Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 14:05:39 (1198)

1997-11-13 14:05:39# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[14:05]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að lesa nýjustu ársskýrslu Byggðastofnunar þar sem kemur skýrt fram að mikil breyting til hins betra varð á rekstri fyrirtækja á landsbyggðinni á síðasta ári og efnahagur þeirra flestra stórbatnaði. Að sjálfsögðu speglast þetta í afkomu Byggðastofnunar sem skilaði 127 millj. kr. hagnaði á árinu, fyrst og fremst vegna þess að hægt var að lækka verulega framlag til afskriftareiknings útlána, eða úr 321 millj. kr. niður í 171 milli ára, enda stórbötnuðu skil við stofnunina á árinu og m.a. innheimtust verulegar upphæðir af útistandandi lánum sem áður höfðu verið afskrifuð. Skil á lánum hafa ekki verið betri í annan tíma og vanskil um áramótin voru í lágmarki. Mér finnst ástæða til að geta um þetta hér við þessa umræðu vegna þess að stórbættur hagur fyrirtækja á landsbyggðinni skiptir auðvitað gríðarlegu máli þegar rætt er um byggðamálin. Það er styrk stjórn efnahagsmála undanfarin ár sem hefur lagt grunninn að þessum bætta hag fyrirtækjanna og minnir okkur á mikilvægi þess að halda stöðugleikanum og lágri verðbólgu. Það skiptir auðvitað sköpum fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni, sem að langstærstum hluta byggist á útflutningsframleiðslu, að stöðugleikinn haldist og rekstrarumhverfi atvinnuveganna sé viðunandi.

Byggðastofnun lánaði talsvert meira fé á síðasta ári en á undanförnum árum. Þar munar mestu að eftir að Alþingi setti lög sem drógu úr óvissu um aflaheimildir smábáta tók stofnunin upp nýjan lánaflokk fyrir þessa tegund útgerðar. Veruleg ásókn varð í þessi lán og þau námu á fjórða hundrað millj. kr. á árinu.

Með tilstyrk Byggðastofnunar var unnið mikið nýsköpunarstarf á landsbyggðinni á árinu. Þar ber hæst starf atvinnuráðgjafa sem nutu stóraukins stuðnings frá stofnuninni. Stjórn Byggðastofnunar, undir forustu Egils Jónssonar, formanns, mótaði nýja stefnu varðandi framlög til atvinnuráðgjafarinnar þannig að í stað þess að styrkja einstök verkefni, sveitarfélög eða félagasamtök er nú gerður samningur við atvinnuþróunarfélög og samtök sveitarfélaga í hverju kjördæmi, þar sem Byggðastofnun leggur fram tæpar 9 millj. kr. árlega og sveitarfélögin annað eins til að annast ráðgjöf á sviði almennrar atvinnuþróunar, ferða-, markaðs- og sölumála í viðkomandi kjördæmi. Starfsemin er síðan undir einum hatti í hverju kjördæmi þar sem ráðgjafarnir vinna saman að fjölbreyttum verkefnum en eru síðan með fastan viðtalstíma vítt og breitt um svæðið. Starfsemi með þessum hætti fór fyrst af stað í þremur kjördæmum á síðasta ári, Austurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi, og þykir hafa tekist mjög vel til. Á þessu ári hafa síðan verið gerðir sams konar samningar við önnur kjördæmi.

Það er ekki nokkur vafi á því að þessi aðferð skilar betri árangri en að dreifa þessu fé tilviljanakennt eins og áður var gert, auk þess sem framlög til þessarar atvinnuþróunar hafa verið stóraukin. En auðvitað ræðst árangurinn af því að gott fólk fáist til starfa og vel sé staðið að málum heima í kjördæmunum og þá ekki síst að samstaða sé meðal sveitarstjórnarmanna um þessa starfsemi og að menn leggi gömlu, góðu hreppapólitíkina til hliðar. Ég hef ekki orðið var við annað en að þannig sé að málum staðið og að miklar vonir séu víðast hvar bundnar við þessa stórauknu atvinnuráðgjöf. Þarna er verið að færa forræðið í þróunarmálum heim í hérað, í hendur fólksins sem þar hefur forustu í atvinnu- og félagsmálum. Þessi stóraukna áhersla Byggðastofnunar á atvinnuþróun fær góða einkunn í Morgunblaðinu í dag þar sem Óli Rúnar Ástþórsson hagfræðingur og framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands segir, með leyfi forseta:

,,Frá því að samningurinn við Byggðastofnun var undirritaður og til liðinna mánaðamóta hefur sjóðurinn staðið með beinum eða óbeinum hætti að stofnun á þriðja tug fyrirtækja sem hafa skapað eða munu skapa á annað hundrað störf á svæðinu. Fjárfestingar vegna þessara nýju fyrirtækja innan svæðis eru taldar vera liðlega 500 millj. kr.``

Það er því ástæða til að endurtaka það að þarna er rétt að málum staðið og líklegt að þessi atvinnuráðgjöf muni bera meiri árangur heldur en áður þegar styrkjum til slíkrar starfsemi var dritað út og suður meira og minna tilviljanakennt.

