Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 16:22:56 (1280)

1997-11-17 16:22:56# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Í ræðu hæstv. umhvrh. stendur þrennt upp úr. Í fyrsta lagi tók hann ekki af skarið um það hvar Ísland mundi lenda ef ekki yrði tekið hæfilega á sérstöðu landsins. Er það virkilega svo að hæstv. umhvrh. hafi verið að boða það að Ísland muni standa utan Kyoto-samningsins og í hvaða veröld lifir hæstv. umhvrh. þegar hann tekur svo til orða að það að standa utan samningsins kynni að veikja stöðu Íslands? Hvernig getur íslenskur umhvrh. sem hefur kynnt metnaðarfulla umhverfisstefnu á alþjóðavettvangi tekið svona til orða?

Í öðru lagi gat hæstv. umhvrh. ekki neitt um afstöðu sína til þeirra stórfelldu stóriðjuáforma sem hæstv. iðnrh. hefur lagt fram á sérstöku þskj. þar sem hann segir um sumar þeirra að þær séu það langt komnar á veg að það kynni að verða unnt að taka ákvörðun um framkvæmdir á komandi vetri. Hann sagði ekki eitt einasta orð um það þó að það sé alveg ljóst að þetta mun leiða til þess að við keyrum langt fram úr öllum viðmiðunarmörkum.

Og í þriðja lagi sagði hæstv. ráðherra nákvæmlega ekki neitt um það hvaða ráðstafana íslensk stjórnvöld hyggjast grípa til til mótvægis við aukna losun þessara óæskilegu lofttegunda út í andrúmsloftið, nákvæmlega ekki neitt.

Hæstv. ráðherra sagði að menn ættu ekki að tala af léttúð um þetta mál. Ég hef ekki lagt það í vana minn að ásaka hæstv. umhvrh. um alvöruleysi. En mér finnst það a.m.k. alvarlegt metnaðarleysi að koma hingað og halda ræðu eins og þessi hæstv. ráðherra gerði. Ég verð að segja það, herra forseti.

Hæstv. ráðherra á hrós skilið fyrir þá skýrslu sem hér liggur fyrir. Þar er tekið mjög ítarlega á þeim afleiðingum sem gróðurhúsaáhrifin kunna að hafa fyrir umheiminn og fyrir Ísland sérstaklega. Þar er líka gerð mjög nákvæm grein fyrir þeirri stöðu sem samningaviðræðurnar eru í og því ferli sem Íslendingar hafa tekið þátt í til þessa.

Hæstv. ráðherra gat þess að líklegt væri miðað við spá sérfræðinga að á næstu öld eða í lok næstu aldar, kynni hitastig á jörðinni að hafa hækkað um 3,5 gráður. Hvað er það mikið? Það er nákvæmlega helmingurinn af þeirri hitasveiflu sem markar skil ísaldar og hlýskeiðs. Aldrei á síðustu 10 þúsund árum hefur mannkynið nokkru sinni séð eða staðið andspænis svona gríðarlegum breytingum í umhverfinu.

Við erum þegar farin að sjá fyrstu áhrif þeirra einkenna sem stafa af loftslagsbreytingunum. Við sjáum það í aukinni tíðni fellibylja, ofsaveðra, storma og það er alveg ljóst að þessi þróun heldur áfram. Hvað mun þetta þýða fyrir jörðina í heild? Hæstv. ráðherra gat þess sjálfur að það mundi leiða til aukinna skordýraplágna, aukinna sjúkdóma og það má bæta því við að mjög víðfeðm landsvæði munu verða að eyðimörkum í kjölfar þessa. Og hverjir munu bera lakastan hlut út úr þessu? Því svarar hæstv. ráðherra sjálfur á bls. 8 í sinni ágætu skýrslu þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Þeir jarðarbúar sem búa við mestan skort og fátækt munu væntanlega verða mest fyrir barðinu á afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum.``

Ég spyr, herra forseti: Höfum við ekki einhverjar siðferðilegar skuldbindingar gagnvart þessu fólki?

