Kosningar til sveitarstjórna

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:48:19 (1277)

1997-11-17 15:48:19# 122. lþ. 26.7 fundur 225. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:48]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Skömmu eftir síðustu áramót skipaði ég nefnd til að endurskoða sveitarstjórnarlögin. Í þeirri nefnd sem var undir forustu hv. þm. Jóns Kristjánssonar, sem var formaður nefndarinnar, sátu Húnbogi Þorsteinsson, ráðuneytisstjóri í félmrn., Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ, Sesselja Árnadóttir, deildarstjóri í félmrn., og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Nefndin samdi nýtt frv. til sveitarstjórnarlaga sem kemur til umræðu innan skamms en ákvað jafnframt að leggja til að sett yrðu sérstök lög um kosningar til sveitarstjórna. Þar er fylgt fordæmi annarra Norðurlanda sem þykir hafa gefist vel.

Það sem helst þykir mæla með þessu fyrirkomulagi er að nauðsynlegt þykir að öll lagaákvæði um sveitarstjórnarkosningar verði á einum stað en ekki að hluta til í sveitarstjórnarlögum og að hluta til í lögum um kosningar til Alþingis eins og nú er. Þetta nýja fyrirkomulag þykir vera til þess fallið að auðvelda hinum almenna borgara, sem valinn er í kjörstjórn, starf sitt.

Við samningu þessa frv. var fyrst og fremst stuðst við III. kafla sveitarstjórnarlaganna, nr. 8/1986, með síðari breytingum, og lög um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987. Tekin eru upp í frv. ýmis ákvæði laga um kosningar til Alþingis hvað varðar framkvæmd kosninganna. Þó er gert ráð \mbox{fyrir} að um atkvæðagreiðslur utan kjörfundar verði vísað til laga um kosningar til Alþingis, enda koma kjörstjórnir í sveitarfélögum ekki að framkvæmd þess þáttar kosninga.

Farin er sú leið í frv. að eyða öllum mun á kröfum til sveitarfélaga eftir íbúafjölda eins og gert er í frv. til sveitarstjórnarlaga. Helstu efnislegu breytingarnar sem er að finna í þessu frv. eru að öðru leyti eftirfarandi:

Viðmiðunardagur kjörskrár er færður úr fimm vikum í þrjár vikur.

Sá sem sæti á í kjörstjórn skal ætíð víkja sæti ef hann er í kjöri til sveitarstjórnar.

Almenna reglan verður sú að í sveitarfélögum verði bundnar hlutfallskosningar, en ef enginn framboðslisti berst eru kosningarnar óbundnar.

Framboðsfrestur verður þrjár vikur í stað fjögurra.

Kjósendur eiga nú rétt á að greiða atkvæði utan kjörfundar frá og með þeim degi er átta vikur eru til kjördags.

Eins og ég sagði, herra forseti, tel ég að hér sé um mál að ræða sem verður mjög til þæginda við framkvæmd sveitarstjórnarkosninga, fækki álitamálum og einfaldi kjörstjórnarmönnum störf sín.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér, að lokinni þessari umræðu óska þess að frv. verði vísað til hv. félmn. Vera kann að hv. félmn. muni vilja hafa samráð eða leita álits allshn. um málið, sem venjulega fjallar um kosningalög, og það er meinalaust af minni hálfu að svo verði gert.