún bara eins og saltstólpi sem á sér enga lífsvon og þess vegna er algjörlega óhjákvæmilegt að henni sé breytt og taki mið af þeim aðstæðum sem uppi eru og það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. segir, að tilkoma t.d. Nýsköpunarsjóðs hlýtur að gjörbreyta umhverfi stofnunarinnar og tilkoma atvinnuþróunarfélaganna og þátttaka þeirra í atvinnuráðgjöfinni sem við höfum verið að efla hlýtur að hafa mikil áhrif á það hvernig við ætlum að hafa útibúakerfi Byggðastofnunar. Ég held að næsta verkefni okkar hljóti að vera að skoða nákvæmlega hvernig við getum samhæft það betur og síðan munum við halda áfram í þessum efnum því það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að þessi stofnun verður að taka sínum breytingum eins og allir aðrir.