Byggðastofnun hefur lagt mikla vinnu í athuganir á stöðu bænda og afurðastöðva landbúnaðarins og hefur reyndar fengið til þess sérstök framlög á fjárlögum. Stjórn stofnunarinnar mótaði stefnu um stuðning við afurðastöðvar sem stunda útflutning á unnu dilkakjöti en veruleg aukning hefur orðið á þeim útflutningi og ástæða til að binda vonir við að svo verði áfram. Byggðastofnun hefur einnig styrkt fjölmörg nýsköpunarverkefni á sauðfjársvæðunum sem horfa til þess að skapa ný störf til að mæta þeim mikla samdrætti sem orðið hefur í sauðfjárbúskapnum á undanförnum árum.

Á árinu voru veittir allmargir styrkir til bænda sem vildu hefja loðdýrarækt í ónotuðum loðdýrahúsum og voru styrkirnir ætlaðir til lífdýrakaupa. Það hefur verið í tísku í allmörg ár að benda á loðdýrarækt og fiskeldi sem dæmi um vonlausan rekstur sem aldrei hefði átt að fara út í. Staðreyndin er nú samt sú að loðdýraræktin hefur verið á uppleið á undanförnum árum og virðist vera ágætis búgrein þar sem skynsamlega er á málum haldið. Það hafa verið ónotuð loðdýrahús vítt og breitt um sveitir landsins og víðast hvar ekki mikill kostnaður við að hefja búskap í þeim. Það sýnist því skynsamlegt að gera það þar sem vinnuafl er fyrir hendi og aðstaða til fóðuröflunar viðunandi.

Þegar Byggðastofnun ber á góma virðast styrkveitingar hennar oftast vera ofarlega í hugum manna. Vissulega má gagnrýna einstakar styrkveitingar þar sem viðkomandi verkefni hefur ekki gengið upp en það er ekki spurning að langstærstur hluti þeirra hefur gert það gagn sem til er ætlast. Nefna má mörg dæmi um verkefni sem Byggðastofnun hefur styrkt og orðið hafa til þess að skapa fjölmörg störf. Í ársskýrslu stofnunarinnar eru nefnd nokkur dæmi um slíkar styrkveitingar, t.d. til hins athyglisverða fyrirtækis Aldins hf. á Húsavík sem hóf starfsemi sína á síðasta ári og er í dag með á annan tug starfsmanna. Þetta fyrirtæki flytur inn, sagar niður og þurrkar norður-amerískan harðvið og selur til Evrópu. Það er vissulega ánægjulegt fyrir Byggðastofnun að aðstoða við að koma slíku fyrirtæki á laggirnar þar sem hugmyndaflug, áræði og þekking heimamanna leiðir af sér fjölda nýrra starfa.

Annað áhugavert verkefni sem Byggðastofnun lagði lið á árinu var athugun á áhrifum raflýsingar í garðrækt. Að því verkefni komu, auk Byggðastofnunar, garðyrkjubændur, Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Garðyrkuskóli ríkisins og búnaðarfélög. Þessa athuganir hafa einkum beinst að því hvort stýra megi lýsingu í garðrækt þannig að hún falli utan helsta álagstíma veitukerfisins en þannig mætti hugsanlega útvega garðyrkjubændum rafmagn á nægjanlega hagstæðu verði til að íslenskt grænmeti og blóm geti keppt við innflutt að vetrarlagi.

Athuganir af þessu tagi taka langan tíma og það er enn of snemmt að spá um eða alhæfa um hagkvæmni raflýsingar fyrir hefðbundnar tegundir grænmetis og blóma hérlendis en fyrstu niðurstöður sýna þó að tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að nota raflýsingu við ræktun tómata og blóma. Agúrkur hafa verið ræktaðar með vetrarlýsingu á síðustu árum og hefur markaðshlutdeild þeirra náð að verða liðlega þriðjungur á þeim tíma sem innflutt grænmeti er ótollað, þrátt fyrir talsverðan verðmun, sem sýnir auðvitað að verulegur hluti íslenskra neytenda virðist vilja borga meira fyrir innlent grænmeti en innflutt að vetrarlagi enda um miklu betri vöru að ræða. Ég nefni þetta hér vegna þess að garðyrkjan er mikilvæg atvinnugrein á landsbyggðinni, einkum á Suðurlandi og Vesturlandi með um 500 ársverk, og niðurstöður þessara rannsókna geta skipt þessa grein miklu máli.

