Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 13:59:24 (1195)

1997-11-13 13:59:24# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[13:59]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vakti athygli á því að það er fráleitt í sjálfu sér að vera að bera saman þetta hlutfall inn- og útlána vegna þess að sumir landshlutar eru einfaldlega þannig að þar er atvinnulíf sem er fjárfrekara en annars staðar. Þess vegna finnst mér þessi umræða vera mjög sérkennileg.

Ég talaði um það hér áðan að látið hefði verið í veðri vaka að þetta væri óeðlilegt og í þessu fælist einhvers konar hálfgerður byggðastyrkur af hálfu bankanna.

Ég vil hins vegar vekja athyglí á því að ef við sleppum afurðalánunum og berum þá saman innlánin og útlánin, þá blasir við dálítið athyglisverð mynd. Ef við tökum bara Vestfirðina þá eru innlánin þar tveir milljarðar og útlánin tveir milljarðar þannig að við sjáum af þessu, virðulegi forseti, að mismunurinn eru afurðalán sem stafar einfaldlega af því að sjávarútvegurinn er svo stór hluti af atvinnulífinu á Vestfjörðum og gerir það að verkum að veltutölur þar, t.d. á hvern mann, eru allt aðrar en þar sem atvinnulífið er ekki jafnháð sjávarútvegi eins og gerist víða út um landið.

Í Vikublaðinu er frásögn af þessari skýrslu og það segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Skýrsluhöfundur lítur á framangreinda þróun [það er í sambandi við útlánin] sem vísbendingu um aukna áherslu á arðsemi í útlánum bankanna enda afskriftir þeirra á undanförnum árum, ekki síst Landsbankans, vísbending um að útlánastefna hafi fremur einkennst af byggðasjónarmiðum og björgunaraðgerðum en arðsemi þeirra fjárfestinga sem farið hefur verið út í.``

Þarna er auðvitað greinilega verið að draga þessa ályktun af matreiðslu skýrslunnar, nákvæmlega í þeim dúr sem ég hef verið að vekja athygli á, að það er svona undir rós látið í veðri vaka að þetta sé eitthvað óeðlilegt, að þetta sé byggðaaðgerð, þegar einfaldlega er verið að lána inn á svæði þar sem fjárfrek atvinnustarfsemi fer fram.