Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 15:57:46 (1279)

1997-11-17 15:57:46# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:57]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 180 er að finna skýrslu um loftslagsbreytingar sem ég hef lagt fyrir hv. Alþingi. Með skýrslunni vil ég gera þingheimi grein fyrir ýmsum atriðum í rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, gang samningaviðræðna um að styrkja samninginn sem samþykkt var að ganga til á fyrsta þingi aðildarríkja í Berlín í apríl 1995 og stöðu okkar Íslendinga í því sambandi. Rétt er að geta þess að beiðnir hafa komið fram um að taka málið til umræðu á hv. þingi. Í vor bað hv. þm. Árni M. Mathiesen um að málið yrði tekið til umræðu og í upphafi þessa þings bað hv. þm. Hjörleifur Guttormsson einnig um að málið yrði tekið til umræðu. Hér er um stórt og viðamikið mál að ræða og ég taldi því rétt að hafa frumkvæði að því að leggja þessa skýrslu fyrir þingið og þakka hv. þingmönnum sem hafa haft áhuga á umræðu um málið fyrir að taka undir það sjónarmið mitt að haga umræðunni með þessum hætti.

Skýrslunni er skipt í fimm meginkafla. Í 1. kafla er rætt almennt um gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar. Í 2. kafla er gerð grein fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi og í 3. kafla er fjallað um losunarspá og aðgerðir Íslands gegn loftslagsbreytingum. Þá er í 4. kafla rætt um áhrif loftslagsbreytinga hér á landi og í 5. kafla er fjallað um samningaviðræður um að styrkja ákvæði samningsins sem staðið hafa yfir frá árinu 1995. Ég vek athygli hv. þingmanna á að sá kafli var saminn fyrir síðasta samningafund sem var í lok október enda skýrsla þessi lögð fyrir Alþingi fyrir rúmlega mánuði. Síðar í ræðu minni mun ég víkja að stöðunni í dag eftir þann fund.

Ég mun stikla á stóru um efni skýrslunnar en samantekt þessa er að finna á bls. 4 og 5 í skýrslunni. Ég vil jafnframt vekja athygli hv. þm. á skýrslu sem umhvrn. gaf út í síðasta mánuði og ég hef látið dreifa til hv. þingmanna og ber heitið ,,Ísland og loftslagsbreytingar af mannavöldum.`` Í henni er að finna auk þess efnis sem lesa má í skýrslunni sem nú er til umræðu ítarlegra efni um þessi mál. Þá hefur sú skýrsla að geyma nokkra viðauka sem auðvelda ættu hv. þingmönnum og öðrum að kynna sér þessi mál. Þar er að finna rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá 1992, framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna samningsins, bréf umsjónarnefnda ráðuneyta með framkvæmdaáætluninni til umhvrh. frá sl. vori, greinargerð sem Þjóðhagsstofnun hefur tekið saman að ósk minni um efnahagsleg sjónarmið varðandi minnkun losunar á gróðurhúsalofttegundum, útdrátt úr skýrslu skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um Ísland og loks nokkrar töflur um útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að umræður um umhverfismál hafa aukist mjög á undanförnum árum. Þjóðir heims hafa í auknum mæli gert sér grein fyrir þeirri ógnun sem þeim stafar af vaxandi mengun sem rekja má að mestu til aukinnar iðnvæðingar. Árið 1979 var í fyrsta sinn haldið heimsþing um loftslag þar sem skorað var á þjóðir heims að reyna að spá fyrir um og draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum sem gætu haft neikvæð áhrif á velferð mannskynsins. Níu árum síðar setti Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaveðurfræðistofnunin á laggirnar alþjóðlega vísindanefnd um loftslagsbreytingar sem sagði vísindarannsóknir styðja þá tilgátu að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru þegar hafnar og mundu líklega aukast á komandi áratugum. Á öðru heimsþingi um loftslag árið 1990 var skorað á þjóðir heims að gera alþjóðasamning um viðbrögð við loftslagsbreytingum. Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna var síðan lagður fram til undirritunar á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro í Brasilíu 1992.

