Kjör lífeyrisþega

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:05:59 (1246)

1997-11-17 15:05:59# 122. lþ. 26.1 fundur 88#B kjör lífeyrisþega# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:05]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég var ekki að spyrja hvað hefði gerst áður í málefnum lífeyrisþega og hækkunum til þeirra. Ég var að spyrja hvað mundi gerast um næstkomandi áramót. Ég spyr: Er það virkilega rétt sem mér heyrðist hjá hæstv. ráðherra að lífeyrir almannatrygginga og bótaþega eigi einungis að hækka um 4% eins og er áætlað á almennum markaði? Við skulum muna að fyrir utan þau 4% sem laun hækka um við næstu áramót kemur sérstök hækkun á almenna markaðnum þannig að lágmarkslaun í landinu verða 70 þús. kr. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hæstv. ráðherra ekki að beita sér fyrir því að lífeyrisþegar fái hækkun sem samsvarar lágmarkslaunum þannig að þau verði færð að lágmarkslaunum í landinu? Og ég spyr sérstaklega: Telur hæstv. ráðherra forsvaranlegt að 40% aldraðra og 40% öryrkja búi við laun og kjör sem eru langt undir lágmarkslaunum í landinu?