Ég nefni eitt dæmi enn sem er lítill styrkur til undirbúnings fyrir stofnun alþjóðlegs björgunarskóla að Gufuskálum. Heimamenn í Snæfellsbæ hafa um nokkurt skeið unnið að undirbúningi þessa verkefnis í samráði við slysavarnafélögin og Landsbjörg. Hugmyndin er að nota byggingar sem til eru á staðnum, þar sem áður var þjónusta lóranstöðvar varnarliðsins sem var aflögð fyrir tveimur til þremur árum. Meining forráðamanna varnarliðsins var að jafna þessar byggingar við jörðu. Stærstur hluti þeirra eru ágætis hús sem sum hver höfðu nýlega verið standsett fyrir tugi milljóna þegar lóranstöðinni var lokað. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja þessu máli lið og ljóst er að björgunarskólinn á Gufuskálum getur orðið góð viðbót við atvinnulífið í Snæfellsbæ en mörg hálaunastörf hurfu af því svæði þegar lóranstöðinni var lokað.

[14:15]

Ég hef nefnt þrjú dæmi um verkefni sem Byggðastofnun hefur stutt á árinu og skipta máli fyrir landsbyggðina. Það mætti tína til mörg fleiri dæmi um styrkveitingar Byggðastofnunar á árinu en ég ætla að láta hér staðar numið. Þeir sem vilja geta kynnt sér þessar styrkveitingar í skýrslu stofnunarinnar sem hefur þann ágæta sið að birta lista yfir alla styrki og allar lánveitingar ársins í ársskýrslu sinni og mættu ýmsir taka sér það vinnulag til fyrirmyndar.

Ekkert lát hefur verið á búferlaflutningum fólks af landsbyggðinni á undanförnum árum. Það er oft erfitt að skilgreina ástæður þessara flutninga ekki síst á þeim stöðum þar sem atvinnulífið er blómlegast. Nefna má fjölmarga staði vítt og breitt um landið þar sem mikil uppbygging hefur verið í atvinnulífinu, fyrirtæki hafa fjárfest fyrir hundruð milljóna og jafnvel milljarða, atvinna er yfirfljótandi og tekjur góðar en samt flyst fólk burtu og íbúum fækkar. Vinnuaflsþörfinni er svo mætt með erlendu verkafólki og heimamenn fara oft úr öruggu starfi og mikilli vinnu og flytja suður þó þeirra bíði ekki neitt öryggi hér hvað varðar atvinnu.

Þetta er vissulega mikið áhyggjuefni og hefur verið rætt af mörgum hv. þm. í þessari umræðu. Málið er erfitt viðfangs. Stjórn Byggðastofnunar hefur fjallað mjög ítarlega um hverjar séu helstu ástæður flutnings fólks af landsbyggðinni og hvernig bregðast skuli við. Stefán Ólafsson prófessor hefur á undanförnum mánuðum verið að vinna að skýrslugerð um ástæður þessara miklu búferlaflutninga og því verki er nú um það bil að ljúka. Meðal þess sem hann hefur kannað eru viðhorf fólks til þess hvernig því finnst ýmsir málaflokkar sem snúa að lífsháttum fólks hafa þróast á sl. fimm árum. Til að fá svör við því var framkvæmd umfangsmikil skoðanakönnun í vor þar sem 1.200 manns, 200 manns í hverju landsbyggðarkjördæmi voru spurðir. Niðurstöður þessarar könnunar voru mjög athyglisverðar því að í ljós kom að það voru miklu fleiri þættir sem fólk á landsbyggðinni var ánægt með hvernig höfðu þróast á þessum fimm árum en það sem fólk var óánægt með. Ég tek sem dæmi Vesturland þar sem ég þekki best til. Þar voru aðspurðir ánægðir með 13 af þeim 18 málaflokkum sem spurt var um. Mest var ánægjan með möguleika á íþróttaiðkun, þjónustu við aldraða, vöruval, dagvistunarmál, verðlag, úrval þjónustu, vegamál, grunnskóla og heilbrigðisþjónustu. En fólk var óánægðast með þróun atvinnutækifæra, fasteignaverð og fjölbreytni atvinnulífs. Einhæfni atvinnulífsins var einmitt það sem þátttakendur í þessari skoðanakönnun voru ósáttastir við um allt land. Ég er ekki í vafa um að þessi einhæfni á stóran þátt í brottflutningi fólks frá þeim stöðum á landsbyggðinni sem ég gat um áðan þar sem atvinnulíf er í mestum blóma. Þess vegna tel ég þá stórauknu áherslu sem Byggðastofnun leggur á öfluga atvinnuráðgjöf í öllum landshlutum mjög þýðingarmikla og geta þar sem vel tekst til skipt sköpum.