Samkvæmt samningnum skuldbinda iðnvædd ríki sig sem heild til að grípa til aðgerða sem miða að því að reyna að auka ekki útblástur gróðurhúsalofttegunda þannig að hann verði ekki meiri árið 2000 en árið 1990. Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að skuldbindingin felur ekki í sér ákveðin losunarmörk fyrir einstök ríki. Á fyrsta þingi aðildarríkja samningsins árið 1995 í Berlín var ákveðið að stefna að því að setja bindandi töluleg markmið um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í þeim tilgangi að tryggja sem best að markmiðum samningsins verði náð. Síðan hefur verið unnið að gerð bókunar við samninginn sem fjallað verður um á þriðja þingi aðildarríkja samningsins sem hefst í Kyoto í Japan eftir hálfan mánuð og mun ég gera frekari grein fyrir á eftir.

Ljóst er að maðurinn hefur með athöfnum sínum, einkum eftir iðnbyltinguna, aukið hlutfall gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Telja má líklegt miðað við núverandi þróun í útstreymi gróðurhúsalofttegunda og ef ekkert verður aðhafst til að breyta þeirri þróun að magn þeirra verði árið 2030 orðið tvöfalt meira en fyrir daga iðnbyltingar og þrefalt meira árið 2100 verði ekkert að gert. Um gróðurhúsaáhrifin hafa yfir 2.000 vísindamenn fjallað á síðustu missirum á vegum alþjóðlegu vísindanefndarinnar um loftslagsbreytingar sem ég minntist á hér á undan. Samkvæmt spám þeirra byggðum á núverandi þróun er líklegt að hitastig á jörðinni hækki um 1--3,5 gráður á Celsius fram til ársins 2100. Yfirborð sjávar kunni að hækka um 15--95 sm vegna bráðnunar jökla með tilheyrandi hættu á sjávarflóðum. Til fróðleiks má geta að eins metra hækkun sjávar mundi sökkva um 6% Hollands og yfir 17% af Banglades svo að dæmi séu tekin auk þess sem ýmsar láglendar kóraleyjar á Indlands- og Kyrrahafi yrðu óbyggilegar.

Um önnur áhrif, t.d. á matvælaframleiðslu í heiminum og heilsufar manna, vísa ég til skýrslunnar. Ég vek hins vegar sérstaka athygli hv. þingmanna á helsta áhyggjuefni hvað varðar lífsafkomu á Íslandi vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, en það eru hugsanlegar afleiðingar á hafstraumakerfi jarðar, einkum Golfstrauminn.

Ljóst er að allar breytingar á hafstraumum og hitastigi sjávar munu hafa veruleg áhrif á alla grunnþætti sem áhrif hafa á fiskveiðar, svo sem útbreiðslu fiskstofna, fiskigöngur og staðsetningu hrygningarstöðva. Við getum því ekki leyft okkur að fjalla um mál þetta af neinni léttúð enda er um grafalvarlegt mál að ræða sem gæti haft veruleg áhrif á lífsskilyrði komandi kynslóða hér á landi. Því er augljóst að okkur Íslendingum er mjög í hag að þjóðum heims takist að stemma stigu við vaxandi gróðurhúsaáhrifum.

Árið 1990 var heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda hérlendis jafngildi 2 millj. 730 þús. tonna af koltvíoxíði. Auk CO2 er hér átt við metan, tvíköfnunarefnisoxíð, vetnisflúorkolefni, flúorkolefni og flúorbrennistein. Útstreymið var 46 þús. tonn eða um 1,3% minna á síðasta ári en árið 1990 eða samtals 2 millj. 694 þús. tonn í koltvíoxíðsígildum. Þetta svarar til 0,01% útstreymis á jörðinni og um 1% útstreymis á Norðurlöndum.

Útstreymi koltvíoxíðs var á síðasta ári 86,2% af heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi og er þá talið um 2 millj. 323 þús. tonn sem er 8,2% aukning frá 1990 en það er svipuð þróun og víða erlendis. Sem dæmi má taka milli áranna 1990 og 1994 jókst ústreymi koltvíoxíðs um 5% hér á landi, um 3% í Bandaríkjunum, 6% í Noregi, 7% í Japan, 8% í Finnlandi og 21% í Danmörku. Útstreymi koltvíoxíðs mælt í tonnum á íbúa er 30% lægra hér á landi en meðaltal OECD-ríkjanna eða 8,5 tonn hér á móti 12 tonnum á íbúa hjá OECD-ríkjum.

