Veiðiheimildir smábáta og hrognkelsaveiðar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:23:55 (1264)

1997-11-17 15:23:55# 122. lþ. 26.1 fundur 92#B veiðiheimildir smábáta og hrognkelsaveiðar# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:23]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. sjútvrh. Staða krókaveiðimanna er hrikaleg. Þeir hafa leyfi til fiskveiða í aðeins 18--25 daga á fiskveiðiárinu. Fjöldi smábátaveiðimanna á kvóta eru með litlar veiðiheimildir í bolfiski og ná engan veginn saman endum í útgerð sinni. Horfur á markaði fyrir grásleppuhrogn eru vægast sagt mjög slæmar. Útlit fyrir sölu er þannig að menn eru varaðir við að hefja veiðar. Það eru ef til vill möguleikar á sölu helmings þess magns sem veiddist í fyrra en á mun lægra verði. Ég spyr: Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera í þessum málum? Afkoma margra smábátamanna hefur verið háð þokkalegri útkomu á hrognkelsaveiðum. Ætlar hæstv. ráðherra að mæta þessu vandamáli með því að fjölga veiðidögum hjá krókakörlum og auka kvóta þeirra sem hafa litlar eða engar heimildir? Ef engin ákvörðun hefur verið tekin í þessum málum, hvenær er ákvörðunar að vænta? Það skiptir máli vegna þess að undirbúningur vegna hrognkelsaveiða tekur þrjá til fimm mánuði. Og síðasta spurning: Ætlar hæstv. ráðherra að hafa afskipti af málinu?