Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 15:39:59 (1210)

1997-11-13 15:39:59# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[15:39]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á þau orð frænda míns að þessir flokkar eiga ekki bara að vera líklegir. Á þessari stundu ber þeim skylda til að taka dálítið öðruvísi á þessum málum. Hæstv. forsrh. er verkstjóri þessarar ríkisstjórnar og fer með byggðamálin og ég treysti því að hann nái góðu samstarfi við ráðherra sína og þingflokka um að marka róttæka stefnu. Það mun að vísu taka á og það mun verða gagnrýnt. En verði það gert þá horfum við bjartari augum til framtíðarinnar og verðum meira sammála í þessu landi. Þá mun ríkja meiri friður héðan í frá en hingað til. Og þá kemur að því að það var ekki til einskis að þessir tveir stóru flokkar, Framsfl. og Sjálfstfl., tóku höndum saman til þess að stjórna þessari þjóð inn í nýja öfluga öld.