Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 15:42:52 (1211)

1997-11-13 15:42:52# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), VS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[15:42]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Það svífur svo mikil viska hér yfir að það er á mörkunum að maður treysti sér í umræðuna. En ég ætla nú samt að segja hér nokkur orð. Það hefur mjög margt komið fram af því sem ég vildi hafa sagt þannig að ég ætla ekki að endurtaka það. En hér fer fram umræða um Byggðastofnun og byggðamál almennt í landinu.

Ég vil ítreka það sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni, fyrr í umræðunni, að hlutverk Byggðastofnunar er að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar. Þeir sem hér hafa talað hafa að mínu mati verið sammála um að óæskileg þróun hafi átt sér stað. Reyndar hafa fyrst og fremst hv. landsbyggðarþingmenn tekið þátt í umræðunni en ég vil líta svo á að almennt sé það skoðun Alþingis að þetta sé óæskileg þróun. En þetta er þróun sem á sér ekki stað bara hér á landi heldur er þekkt mál frá öðrum þjóðum að fólkið vill safnast saman í borgum. Það sem er hins vegar athyglisvert við stöðuna hér miðað við ýmis lönd sem við berum okkur gjarnan saman við, er að mun lægra hlutfall Íslendinga býr í sveit og á litlum þéttbýlisstöðum en í nágrannalöndunum og helmingi færri búa í 2--10 þúsund manna bæjum.

Margir hafa reynt að skýra þessa þróun og reynt að átta sig á því hvers vegna þetta gerist og ýmsar getgátur eru uppi, en því miður getgátur vegna þess að þetta hefur ekki verið rannsakað nægjanlega. Nú stefnir í að það komi skýrsla frá Háskóla Íslands um þetta mál því gerð hefur verið könnun á viðhorfi fólks sem hefur flutt sig og við gerum okkur vonir um að þessi skýrsla geti skýrt það fyrir okkur að einhverju leyti hvers vegna þetta hefur þróast á þennan veg.

[15:45]

Það var talað um það í Noregi að ástæða þess, auðvitað er þetta grín, að fólk flytti frá Norður-Noregi til Óslóar gæti m.a. verið sú að það sést svo mikið af fólki í góðu veðri labba þar í miðborginni með ís og þetta virkar þannig á fólkið þarna fyrir norðan að það sé svo huggulegt og skemmtilegt að búa í Ósló. Eitthvað getur það haft að segja hér líka að fjölmiðlar dragi upp mynd af lífinu í borginni á óraunsæjan hátt að einhverju leyti en ég vil þó ekki gera þetta að neinu aðalatriði. Skýringin er ekki einföld og það geta verið margar skýringar og margar eru huglægar.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að ef ákvörðun um þriðja stjórnsýslustigið hefði verið tekin fyrir 10 árum eða meira hefði ástandið sjálfsagt verið öðruvísi en það var ekki gert. Við höfum byggt stjórnsýsluna upp á þessu svæði og fjölgað ríkisstarfsmönnum mjög á þessum áratug en sú fjölgun hefur nú verið stöðvuð og það finnst mér vera mikilvægt. Hins vegar er ástæða til þess að binda vonir við að aukin verkefni, flutt til sveitarfélaga, geti komið að einhverju leyti í staðinn. Það er ekki eins og við séum að ræða í fyrsta skipti núna um þessi mál og það vill svo til að ég fann í fórum mínum skýrslu sem er gefin út eftir ráðstefnu sem var haldin á Selfossi fyrir nákvæmlega 10 árum, 13. nóv. 1987, og Byggðastofnun gekkst fyrir ráðstefnunni. Hún hafði í yfirskriftina ,,Hefur byggðastefnan brugðist?`` Í þessari bók eru öll þau erindi sem flutt voru á ráðstefnunni og m.a. flutti þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, Davíð Oddsson, eitt af þeim erindum. Ég ætla ekki að tíunda allt sem þar kemur fram en ég vek athygli á því að hæstv. forsrh. var þá í öðru hlutverki en hann er í í dag.

En hefur byggðastefnan brugðist eða hefur yfirleitt verið einhver byggðastefna ríkjandi? Það eru svo sem ýmsir sem velta því fyrir sér. Ég leyfi mér að halda því fram að svo hafi verið og það er hægt að benda á ýmis dæmi því til sönnunar, t.d. það sem þáverandi borgarstjóri lætur koma fram í erindi sínu á ráðstefnunni, að heilsugæslan er byggð upp á landsbyggðinni áður en er farið að byggja hana upp í Reykjavík og það er engin tilviljun að mínu mati. Ég álít að sú ákvörðun hafi verið tekin vegna byggðasjónarmiða.

