Val nemenda í framhaldsskóla

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:40:13 (1275)

1997-11-17 15:40:13# 122. lþ. 26.1 fundur 94#B val nemenda í framhaldsskóla# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:40]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef ekki litið á þetta mál með það í huga hvernig þátttöku í stofnkostnaði er háttað heldur með hliðsjón af inntaki skólastarfsins og þeirri staðreynd að skólanefndarmenn eru m.a. skipaðir af sveitarstjórnum og þess vegna fylgjast sveitarstjórnir vel með og geta fylgst með því hvað er að gerast í skólunum.

Á þessu hausti hefur hins vegar verið gengið til þess verks af hálfu menntmrn. að semja við alla framhaldsskólana í landinu um árangursstjórnun til þriggja ára. Þeirri samningalotu er að ljúka og þá verður lagt á ráðin um hvernig starfi skólanna verður háttað í bráð og lengd og hvaða stefna þeim verður mörkuð. Um þetta hefur almennt náðst gott samkomulag. Ég held að vandi skólanna úti á landi sé ekki sá að þeir þurfi að hafna nemendum heldur frekar hvernig þeir eigi að halda sem best í nemendur. Ráðuneytið vill stuðla að því að þessir skólar geti starfað og dafnað áfram við þær forsendur sem þeim eru skapaðar og vandinn, eins og ég segi, er ekki sá að þeir séu að hafna nemendum heldur hvernig þeir geti laðað að sér nemendur. Ég held að það sé frekar áhyggjuefni sveitarstjórnarmanna heldur en hitt, að nemendum sé hafnað í þessum skólum.