Alþingi heimilaði þáverandi ríkisstjórn að fullgilda rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar með ályktun 7. maí 1993 og var hann fullgiltur af Íslands hálfu 16. júní það ár. Nokkru eftir að ég tók við embætti umhvrh. eða 17. okt. 1995 samþykkti ríkisstjórnin að tillögu minni sérstaka framkvæmdaáætlun vegna rammasamningsins sem hafði að geyma yfirlit yfir aðgerðir sem grípa á til í því skyni að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Aðgerðirnar skiptast annars vegar upp í almennar og hagrænar aðgerðir þar sem lögð er áhersla á hvetjandi aðgerðir, fræðslu og hagstjórnartæki og hins vegar sértækar aðgerðir, einkum á sviði sjávarútvegs, samgangna og iðnaðar. Í byrjun árs 1996 skipaði ég sérstaka nefnd ráðuneyta til að hafa umsjón með framkvæmdaáætluninni undir formennsku aðstoðarmanns míns en auk hans eiga sæti í nefndinni aðstoðarmenn sjávarútvegs-, samgöngu-, iðnaðar-, landbúnaðar-, fjármála- og dómsmálaráðherra. Nokkuð hefur áunnist af því sem nefndinni hefur verið falið að hafa umsjón með, svo sem gerð landgræðslu- og skógræktaráætlana auk þess sem ríkisstjórnin samþykkti að verja 450 millj. kr. til að auka bindingu í gróðri.

Í framkvæmdaáætluninni er hæstv. samgrh. og sjútvrh. ætlað að hafa umsjón með tilteknum aðgerðum og hafa verið starfandi á vegum þeirra sérstakir starfshópar á þeim sviðum.

Þriðjungur útstreymis koltvíoxíðs hér á landi kemur frá fiskiskipum og annar þriðjungur er af völdum innanlandssamgangna. Þótt mörgum hafi þótt hægt ganga að skilgreina aðgerðir á þessum sviðum sem gætu dregið úr losun á næstu árum hef ég þá trú að innan ekki of langs tíma muni heildstæðar tillögur og aðgerðir líta dagins ljós. Ég vil í þessu sambandi fagna ályktun aðalfundar Landsfundar ísl. útvegsmanna þar sem segir m.a. að ekki muni koma til aukinnar eldsneytisnotkunar hjá fiskiskipaflotanum eða vetnisflúorkolefna en um þetta segir m.a. í ályktuninni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Kemur þar aðallega tvennt til: Annars vegar hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi og hins vegar stækkandi fiskstofnar. Þá eru allar líkur á að stærri kælikerfi fiskiskipa muni nota náttúrlega kælimiðla og verður því ekki um að ræða losun neinna gróðurhúsalofttegunda af þeim sökum í framtíðinni.``

Ef þetta gengur eftir, sem við skulum vona, breytir þetta talsvert þeim spám sem settar hafa verið fram um losun hér á landi á næstu árum.

Við Íslendingar búum um margt við sérstakar aðstæður. Til að mynda eru tveir þriðju hlutar allrar orku sem hér er notuð endurnýjanleg og án teljandi gróðurhúsaáhrifa í framleiðslu og 98% allra húsa eru nú hituð með endurnýjanlegri orku. Þess vegna eigum við til að mynda ekki jafnhægt um vik að grípa til aðgerða til að draga úr losun koltvíoxíðs nú og margar aðrar þjóðir enda höfðum við hætt hitum húsa með olíu fyrir árið 1990 sem er það ár sem notað er til viðmiðunar í þessu sambandi.

Á öðrum sviðum, t.d. í samgöngum og fiskveiðum, eru möguleikar okkar til að minnka umtalsvert losun gróðurhúsalofttegundanna að verulegu leyti undir öðrum þjóðum komnir hvað varðar tækniþróun og framfarir. Ég tel að við eigum að stefna markvisst að því að nota vetni í stað jarðefnaeldsneytis á samgöngutæki okkar og fiskiskip í framtíðinni og framleiða þannig okkar eigin umhverfisvæna eldsneyti. Vissulega er margt óljóst í þessum efnum og framleiðslan bæði dýr og óhentug við núverandi aðstæður. Hins vegar er ljóst að olíulindir heims fara þverrandi og verðmæti íslenskrar orku muni aukast á komandi árum og áratugum.

