Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 15:36:41 (1208)

1997-11-13 15:36:41# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[15:36]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja að auðvitað hef ég fulla trú á hæstv. forsrh. og fulla trú á þessari hæstv. ríkisstjórn og að hún muni hugsa um þessi mál, fyrir utan hitt að þessum tveimur stóru stjórnmálaflokkum sem fara nú með völd í landinu ber skylda til þess að hugsa um þetta upp á nýtt Ég verð að viðurkenna að á mörgum sviðum er ég sem betur fer skoðanabróðir hæstv. forsrh., hvort sem það er nú sauðfjárræktin eða Evrópumálin svo eitthvað sé nefnt sem dæmi. (JóhS: Ekki í síðustu ríkisstjórn.) Þetta batnaði allt saman með tímanum hjá hæstv. forsrh. (Gripið fram í: Getur félagsskapur ekki ráðið því?) Já, svo er það að félagsskapur skiptir oft miklu máli og hefur mikil áhrif. Það þekkjum við úr lífinu að gott er með góðum að vera og hefur mikil andleg áhrif á mann. Þannig að þetta er nú það sem menn finna. Það finna menn líka þegar þeir lenda í vondum félagsskap, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, og verða einir eftir úti á eyðimörkinni og eiga engan félaga, að þá eru erfiðir dagar.

Ég vil að lokum segja að ég benti hér á aðgerðir sem ég vona og sá að hæstv. forsrh. skildi og skoðar vonandi í sinni ríkisstjórn. Ég held að það sé alveg hárrétt að menn eru að fara frá bullandi atvinnu. En þó eru ákveðin svæði. Selfosssvæðið spannar Suðurlandsundirlendið allt. Þar er miðkjarni. Akranes og Borgarnes, það er mikið byggðasvæði. Menn verða að hugsa um þessi svæði, Eyjafjarðarsvæðið, Egilsstaðir. Þetta eru kannski ekki nema fjögur til fimm svæði og við styrkjum fjarsveitirnar í leiðinni. (Forseti hringir.) Þetta var mín hugmynd fyrir utan hitt að ég benti auðvitað á skattaleiðir sem væri hægt að hugsa um. Við erum komnir af norrænum víkingum og skattsvikurum og það hefur oft skipt miklu að þurfa að borga sem minnsta skatta, þannig að það er nú aðgerð sem ég held að geti dugað svolítið í byggðamálum.