Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 15:28:44 (1204)

1997-11-13 15:28:44# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[15:28]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er reyndar sammála síðasta hv. þm. um að við þurfum kannski ekki mikið fleiri skýrslur. En ég er honum fullkomlega ósammála um það að skýrslan um stöðu sauðfjárræktarinnar hafi ekki verið góður kostur og nauðsynlegur inn í umræðuna um þau málefni. Það kann vel að vera að það snerti þennan hv. þm. óþægilega að það sé sagður sannleikurinn um þau mál sérstaklega með tilliti til þeirra yfirlýsinga sem fóru á þessu ári um batnandi hag sauðfjárbænda og sem hann endurtók hér nú áðan. Það sem er náttúrlega mikilvægast við þessa skýrslu og í því felst gildi hennar að hún staðfestir að síðasta ár var versta ár sem sauðfjárbændur hafa búið við, alversta ár, þrátt fyrir allar þær yfirlýsingar sem um þau efni hafa verið gefnar, m.a. að tilhlutan hæstv. landbrh. og formanns Bændasamtaka Íslands. Það þýðir auðvitað ekkert að vera að fela slíkar staðreyndir. Það er svo annað mál að það hlýtur að koma inn í þá umræðu sem fram undan er um byggðamál með hvaða hætti verður hægt að bæta úr í þessum efnum.