Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 17:58:53 (1237)

1997-11-13 17:58:53# 122. lþ. 25.5 fundur 206. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja# þál., StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[17:58]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til þess að biðja hv. 3. þm. Austurl. um skýringar. Ég þekki nú þessa tóntegund um það þegar eitthvað á að gera og flytja stofnanir út á land eins og umræðan hér í dag hefur að miklu leyti snúist um. Mig langar aðeins til að spyrja hv. þm. Hjörleif Guttormsson að því hvort hans skoðun sé sú að þau áform og sá undirbúningur sem viðhafður var þegar Skógrækt ríkisins var flutt austur hafi verið jafnilla undirbúin og illa grunduð og þessar hugmyndir sem hann segir að séu hjá Byggðastofnun.

Þessi hugmynd Byggðastofnunar um að flytja hluta af starfsemi sinni til Sauðárkróks er ekkert illa grunduð. Þetta er ekkert nema það sem Byggðastofnun hefur verið að gera í gegnum tíðina. Byggðastofnun er t.d. með starfsmenn norður á Akureyri sem eru að vinna þar að ýmsum málum sem eru ekkert staðbundin við Norðausturland eitt og sér. Við erum þar með menn sem vinna á landsvísu að ýmsum málum sem tilheyra stofnuninni og eru mætti kannski segja sérmenntaðir á því sviði samhliða því sem aðrir starfsmenn sem nú eru hjá Byggðastofnun vinna náttúrlega að sjálfsögðu á landsvísu. Tæknin er orðin svona í dag. Fyrir utan það, sem má þó bæta við líka, að það vill nú svo til í þessu tilfelli að verið er að flytja þessa starfsmenn frá Byggðastofnun í húsnæði sem Byggðastofnun á á viðkomandi stað sem áformað er að flytja til.