Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 16:37:40 (1222)

1997-11-13 16:37:40# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[16:37]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði það að aðalmáli í ræðu minni áðan að ég auglýsti eftir pólitískum markmiðum í byggðamálum, fyrst og síðast, til að kalla það fram hver væru markmið núverandi hæstv. ríkisstjórnar í byggðamálum, hvernig hún vildi haga byggðamynstri í landinu. Vill hún hafa það óbreytt, vill hún breytingar eða hvað vill hún gera? Það var ekkert annað en þetta sem auglýst var eftir áðan. Því miður treysti hæstv. forsrh. sér ekki til að svara þeim spurningum en benti á að ég hefði ekki bent á neitt til að lagfæra það sem miður hefur farið á landsbyggðinni. Ég benti á að vitaskuld ætti að grípa til almennra aðgerða. Það ætti að halda áfram að styrkja heilbrigðismálin á landsbyggðinni og jafna orkuverðið, en það má benda á að nú eru u.þ.b. 450 milljónir sem menn ætla til jöfnunar orkuverðs á landinu og þyrfti nú ekki að bæta miklu við til þess að hægt væri að jafna orkuverðið. Ég benti á að auka þyrfti og efla framkvæmdir í samgöngumálum á landsbyggðinni en því miður eru tíðindin sem nú berast inn á þingið þau að niðurskurður sé væntanlegur í þeim efnum. Auk þess tók ég undir hugmyndir hv. þm. Guðna Ágústssonar um einhvers konar byggðastyrk. Ég taldi sem dæmi að þarna væru á ferðinni almennar aðgerðir sem hægt væri að grípa til til að styrkja byggð í landinu.