Val nemenda í framhaldsskóla

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:35:29 (1271)

1997-11-17 15:35:29# 122. lþ. 26.1 fundur 94#B val nemenda í framhaldsskóla# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég tel að fullyrðingin sem hv. þm. las sé í fullu samræmi við framhaldsskólalögin og þar sé einmitt gert ráð fyrir því að horfið verði frá landfræðilegum álitaefnum þegar innritað er í skóla og frekar litið til þess náms sem viðkomandi námsmenn vilja stunda. Ekki er allt nám í boði í öllum skólum þannig að það leiðir af sjálfu sér að menn sækja um skóla eftir því hvaða nám þeir bjóða upp á og þar velja skólarnir eftir einkunnum. Þetta er þróun sem er hafin hér og vísað er til í þessu riti. Einnig liggja fyrir álitsgerðir, m.a. liggur álit umboðsmanns Alþingis fyrir í Menntaskólanum í Reykjavík vegna þess að foreldrar ungmenna sem sóttu um í þeim skóla fóru þess á leit við umboðsmann að hann segði álit sitt á því hvernig staðið var að innritun í skólann. Þar kemur þetta sjónarmið m.a. fram og það er alveg ljóst að þar miða menn við einkunnir. Þetta verður í ríkari mæli eftir því sem fjölbreytni á framhaldsskólastigi eykst, m.a. sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef markvisst stefnt að því að hverfa frá hverfaskiptingunni og láta landafræðina ráða minna í þessu heldur en það sem skólarnir hafa í boði og þá mun náttúrlega einnig reyna meira á hæfileika nemendanna en áður.