Hæstv. ráðherra gat þess líka að í löndum fjarlægum okkur, smáum eyríkjum sem þó eru fjölmennari sum hver heldur en Ísland, í Indlandshafi og í Suður-Kyrrahafi, þá mundu afleiðingarnar verða þær að þessar þjóðir, þessi eyríki, mundu í bókstaflegri merkingu líða undir lok, þ.e. þær mundu hverfa undir yfirborð sjávar. Menning heilla þjóða um hverfa. Auðvitað hljótum við líka að hafa siðferðilegar skuldbindingar gagnvart þeim.

En gagnvart hverjum höfum við mestar skuldbindingar? Við höfum það gagnvart langtímahagsmunum Íslands eins og hæstv. ráðherra sagði í lok málsins, gagnvart barnabörnum okkar, gagnvart niðjum okkar, gagnvart þjóð okkar og gagnvart framtíð okkar. Hvað kann að blasa við ef ekki verður hægt að stemma stigu við aukningu þessara óæskilegu lofttegunda? Það er ekki hægt að færa sönnur á það, en það sem gæti gerst er að gríðarleg breyting yrði á hafstraumum á norðurhveli jarðar vegna bráðnunar jökla. Og hvað heyrðum við í fréttunum í dag? Við heyrðum að á sl. 30 árum hefur orðið mesta bráðnun á hafís og jöklum á norðurhveli jarðar sem mannkynið hefur þekkt áður, sem hefur mælst áður. Þetta leiðir til gríðarlegra kaldra strauma sem koma frá norðurskautinu og suður eftir og hvað gæti það leitt af sér? Það gæti bókstaflega sveigt Golfstrauminn af leið. Við eigum í rauninni ekki að geta búið á Íslandi. En við getum það vegna þess að sunnan úr höfum kemur þessi hlýi Golfstraumur og uppstreymi sjávarins á mótum hinna köldu og heitu strauma gerir það að verkum að hér eru auðugustu fiskimið í heimi. Ég segi það, herra forseti, að ein af afleiðingunum sem mér fannst hæstv. umhvrh. ekki draga nægilega skýrt fram er sú að Ísland kynni að verða óbyggilegt þegar horft er til lengri framtíðar og kynni líka að verða svipt sínum auðugu fiskimiðum og þar með undirstöðu þess lífs sem við þekkjum á Íslandi. Þetta er auðvitað það sem við þurfum að horfa til.

Við höfum tekið virkan þátt í þeim undirbúningi þessa rammasamnings sem miðar að því að takmarka losun á gróðurhúsalofttegundum. Við erum í hópi þeirra iðnvæddu þjóða sem í Ríó á sínum tíma gengust undir þá skuldbindinu að draga sem heild úr aukningu á útblæstri þessara lofttegunda þannig að losunin verði ekki meiri árið 2000 heldur en hún var 1990. Við höfum líka tekið fullan virkan átt í undirbúningi Kyoto-ráðstefnunnar sem við vissum alltaf að miðaði að því að ná lagalega bindandi samningum um takmörk á losun þessara skaðlegu lofttegunda.

Mikið hefur verið talað um sérstöðu Íslands og vitaskuld eigum við að halda henni fram. Hún felst í tvennu. Hún felst í því að við höfðum þegar, áður en viðmiðunarárið 1990 rann upp, gripið til gríðarlegrar notkunar á mengunarlausum orkugjöfum. Það er erfitt um vik fyrir okkur að gera stórátak í þeim. Það er líka sérstaða okkar að við búum við fiskveiðar sem koma öllum heiminum til hagsbóta. Þetta er sérstaða sem við eigum að sjálfsögðu að halda fram. Það er engin spurning. Ég tel að það sé ekkert, hvorki í siðferðilegu né öðru tilliti rangt að við reynum að fá metna alla þá sérstöðu sem við getum markað okkur í þessu máli. Það er einfaldlega eðli samninga að ganga eins langt og mótaðilinn getur sætt sig við. En það er líka eðli samninga, herra forseti, að una niðurstöðunni, að hlíta niðurstöðunni.

