Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 18:00:50 (1238)

1997-11-13 18:00:50# 122. lþ. 25.5 fundur 206. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[18:00]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta mál sem hér er nefnt, vegna þess að það er mjög nýlegt, er þess eðlis að það skiptir ekki nokkru máli í heildarsamhengi þessara mála. Af þeim sökum er ekki ástæða til að ræða það í tengslum við þessa tillögu, sem er þó um almenna stefnumótun sem ég styð að reynt sé að koma fótum undir fyrr en seinna.

Af því að hv. þm. Stefán Guðmundsson spurði um Skógrækt ríkisins í þessu samhengi, þá er sá munur á að sú ákvörðun var tekin með samþykkt á Alþingi. Það er þó alltént nokkuð annað en það sem þarna um ræðir þar sem stjórn stofnunarinnar tekur þessa ákvörðun. Ég tel einmitt að það sé mjög eðlilegur aðdragandi að Alþingi taki afstöðu til flutnings á starfsemi af þessum toga --- það sé lagt fyrir þingið. Það er þó ákveðin trygging fyrir því að um málið sé fjallað á Alþingi og að röksemdirnar fyrir því liggi fyrir og hægt sé að gæta þess hér á þingi að undirbúningur sé með eðlilegu móti og tekinn á skynsamlegum forsendum að áliti meiri hluta á hv. Alþingi. Það er eitt af því sem ég tel að ætti að vera regla í þessu samhengi.

Ég skal ekki í einstökum atriðum leggja neinn allsherjardóm yfir flutninginn á þróunarsviði til Sauðárkróks en ég efast um að skynsamlegt sé að taka einstaka mikilvæga þætti úr ákveðinni stofnun sem ekki eru þá fallnir til dreifingar yfir í þróunarstofur sem víðast í landshlutunum. Ég held að það sé í rauninni málið að hér mætti halda ákveðinni yfirstjórn þessara mála en koma öllum öðrum þáttum yfir í kjördæmin þar sem Byggðastofnun rekur einhverja starfsemi.