Í síðasta mánuði lagði þróunarsvið Byggðastofnunar fram greinargerð um byggðir sem standa höllum fæti. Í þessari greinargerð er einmitt lögð mikil áhersla á mikilvægi fjölbreytni í atvinnulífinu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Einhæft atvinnulíf og atvinnulíf sem byggir á greinum sem ekki eru í vexti hefur neikvæð áhrif á búsetuþróun og tekjur sveitarfélaga minnka. Með minnkandi tekjum verður sífellt erfiðara að halda uppi nauðsynlegri grunnþjónustu á vegum sveitarfélagsins og aðgengi að skóla og heilsugæslu minnkar sem enn hefur neikvæð áhrif á búsetuþróun.``

Þetta er auðvitað hárrétt skilgreining. Í þessari greinargerð eru þau sveitarfélög talin sýna hættumerki um þróun búsetu þar sem íbúaþróun undanfarinna ára uppfyllir annað tveggja eftirtalinna skilyrða: Annars vegar að fækkun undanfarin tíu ár frá 1986--1996 hafi verið meiri en 10% eða að fækkun undanfarin fjögur ár 1992--1996 hafi verið meiri en 6%. Þar sem þessi sveitarfélög ná yfir heilt svæði og þéttbýli á svæðinu sýnir einnig þessi hættumerki þá er talið að búseta á svæðinu öllu sé í hættu jafnvel þótt einstök sveitarfélög uppfylli ekki ofangreind skilyrði um búsetuþróun.

Þá kemur fram í þessari greinargerð þróunarsviðsins að í sveitarfélögum sem sýna hættumerki hvað varðar íbúaþróun búa 13% þjóðarinnar eða tæplega 32 þúsund manns. Þó eru þetta yfir 60% sveitarfélaga í landinu sem helgast náttúrlega af því að þetta eru flest þeirra fámennustu, meðalfjöldi íbúa er aðeins rétt 300. Á samfelldu hættusvæðunum búa svo ríflega 21 þúsund manns eða 8% þjóðarinnar. Það kemur glöggt fram í þessari greinargerð að brottflutningur er langmestur úr strjálbýlinu. Ef strjálbýli án þéttbýlis er skoðað eitt og sér á grundvelli sýslna utan höfuðborgarsvæðisins þá er um að ræða fólksfækkun í öllum tilfellum frá 1986--1996. Þannig var fækkun í strjálbýli 11% á Reykjanesi að Straumi, 16% á Vesturlandi, 32% á Vestfjörðum, 19% á Norðurlandi vestra, 12% á Norðurlandi eystra, 20% á Austurlandi en ekki nema 8% á Suðurlandi. Fækkun í strjálbýli í heild var því 15% en fækkun á landsbyggðinni allri utan höfuðborgarsvæðisins á sama tíma var 0,6%. Á þessu árabili var hins vegar 11% fjölgun í landinu í heild.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Umræðan um mikinn kostnað við landsbyggðina gýs alltaf upp öðru hverju. Flestir muna eftir upplýsingum Ríkisendurskoðunar um fórnarkostnað við byggðastefnuna fyrir einu ári og þeim fáránlegu útreikningum sem þar lágu að baki. Nýlega var birt skýrsla Aflvaka sem mjög hefur verið vitnað til í þessari umræðu og það ekki að ástæðulausu þar sem enn er alið á tortryggni höfuðborgarbúa í garð landsbyggðarinnar. Öðru hverju birtast svo spámenn sem vilja leggja Byggðastofnun niður og finna starfsemi hennar allt til foráttu. Ég er þessu algjörlega ósammála og tel starfsemi Byggðastofnunar mjög þýðingarmikla fyrir landsbyggðina og er ekki í vafa um að þessi starfsemi og þá ekki síst þær nýju áherslur sem hafa verið lagðar og ég hef gert hér að umræðuefni, verði til að efla landsbyggðina.