Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 14:44:37 (1201)

1997-11-13 14:44:37# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[14:44]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Á skýrslu Byggðastofnunar sem hér er til umræðu má sjá að verkefni hennar eru mörg og víðfeðm. Starfsemi Byggðastofnunar hefur í áranna rás verið að þróast og breytast. Með stöðugra efnahagslífi og endurskipulagningu í sjávarútveginum hefur starfsemi hennar verið að ná meira jafnvægi. Á starfstíma sínum hefur Byggðastofnun gjarnan verið í því hlutverki að bregðast við bráðavanda atvinnufyrirtækja sem hafa verið burðarásar atvinnulífs í sínu byggðarlagi.

Ekki ætla ég að halda því fram að svo verði ekki áfram að einhverju leyti og nauðsynlegt sé að slíkur aðili verði til, en þörfin virðist nú um stundir vera minni en oft áður. Allt efnahagslífið er heilbrigðara nú. Þess gætir auðvitað í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar sem eru, eins og menn kannski gera sér grein fyrir, staðsettar á landsbyggðinni. En nú gefast tækifæri til að líta til fleiri átta.

Eitt af því sem ég tel afar jákvætt er að stutt hefur verið við handverksfólk víða um land. Samdráttur í landbúnaði og aukið atvinnuleysi hefur leitt til þess að fólk hefur reynt að skapa sér ný störf í heimahéraði. Handverk og smáiðnaður er því vaxandi víða og er nauðsynlegt að hlúa að og styðja slíkt framtak. Það hefur einnig handverksverkefni á vegum forsrn. gert og er það mjög lofsvert. Þarna er vaxandi atvinnugrein og mjór er mikils vísir í þessu.

Einnig er mjög gleðilegt að ungt og vel menntað fólk í hönnunargreinum hefur verið að skapa sér starfsgrundvöll. Um það má nefna dæmi t.d. á Egilsstöðum og víðar um land þar sem fyrirtæki á þessu sviði hafa nú skotið sterkum rótum. Þar starfar vel menntað fólk í hönnun og markaðssetningu og verið er að byggja upp fyrirtæki sem tvímælalaust eiga mikla framtíð fyrir sér. Fatahönnuðir eru að framleiða úr hreindýraleðri klassískan fatnað og einnig hátískuvörur, sem eru dæmi um að verið er að framleiða gæðavöru úr því hráefni sem einkennandi er fyrir Austurland. Til þessa þurfum við að horfa í miklu ríkari mæli, þ.e. að Íslendingar nýti öll gæði og auðlindir landsins. Jafnframt er ungt og vel menntað fólk að skapa sér lífsgrundvöll í heimabyggð.

En þetta unga fólk þarf á fé að halda á meðan það er að ná fótfestu. Þolinmæði banka og lánastofnana er oft og tíðum ekki mjög mikil þegar til þessara atvinnugreina er litið og hvað þá ef þær eru staðsettar á landsbyggðinni. Því hlýtur Byggðastofnun að styðja við þessa vaxtarsprota sem víða eru að skjóta rótum.

Ég vil nefna aðra gleðilega stefnubreytingu hjá Byggðastofnun, þ.e. að gerast aðilar að svonefndum þróunarstofum. Þróunarstofur þessar eru með aðild atvinnuþróunarfélaga, sveitarstjórna og fyrirtækja og eru síðan styrktar af Byggðastofnun. Þarna er í raun verið að styrkja starfsemi atvinnufulltrúa og ferðamálafulltrúa. Starfsgrundvöllur þeirra verður mun traustari og markvissara starf getur því átt sér stað. Eins og mikið er talað um nú eru upplýsingar og þekking einn aðaldrifkraftur nýsköpunar í atvinnulífi þjóða. Þekkingin er einnig undirstaða þess að atvinnulífið sé það sem kallað er heilbrigt, þ.e. að stofnun nýrra fyrirtækja og markaðssetning nýrrar vöru í fyrirtæki sé viðunandi ör, líftími fyrirtækja sé langur og gjaldþrotatíðni lág. Einnig að það skapi störf sem séu eftirsóknarverð og til þess fallin að mæta þeim kröfum sem við sjáum fyrir okkur að fólk muni gera til starfa á komandi árum.