Hin öra tækniþróun mun enn fremur að mínu áliti leiða til vænlegrar niðurstöðu fyrir okkur í framtíðinni. Það verður þó vart á þessu eða næsta kjörtímabili. Ég tel hins vegar að við hv. alþm. verðum fyrst og fremst að hugsa til framtíðar í þessum efnum eins og ætíð þegar um er að ræða umgengni okkar við náttúruna og nýtingu náttúrlegra gæða.

Ég vil jafnframt í þessu sambandi vekja athygli á starfi svokallaðrar vetnisnefndar undir formennsku hv. þm. Hjálmars Árnasonar en þar hafa þessi mál verið til umfjöllunar. Ég tel allar forsendur til að Ísland geti í framtíðinni orðið fyrirmynd annarra þjóða á þessu sviði. Miðað við núverandi aðstæður, orkuspá og staðfesta stóriðju eru því miður líkur á að útstreymi gróðurhúsalofttegunda muni aukast verulega á næstu árum og áratugum verði ekki gripið til aðgerða. Aukningin er að sumu leyti þó eðlileg með hliðsjón af því að Íslendingum fjölgar um tæplega 1% á ári.

Í bréfi umsjónarnefndar ráðuneyta til mín í vor var vakin athygli á aukinni losun vegna staðfestra stóriðjuframkvæmda, þ.e. stækkunar álversins í Straumsvík og járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, svo og nýs álvers þar. Samtals mun útstreymi aukast um sem svarar 635 þúsund tonnum af koltvíoxíðsígildum sem eru um 23,6% af losun síðasta árs. Þetta er vissulega hátt hlutfall en slík stóriðja hefði þó tvímælalaust haft í för með sér meira útstreymi hefði hún verið staðsett annars staðar í heiminum og notað þar jarðefnaeldsneyti. Að meðtalinni umræddri stóriðju er gert ráð fyrir að heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda verði 15,8% meira árið 2000 en árið 1990, hafi aukist um 26,2% árið 2010, 34,5% árið 2020 og verði árið 2025 samtals 3 millj. 821 þús. tonn af koltvíoxíðsígildum eða 40% meira en árið 1990 miðað við þær upplýsingar sem fram koma í umræddri skýrslu.

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni var samþykkt á fyrsta þingi aðildarríkja rammasamningsins í Berlín í apríl 1995 að hefja samningaviðræður um ráðstafanir til að styrkja ákvæði samningsins og efla framkvæmd hans eftir árið 2000. Í ákvörðun þingsins segir m.a. að stefna skuli að niðurstöðu sem feli í sér auknar skuldbindingar um stefnumörkun og aðgerðir og mælanlegar takmarkanir eða samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Þá segir enn fremur að auknar skuldbindingar skuli eingöngu bundnar við þau aðildarríki sem skráðar eru í viðauka I í samningnum, þ.e. OECD-ríkin og ríki Mið- og Austur-Evrópu. Í ákvörðuninni segir að taka skuli mið af mismunandi upphafsstöðu aðila, tökum þeirra á vandamálinu, tækni sem tiltæk er og öðrum kringumstæðum sem og þörfinni á sanngjörnu og viðeigandi framlagi frá hverju og einu aðildarríkjanna. Með ákvörðuninni á Berlínarþinginu var stofnuð sérstök samninganefnd sem kom saman í fyrsta sinn í ágúst 1995.

Áttundi og síðasti fundur nefndarinnar var síðan haldinn í Bonn í Þýskalandi í síðasta mánuði. Hún komst ekki að niðurstöðu en mun leggja drög að samningi fyrir þriðja þing aðildarríkjanna sem hefst í Kyoto eftir hálfan mánuð.