Hvað gerist ef við kjósum að standa fyrir utan samninginn? Hæstv. ráðherra orðaði það svo að það kynni að veikja stöðu Íslands. Ég held að ef við kjósum okkur það hlutverk að setjast á bekk með þeim rummungum heimsins sem ekki vilja taka þátt í þessu mikilvæga verkefni, þá muni það rústa í fyrsta lagi umhverfisstefnu Íslands. Það mun rústa í öðru lagi ímynd Íslands sem hreins lands. Hvað þýðir það fyrir okkur? Halda menn að það gangi jafn vel að selja ferskan hreinan íslenskan fisk og áður? Og telja menn að erlendir ferðamenn muni streyma hingað til lands jafnglaðbeittir og áður? Að sjálfsögðu ekki.

[16:30]

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því, herra forseti, að umhverfismál og viðskiptamál eru alltaf að færast nær og nær hvert öðru. Ég er alveg sannfærður um það að ef við kjósum okkur það hlutskipti, sem ég hef lesið í orðum einstakra ráðherra sem hafa tjáð sig um þetta mál, að standa utan við Kyoto-samninginn, þá held ég að við munum sæta viðskiptaþvingunum í vaxandi mæli, eins og við sjáum að ríkjasambönd, stórþjóðir og hagsmunasamtök hafa beitt. En ég tel líka að móralskt séð getum við það ekki. Það stafar af því að við erum í hópi þeirra þjóða sem eiga hvað mest á hættu.

Í annan stað bendi ég á kannski þá mestu hættu sem blasir við okkur á næstu öldum, en það eru áhrif frávirkra lífrænna efna sem safnast upp í norðurhöfum. Hvað eru Íslendingar að gera í þeim efnum? Við höfum gengið fram fyrir skjöldu, m.a. hæstv. umhvrh. til þess að fá þjóðir heims til að gangast undir lagalega, bindandi samning um takmörkun á losun og notkun þeirra efna. Hvernig í ósköpunum eigum við að geta róið fyrir víkur útlendinga, annarra þjóða og beðið um stuðning í því efni ef við kjósum okkur það hlutskipti að standa fyrir utan þennan samning? Það gengur einfaldlega ekki upp, herra forseti. Það er ekki siðferðilega verjandi.

Það slær mann auðvitað þegar maður les þessa skýrslu hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru. Með hvaða hætti grípum við til aðgerða til að vega upp á móti losun þessara óæskilegu lofttegunda? Samantekt um það er að finna á bls. 4--5 og þar kemur í ljós að nánast ekkert er að gerast í þeim efnum. Hæstv. umhvrh. setur traust sitt á framtíðina. Tækniþróunin er ör, segir hann, en hún mun bara ekki þróast nógu ört á meðan hæstv. umhvrh. situr í stóli og ekki heldur á næsta kjörtímabili. Hvað er raunverulega að gerast? Nokkur atriði eru talin upp en það er kannski enn ein sérstaða Íslands að þessi ríkisstjórn hefur ekki bent á eitt einasta haldbært ráð í þeirri baráttu.

Hæstv. umhvrh. spáir því að árið 2000 verði útstreymi koltvíildis 550 þúsund tonnum meira en 1990 og skrautfjöðrin í hatti hans er aukið átak í landgræðslu og skógrækt. Það kemur fram í máli hans að hann og ríkisstjórnin öll hefur eytt 450 millj. til þess að gera sérstakt átak í þessum efnum og hverju skilar það? Samkvæmt eigin skýrslu skilar það bindingu 22 þúsund tonna koltvíildis. Herra forseti. Hversu dýr yrði Hafliði allur? Ef nota ætti þessa aðferð til að vega upp á móti þessari spá hæstv. ráðherra, þá mundi það þýða að við þyrftum að rækta skóg fyrir um það bil 10 milljarða og e.t.v. meira. Hvar ætlar hæstv. umhvrh. að finna land fyrir allan þann skóg?