Varðandi þekkinguna og upplýsingarnar, þá liggur ljóst fyrir að allar helstu uppsprettur hennar eru í Reykjavík. Þar eru atvinnuvegaráðuneytin, rannsóknastofnanirnar, rannsóknastofnanir atvinnuveganna, Iðntæknistofnun, Útflutningsráð, háskólinn, tækniskólinn og ómæld önnur menntunar- og ráðgjafarstarfsemi, m.a. sú sem samtök atvinnurekenda hafa á sínum vegum. Jafnljóst er að þeir sem búa lengst frá Reykjavík eins og t.d. Austfirðingar og Vestfirðingar, eru eins langt frá þessum uppsprettum og hægt er að vera og því er fyrirhafnarmikið og dýrt að hafa not af þessum stofnunum. Þar af leiðandi hefur minni þekking náð inn í fyrirtæki sem fjærst eru. Það er mjög alvarlegt með tilliti til þeirrar þróunar sem nú þegar er fyrirsjáanleg í atvinnulífinu.

Mörg fyrirtæki eru að átta sig á því nú að það er nauðsynlegt að þau komist yfir aukna þekkingu og geta bætt stjórnun, vöruþróun, markaðssetningu og fleira. Þá kemur að því sem áður er sagt að það er fyrirhafnarmikið að komast yfir þekkinguna af því að hún er sjaldnast til á landsbyggðarsvæðum. Við bætist svo það að kostnaðurinn við að afla hennar er óheyrilega mikill, oft svo mikill að það er einfaldlega ekki hægt að komast yfir hana. Sem dæmi má nefna að í Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands er afar hagnýtt nám, m.a. á viðskiptasviði og fleiri sviðum, sem byggt er upp með þeim hætti að hægt er að stunda atvinnu með náminu. Nám sem mundi nýtast einkar vel úti á landsbyggðinni, Austurlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi eða hvar sem er, en það er svo gott sem útilokað að nálgast þessa menntun. Því er hægt að nefna það hér að skólar og sveitarfélög á Austurlandi hafa tekið höndum saman um að byggja upp miðstöð á sviði háskólamenntunar, þ.e. sí- og endurmenntunar sem er ákaflega mikilvægur þáttur í því að reyna að koma þekkingunni til landsbyggðarinnar. Úr þessum þekkingarskorti og kostnaði við að afla þekkingar í fyrirtækjum má bæta með því að efla og tryggja framtíð þróunarstofa á landsbyggðinni með því að flytja til þeirra stöðugildi frá stofnunum í Reykjavík, t.d. Iðntæknistofnun og Útflutningsráði, fá samtök í atvinnulífinu, svo sem Samtök iðnaðarins og VSÍ til að veita ráðgjöf og þjónustu inn á svæðin í samstarfi við þróunarstofur og fleira af þessu tagi mætti nefna. Eins þarf að styðja við starfsemi einkaaðila sem eru að hasla sér völl á þekkingar- og upplýsingasviðinu.

Eitt vil ég nefna líka og það er Háskólinn á Akureyri. Ég held að hann sé merkilegt framtak í byggðamálum þar sem það sýnir sig að um 80% af þeim sem útskrifast frá Háskólanum á Akureyri setjast að á landsbyggðinni og auka þar með við þekkingu og menntunarstig landsbyggðarinnar.

Það hefur sýnt sig að peningar, styrkir og hagstæð lán duga skammt til þess að efla þróun byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni ef annað fylgir ekki með. Peningar í rekstur og verkefni þar sem réttu þekkinguna vantar fara í flestum tilfellum til spillis eins og mörg dæmi sanna því miður. Það er einnig tilgangslítið að setja fé í rekstur sem ekki er líklegur til að verða samkeppnisfær við það sem annars staðar er. Aðilar með góða þekkingu en lítið fjármagn eiga að vísu erfitt uppdráttar en möguleikar þeirra eru þó meiri heldur en hinna sem hafa næga peninga en vantar þá þekkingu sem þarf að vera fyrir hendi. Því er skoðun mín sú að skref þau sem Byggðastofnun hefur verið að stíga séu framfaraskref. Þróunarstofur þar sem þekkingu á atvinnulífinu og staðháttum er safnað saman eru líklegar til að standa að jákvæðri þróun atvinnulífs á landsbyggðinni.