Ríkisstjórnin ákvað á sínum tíma að taka virkan þátt í viðræðunum og mótaði stefnu sína fyrir þær. Þar var m.a. lögð áhersla á að nýjar skuldbindingar tækju til allra gróðurhúsalofttegunda og að aðgerðir til að binda kolefni í jörðu og gróðri yrðu metnar fullgildar aðgerðir til að draga úr losun. Ríkisstjórnin lagði enn fremur áherslu á að í samningaviðræðunum skyldi taka tillit til sérstakra aðstæðna einstakra ríkja, sérstaklega ríkja sem mæta orkuþörf sinni að verulegu leyti með endurnýjanlegum orkugjöfum, enn fremur að nýjar skuldbindingar mættu ekki takmarka möguleika aðildarríkjanna til að auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa vegna iðnaðarframleiðslu jafnvel þó að framleiðsluferlin ykju losun staðbundið.

Við upphaf viðræðnanna ákvað ríkisstjórnin að skipa sérstakan samráðshóp undir stjórn umhvrn. til að fylgjast með samningaviðræðunum. Frá upphafi áttu landbrn., sjútvrn., iðnrn., samgrn. og utanrrn. aðild að samráðinu. Á þessu ári hafa embættismenn úr forsrn. og fjmrn. einnig tekið þátt í undirbúningi samningaviðræðnanna. Þá hef ég tvívegis haldið kynningarfundi með fulltrúum atvinnulífsins og áhugasamtaka um þessi mál í janúar 1996 og aftur í síðasta mánuði.

Í fyrirliggjandi samningsdrögum sem fjalla á um á Kyoto-fundinum eru enn mörg óleyst ágreiningsefni. Nokkuð víðtæk samstaða er um að samningurinn skuli fela í sér lagalega bindandi losunarmörk miðað við ákveðnar tímasetningar. Aftur á móti eru mjög skiptar skoðanir um hver þau mörk eigi að vera.

Evrópusambandið hefur lagt fram tillögu um flatan niðurskurð þess efnis að losun tiltekinna gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum skuli vera 7,5% minni árið 2005 og 15% minni árið 2010 miðað við árið 1990. Bandaríkjamenn leggja einnig til að miðað verði við flatan niðurskurð og hafa lagt til að losun á árunum 2008--2012 megi ekki vera meiri en árið 1990 og skuli dregin saman á næstu fimm árum þar á eftir. Þróunarríkin styðja flatan niðurskurð á ríkjum sem skráð eru í viðauka I og leggja til sömu losunarmarkmið og Evrópusambandið fyrir árið 2005 og 2010.

Í Berlínarumboðinu frá 1995 segir að taka beri tillit til mismunandi upphafsstöðu ríkja og hvernig þau hafi nú þegar tekið á þessum vanda, uppbyggingu hagkerfis og auðlindagrunni, þörfinni fyrir að viðhalda sjálfbærum hagvexti, þeirri tækni sem tiltæk er og öðrum kringumstæðum hvers og eins ríkis. Þá hefur alþjóðavísindanefndin um loftslagsbreytingar komist að þeirri niðurstöðu að flöt losunarmörk muni leiða til mun hærri heildarkostnaðar við að ná sama árangri en ef losunarmörkum yrði skipt á aðildarríkin í samræmi við aðstæður hvers og eins. Í þessu ljósi lagði Ísland ásamt Noregi, Kanada, Japan, Sviss, Rússlandi og Ungverjalandi fram tillögu á síðasta samningafundi þar sem lagt er til að losunarmörk verði mismunandi þannig að tekið sé tillit til sérstakra aðstæðna í hverju ríki.

[16:15]

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að ESB-ríkin hafa gert samkomulag sín á milli um hvernig þau hyggjast dreifa byrðunum ef samningar takast um að draga úr heildarlosun um 15%. Samkvæmt þessu samkomulagi koma nokkur ríki til með að geta aukið losun, t.d. Portúgalir um 40%, Grikkir um 31% og Svíar um 5% á meðan önnur þurfa að draga úr losun meira en 15%, t.d. Lúxemborg um 30% og Danir og Þjóðverjar um 25%. Þá geta Frakkar og Finnar verið með óbreytta losun miðað við 1990.

Ekki er ljóst hvernig þetta mál kann að leysast en möguleikar til lausnar virðast fyrst og fremst vera þrír. Í fyrsta lagi flatur niðurskurður eða óbreytt losun miðað við 1990. Í öðru lagi samningur þar sem tekið verður tillit til sérstakra aðstæðna en að losunarmörkin verði innan ákveðins ramma. Og í þriðja lagi samningur þar sem einstök ríki setji sér sjálf þau mörk sem þau telja raunhæf og sanngjörn og að um það verði síðan fjallað í samningaviðræðunum hvort mörkin séu eðlileg.