Háskólinn á Akureyri, sem hefur verið nefndur og er mjög mikilvæg stofnun fyrir landsbyggðina, hefði ekkert verið byggður nema vegna þess að það voru byggðasjónarmið sem réðu ferð og það hefur verið hægt að færa rök fyrir því að hjá þessari litlu þjóð væri ekki nauðsynlegt að byggja upp sjálfstæðan háskóla á Akureyri. En þetta var gert og þessi stofnun hefur nú verið rekin í 10 ár og hefur sannað mikilvægi sitt, bæði hvað varðar menntun og eins það að hafa stuðlað að því að menntað fólk setjist að á landsbyggðinni. Það mætti nefna jarðgöng og margt fleira.

Við viljum breyta þróuninni og þá er það spurning hvernig það verður gert. Hv. þm. Jón Kristjánsson nefndi nokkur atriði sem öll eru mikivæg. Það er m.a. sameining sveitarfélaga, sem ég nefndi áður, menntunarmálin og þá vil ég líka sérstaklega nefna framlög ríkisins til þess að jafna námskostnað sem er ákaflega mikilvægt mál. Það framlag var hækkað nokkuð á þessu ári en eflaust má gera þar betur. Samgöngumálin skipta alveg gífurlega miklu máli og þess vegna þarf virkilega að vanda það verk sem hér er fram undan á hv. Alþingi í sambandi við gerð vegáætlunar og raunar þyrfti að koma þar áð nýrri hugsun á margan hátt.

En svo er það Byggðastofnun sjálf sem hér ætti fyrst og fremst að vera til umræðu vegna þess að við erum að fjalla um ársskýrslu Byggðastofnunar. Ég velti því fyrir mér hvort þar sé verið að vinna skipulega að breytingu á stofnuninni eða hvort þetta sé handahófskennt sem heyrst hefur. Ég vitna í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Starfsemi og skipulag Byggðastofnunar, Atvinnuleysistryggingasjóðs og atvinnuráðgjafa verði tekið til endurskoðunar í því skyni að þessir aðilar geti í sameiningu stuðlað að sókn og uppbyggingu atvinnulífsins um land allt.``

Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort verið er að vinna í framhaldi af þessari samþykkt að breytingu á stofnuninni eða ekki og mér finnst ég eigi nokkurn rétt á að vita það.

Fyrir um 10 árum voru uppi tillögur um að flytja þessa stofnun til Akureyrar. Það var fellt í stjórninni og rökin voru þau, eftir því sem mér var sagt, að stofnunin ætti að vera í Reykjavík og það ættu að vera útibú úti í landshlutunum. Ég var ekki sammála þeirri skoðun en þessi rök voru færð fram. Nú sýnist mér allt annað vera uppi á teningnum og væri fróðlegt að heyra frekar af því. Það kom fram hjá hv. þm. Agli Jónssyni, formanni stjórnar, að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða tæki hugsanlega yfir þá starfsemi sem fer fram á Vestfjörðum og þetta mun vera víðar í undirbúningi. Þetta er mál sem getur svo sannarlega komið til greina og verið réttmætt og skynsamlegt, en eins og ég segi, það er mér hulin ráðgáta hvernig hv. formaður og stjórnin hugsar þetta. (Gripið fram í: Er þingmaðurinn á móti þessu?) Ég vil fá frekari skýringar áður en ég tjái mig nákvæmlega um það hver afstaða mín er til þessa máls.

Hér hefur verið talað um skýrslur Byggðastofnunar og ég get tekið undir með hv. þm. Guðna Ágústssyni hvað það varðar að mér finnst að þær hafi oft verið til þess að koma af stað neikvæðri umræðu sem getur verið hættuleg en auðvitað geri ég mér grein fyrir því að við þurfum að vita hver þróunin er. En ef farið verður að byggja upp kringlur, verslunarhúsnæði, í stórum stíl á Reykjavíkursvæðinu í framhaldi af skýrslugerð Byggðastofnunar vegna þess að hún spáir fram í tímann í samræmi við reynsluna frá fyrri árum, þá finnst mér eins og starfsemin sé að snúast upp í andhverfu sína.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarsyni að Byggðastofnun er ætlað að taka áhættu og mér finnst þess vegna ekkert aðalatriði að hún sé rekin með hagnaði vegna þess að hennar hlutverk er að taka áhættu. Það er hægt að nefna mörg dæmi þess að afskipti Byggðastofnunar af atvinnumálum hafi orðið til þess að bjarga atvinnufyrirtækjum á landsbyggðinni og það er mjög mikils virði og það vil ég að komi fram.

Að síðustu vil ég, hæstv. forseti, láta þess getið að á vegum þingflokks framsóknarmanna hefur farið fram vinna þar sem við erum að fara yfir byggðaþróunina og reyna að átta okkur á ástæðum. Við höfum fundað í öllum kjördæmum nema einu en fundur í því kjördæmi verður í þessari viku og í framhaldi af því verður þetta sérmál sem tekið verður fyrir á aðalfundi miðstjórnar sem haldinn verður síðar í mánuðinum. Við erum því svo sannarlega áhyggjufull út af þessari þróun og munum koma fram með tillögur til úrbóta.