Íslensk erfðagreining og Gagnalind hf.

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:16:51 (1256)

1997-11-17 15:16:51# 122. lþ. 26.1 fundur 90#B Íslensk erfðagreining og Gagnalind hf.# (óundirbúin fsp.), SF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:16]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu voru sett ný lög um réttindi sjúklinga þar sem lögð er mikil áhersla á að persónuvernd sé tryggð. Því var okkur í morgun nokkur vandi á höndum í heilbr.- og trn. þegar landlæknir kom þangað og upplýsti okkur um að Íslensk erfðagreining hygðist kaupa fyrirtækið Gagnalind hf. Það fyrirtæki hefur sem kunnugt er þróað tölvukerfi sem heilsugæslan notar og í því eru afar viðkvæmar og miklar upplýsingar. Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur sagt að fyrirtæki hans sækist eftir heilsufarsupplýsingum um Íslendinga. Því liggur beint við að spyrja hæstv. heilbrrh., þar sem okkur skildist í morgun að hæstv. ráðherra hefði haft afskipti af þessu máli, hver afskipti hans voru. Kemur til greina að ríkið kaupi Gagnalind hf., fyrirtækið allt eða að hluta? Hefur tölvunefnd komið að þessu máli? Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það sé eðlilegt að Íslensk erfðagreining eða önnur sambærileg fyrirtæki komist í upplýsingar um Íslendinga án þess að slíkt fari fyrst í útboð, þ.e. að upplýsingarnar séu boðnar út en verði ekki afhentar einu fyrirtæki á silfurfati.