Í fyrirliggjandi samningsdrögum eru nokkrar tillögur um ákvæði sem eiga að tryggja sveigjanleika til að draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda á sem hagkvæmastan hátt. Í þessu sambandi hafa m.a. komið fram tillögur um að hægt verði að eiga viðskipti með losunarkvóta á milli ríkja og að fleiri en eitt ríki geti haft samvinnu um framkvæmdir sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Um þessi atriði er enn nokkur ágreiningur, sérstaklega varðandi tillögur um að ríki skuli ekki geta átt viðskipti með losunarkvóta fyrir gróðurhúsalofttegundir. Ísland hefur haft jákvæða afstöðu til ákvæða sem skapa sveigjanleika við framkvæmd samningsins.

Annað ágreiningsefni er hvaða lofttegundir eigi að falla undir losunarákvæði samningsins. Annars vegar eru mörg ríki sem vilja að þau nái einungis til koltvíoxíðs, metangass og tvíköfnunarefnisoxíðs. Hins vegar eru þau sem vilja að samningurinn nái til allra helstu gróðurhúsalofttegundanna. Sömuleiðis eru skiptar skoðanir um hvort taka eigi tillit til aðgerða einstakra ríkja til að auka bindingu koltvíoxíðs eins og þó er gert ráð fyrir í Berlínarumboðinu.

Þá má geta þess að Evrópusambandið hefur lagt fram tillögur um ýmsar skilgreindar aðgerðir sem aðildarríki samningsins yrðu skuldbundin til að koma til framkvæmda. Í þessum tillögum eru m.a. hugmyndir um afnám styrkja sem hvetja til notkunar á kolefnaríkum orkugjöfum og að komið verði á koltvíoxíðsskatti. Fjöldi ríkja telur afar óheppilegt að samningurinn hafi nákvæm fyrirmæli um tilteknar aðgerðir þar sem aðstæður í einstökum ríkjum séu mjög mismunandi.

Framangreind upptalning sýnir að ýmis vandasöm atriði hafa enn ekki verið til lykta leidd á þeim átta samningafundum sem fram hafa farið hingað til. Til viðbótar má geta þess að Bandaríkjamenn hafa lagt mikla áherslu á að ákveðin mikilvæg þróunarríki taki einnig á sig frekari skuldbindingar. Þessari kröfu Bandaríkjamanna hefur verið ákaflega illa tekið af þróunarríkjunum. Það er því ekki óeðlilegt að ýmsir sjái á því tormerki að samningar takist á þeim stutta tíma sem til stefnu er.

Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga þann mikla vilja til að ná niðurstöðu sem einkennir samningaviðræðurnar. Það er mikill og vaxandi þrýstingur á að sýna einhvern árangur af þeirri miklu vinnu sem fram hefur farið frá því að Berlínarumboðið var samþykkt á fyrri hluta árs 1995.

Þá er einnig mikilvægt að gera sér ljóst að almennt er álitið að væntanlegt samkomulag í Kyoto verði aðeins fyrsti áfangi af mörgum til að styrkja samninginn svo takast megi að stöðva vaxandi uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.

Þegar taka þarf endanlega afstöðu til niðurstöðu samningaviðræðnanna í Kyoto er nauðsynlegt að hafa í huga hvaða afleiðingar það kynni að hafa ef íslensk stjórnvöld kysu að standa utan fyrirhugaðrar Kyoto-bókunar. Kyoto-bókunin kemur til með að hafa veruleg áhrif á öll þau ríki sem gangast undir lagalega bindandi losunarkvóta. Öll atvinnustarfsemi í þessum ríkjum mun í vaxandi mæli þurfa að aðlagast minna svigrúmi til losunar gróðurhúsalofttegundanna. Ríki sem standa utan fyrirhugaðrar bókunar verða því væntanlega talin hafa hagstæðari samkeppnisstöðu og hafa meira svigrúm til hagvaxtar. Það er næsta víst að ýmis þróunarlönd eygja í samningunum ákveðin tækifæri til að efla hagvöxt með því að taka við framleiðsluferlum frá iðnríkjum þegar iðnríkin þurfa að draga úr losun. Ég tel því víst að þau ríki sem skráð eru í viðauka I í rammasamningnum og kjósa að taka ekki á sig þær skuldbindingar sem felast í fyrirhugaðri bókun muni verða fyrir verulegum pólitískum þrýstingi frá öðrum ríkjum í viðauka I og þróunarríkjum til að axla þær byrðar sem aðild að fyrirhugaðri Kyoto-bókun felur í sér.

