Hjúkrunarrými fyrir aldraða í Reykjavík

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:12:41 (1252)

1997-11-17 15:12:41# 122. lþ. 26.1 fundur 89#B hjúkrunarrými fyrir aldraða í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:12]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það sem hæstv. heilbrrh. er að tala um í þessu máli er það, ef ég skil mál hennar rétt, að ætlunin sé að leysa hjúkrunarvandann í Reykjavík með því að auka við hjúkrunarrými annars staðar, m.a. með því að breyta Víðinesi í hjúkrunarheimili fyrir aldraða og breyta Vífilsstöðum í hjúkrunarrými fyrir aldraða. Ef þetta er ætlunin þá er augljóst mál að það er engan veginn um að ræða svar við þeim vanda sem um er að ræða að því er varðar vistunarþörf fyrir gamalt fólk í Reykjavík. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka myndarlega á þessum málum í samvinnu við Alþingi þannig að þessi smánarblettur á velferðarkerfinu á Íslandi verði þurrkaður út. Það er til skammar að láta 140 einstaklinga búa við hreint neyðarástand inni á heimilum eins og um er að ræða í Reykjavík um þessar mundir. Þess vegna tel ég svar hæstv. ráðherra hér áðan ófullnægjandi og skora á hana að endurskoða hug sinn og ganga í verkið með þeim sem vilja vinna að því, m.a. borgarstjórn Reykjavíkur.