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að nefna þátt fjölmiðla í þeirri umfjöllun sem byggðamál hljóta í landinu. Það er ekki bara hér á Alþingi sem við ræðum um byggðamál. Þau fá töluverða umfjöllun í fjölmiðlum en oft og tíðum með dálítið undarlegum hætti og misjafnlega djúpvitur umræða sem þar fer fram.

Eitt innlegg í þá umræðu var svonefnd Aflvakaskýrsla sem kom út nú fyrir mánuði eða svo. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað hefur legið á bak við þá miklu vinnu sem væntanlega liggur í skýrslunni. Hún hefur kostað mikið fé. Aflvaki er hlutafélag sem stofnanir borgarinnar eiga, þ.e. Reykjavíkurborg, hafnarsjóðurinn hér í Reykjavík, veitustofnanirnar hér og fleiri aðilar væntanlega sem koma þar að. Fyrirtækið hefur lagt töluvert fé í að búa til þessa skýrslu, Framlög ríkisvaldsins: landsbyggð -- höfuðborgarsvæði. Það er athyglisvert að þarna er verið að safna saman einhvers konar hagfræðilegum upplýsingum og þær settar saman á mjög merkilegan hátt. Ákveðin framsetning sem sennilega er ekki hægt að misskilja. Alla vega eins og hún ér í því skýrsluágripi sem fylgdi skýrslunni og er væntanlega til að matreiða fyrir fjölmiðla. Eina svarið sem ég hef getað fengið úr allri þessari lesningu, hvers vegna menn eru að fara í slíka vinnu og slíkan kostnað, er að á baksíðu skýrsluágripsins er samantekt Aflvaka um ýmsar alþjóðlegar vísbendingar og þar er fyrsta vísbendingin eftirfarandi: ,,Samkeppni verður fremur milli landsvæða og borgarsvæða en landa.`` Ég dreg af því þá ályktun að höfuðborgin telji sig vera í samkeppni við landsbyggðina og þurfi þess vegna að leggja í slíka skýrslugerð. Í skýrslunni koma fram mjög margar merkilegar tölur sem reyndar voru ekki framreiddar fyrir fjölmiðla því að á bls. 2 er sú tafla sem birtist nú í flestum fjölmiðlum, misjafnlega litskreytt milli fjölmiðla en mun fallegri á að líta heldur en hér á bls. 2 í þessu skýrsluágripi. Í þeirri samantekt birtist, og hefur gjarnan verið nefnt, að landsbyggðin fái til sín 32 milljarða í ýmsum styrkveitingum.

Í töflunni er þó ekki tekið fram að á bls. 21 í aðalskýrslunni sé svohljóðandi lesning: ,,Taflan sýnir einnig að svo til allar menningar-, háskóla- og listastofnanir sem reknar eru með framlögum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, eru á höfuðborgarsvæðinu. Framlög vegna þessara málaflokka til starfsemi á höfuðborgarsvæðinu eru samtals 4,7 milljarðar króna.``

Þessar tölur eru t.d. ekki teknar sem dæmi í þessari töflu á bls. 2. Ég ætla ekki að fara neitt dýpra í lesninguna alla, en þetta er satt að segja mjög forvitnilegt ef skýrsluhöfundar meina það sem þeir segja í aðfararorðum skýrslunnar sem fylgdi til okkar þingmanna, en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Af hálfu aðstandenda úttektarinnar skal það undirstrikað að til hennar var ekki stofnað til að viðhalda eða kynda undir þeim deilum sem verið hafa milli landshluta eða einstakra hagsmunaaðila heldur þvert á móti.``

Ég ætla að vona að þetta hafi verið einlæg meining, en ég get því miður ekki lesið það út úr þessari skýrslu.