Val nemenda í framhaldsskóla

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:38:58 (1274)

1997-11-17 15:38:58# 122. lþ. 26.1 fundur 94#B val nemenda í framhaldsskóla# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:38]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er þá svo að Áfangar, útgáfa ríkisstjórnarinnar, er ekki það sem búið er að gera, ekki þeir áfangar sem menn hafa þegar náð, heldur að einhverju leyti stefna --- stefna á eitthvað sem menn ætla sér að ná. Þá vil ég ítreka, fyrst hér er um stefnu að ræða og þá ákveðna stefnubreytingu, að rætt verði við þá hagsmunaaðila sem hér eiga einnig hlut að máli vegna kostnaðarhlutdeildar þeirra, sem eru sveitarfélögin í landinu.

Ég tók eftir því sem hæstv. ráðherra sagði um þá nemendur sem sóttu um í MR og fengu ekki inngöngu á þeim forsendum að MR tekur fyrst heimanemendur, síðan eru það umframnemendurnir sem eru valdir eftir einkunnum eða öðru. Þannig hefur það verið. Heimanemendurnir hafa haft forgang. Það er fráhvarf frá þeirri reglu sem hér er um að ræða, og þess vegna er mikilvægt að rætt sé við fulltrúa sveitarfélaganna vegna þess að hér er um gjörbreyttar aðstæður að ræða sem hljóta að leiða til þess að sveitarfélögin taki ekki lengur þátt í þessum stofnkostnaði eins og þau hafa gert hingað til.