Rammasamningur með fyrirhugaðri Kyoto-bókun verður í framtíðinni einn mikilvægasti alþjóðasamningurinn sem gerður hefur verið og hann kann að hafa veruleg áhrif á öll alþjóðleg samskipti. Ríki sem kjósa að standa utan fyrirhugaðrar bókunar munu væntanlega ekki verða talin jafntrúverðug í samstarfi sínu við önnur lönd um umhverfismál og jafnvel einnig önnur alþjóðamál sem tengjast umhverfismálum. Það kynni því að veikja stöðu og áhrif okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi, m.a. í málum er tengjast mengun hafsins, ef við kjósum að standa ekki að bókuninni.

Tvær mikilvægustu atvinnugreinarnar hér á landi eru sjávarútvegur og ferðaþjónusta. Kjósi Ísland að standa utan fyrirhugaðrar bókunar kann það að veikja þá jákvæðu umhverfisímynd er reynt hefur verið að skapa í tengslum við þessar atvinnugreinar. Enn fremur er hugsanlegt að frjáls félagasamtök reyni að draga athygli að afstöðu íslenskra stjórnvalda og það geti valdið þessum atvinnugreinum einhverjum erfiðleikum. Þetta gæti haft neikvæð á hrif á afkomu sjávarútvegs og ferðaþjónustu en verður að skoða í ljósi þess að losunarmörk kunna einnig að skerða möguleika til þróunar og vaxtar í þessum greinum.

Þá má vera að ýmis erlend fyrirtæki sem að öllu jöfnu teldu atvinnulíf við Ísland álitlegan fjárfestingarkost héldu að sér höndum ef á alþjóðavettvangi yrði dregin upp dökk mynd af umhverfisstefnu íslenskra stjórnvalda. Einkum á þetta við ef íslensk stjórnvöld ná ekki að skapa trúverðuga stefnu og markmið sem samræmast almennum markmiðum rammasamningsins.

Hæstv. forseti. Það er ólíklegt að það takist að leysa úr öllum þeim ágreiningsmálum sem lýst hefur verið hér að ofan. En almennt virðist vera mikill vilji til að láta á það reyna og að á Kyoto-fundinum verði jafnframt ákveðið að halda áfram tilraunum til að finna ásættanlegar leiðir til að taka á þeim sem ekki tekst að leiða til lykta þar. Enn fremur er lögð áhersla á að mörkuð verði einhver stefna um frekari skuldbindingar þróunarríkja þar sem verulegur vöxtur í losun er fyrirsjáanlegur í þróunarríkjunum á næstu árum og áratugum ef ekkert verður að gert. Ég er því hóflega bjartsýnn á að niðurstaða fáist í Kyoto. Náist hún ekki þar verður áfram haldið og samningunum lokið á fjórða þingi aðildarríkjanna á næsta eða í síðasta lagi á þarnæsta ári. Ég tel því mjög mikilvægt að við Íslendingar verðum aðilar að þessari niðurstöðu ef nokkur kostur er.

Ég hef nú rakið í nokkru máli helstu atriði varðandi skýrslu mína á þskj. 180 um loftslagsbreytingar og um hugsanlegar niðurstöður í þeim samningum sem nú standa yfir. Mál þessi hafa tiltölulega lítið verið rædd á hv. Alþingi þannig að ég taldi rétt að leggja fyrir þingið ítarlega skýrslu um framgang þessara mála, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi Kyoto-fundarins og þess samnings sem þar kann að verða samþykktur. Það er brýnt að við Íslendingar séum vel upplýstir um loftslagsbreytingar, eðli gróðurhúsaáhrifa og hugsanlegar afleiðingar þeirra. Við verðum því að taka á málum af ábyrgð og festu, ekki bara okkar vegna, heldur vegna barna okkar, barnabarna og komandi kynslóða um allan heim.