Val nemenda í framhaldsskóla

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:37:04 (1272)

1997-11-17 15:37:04# 122. lþ. 26.1 fundur 94#B val nemenda í framhaldsskóla# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:37]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er einmitt vegna þessarar áherslubreytingar sem ég spyr um samtöl við sveitarfélögin vegna þess að einhver réttlæting verður að vera fyrir því að þau greiði 40% af stofnkostnaði framhaldsskólanna. Ef það þýðir ekki forgang heimanemenda að skólunum þá átta ég mig ekki alveg á því til hvers þau eru að taka þátt í stofnkostnaði og að vera með fulltrúa í skólanefndum. Það er alveg rétt að það er ekki nám í boði í öllum skólum fyrir alla en þannig hefur það heldur ekki verið og því hefur verið svarað með tilteknum hætti, þ.e. ef einungis er boðið upp á tiltekið nám í einhverjum einum skóla þá hefur hann verið álitinn landsskóli.

Ráðherra segir að þetta samrýmist lögunum um framhaldsskóla. Þá vil ég spyrja í framhaldi: Er reglugerðin komin út, sem átti að setja um lágmarkskröfur í skólana, eða eru menn einfaldlega komnir býsna langt á undan sér, hvorki búið að ráðgast við þá sem hagsmuna eiga að gæta né heldur að setja reglugerðir?