Í dag er staðan þannig að við losum út í andrúmsloftið sem nemur ígildi 2,6 millj. tonna af koltvíildi. Með þeim samningi, sem við höfum a.m.k. til þessa tekið þátt í að undirbúa í Kyoto, á að draga um 30--50% úr losuninni en samkvæmt skýrslu ráðherrans bendir allt til þess að við förum árið 2000 a.m.k. 16% fram úr, árið 2010 26% og 35% árið 2020 en hæstv. umhvrh. hefur ekki bent á neinar raunhæfar leiðir. Það er ekki nóg að benda á öra tækniþróun í framtíðinni.

En þar með er sagan ekki öll, herra forseti. Sú spá sem hæstv. umhvrh. hefur lagt fram um losun fram á næstu öld tekur einungis tillit til þeirrar stóriðju sem búið er að samþykkja nú þegar. En um leið og hæstv. umhvrh. er að boða að nauðsynlegt sé að draga úr losuninni, hvað er þá sessunautur hans, hæstv. iðnrh. að gera? Hann leggur fram skýrslu á þessu þingi þar sem gert er ráð fyrir stórfelldri stóriðju á Íslandi. Samkvæmt þeirri skýrslu er í fyrsta lagi gert ráð fyrir magnesíumverksmiðju sem mun leiða til þess að við losum koltvíildi sem nemur 350--370 þús. tonnum að auki út í andrúmsloftið. Í öðru lagi er talað þar um álver á Reyðarfirði og þar er nefnd talan 400 þús. tonn af áli sem þýðir um 400--500 þús. tonn af koltvíildi til viðbótar. Þar er talað um verksmiðju Atlantsáls með um það bil 240 þús. tonn af áli sem þýðir svona 300--400 þús. tonn til viðbótar af koltvíildi. Það er talað um 30 þús. tonna kísilmálmverksmiðju á Austfjörðum sem mundi leiða líklega til 70--80 þús. tonna aukinnar losunar á þessum lofttegundum. Þar fyrir utan tala menn fullum fetum um stækkun málmblendiverksmiðjunnar á Grundartanga um allt að tvo ofna og líkleg aukning á koltvíildi vegna þess væri sennilega um það bil 300 þús. tonn. Ég rifja það líka upp, herra forseti, að í lögum um álverið á Grundartanga er heimild um þreföldun og sú aukning er heldur ekki inni í spá hæstv. ráðherra en ef sú aukning yrði að veruleika, þá má gera ráð fyrir að aukin losun koltvíildis yrði um 180 þús. tonn, þannig að mér reiknast til, herra forseti, að aukningin sem felst í þeim stóriðjudraumum sem hæstv. iðnrh. er haldinn og hefur boðað hér í þessu þskj. nemur um það bil 2 millj. tonna af koltvíildi. Með öðrum orðum, hæstv. iðnrh. er að leggja til framkvæmdir sem nánast tvöfalda losun Íslendinga í dag.

Hvaða ályktun er hægt að draga af þessu? Ef staðan er jafnsvört og hæstv. umhvrh. nefndi áðan og ef það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að við verðum að taka tillit til barnabarna okkar, taka tillit til framtíðarinnar, þá er ekki nema ein niðurstaða í þessu máli og hún er sú að stóriðjustefnan sem við höfum fylgt er gjaldþrota. Það er einfaldlega það verð sem við þurfum að greiða fyrir að vera þátttakendur í því að bjarga okkar eigin framtíð.

Mig langar að spyrja að lokum, herra forseti: Hvaða afstöðu hefur hæstv. umhvrh. til þeirra stóriðjudrauma sem hæstv. iðnrh. hefur kynnt í þessu þskj? Er það virkilega svo, herra forseti, að hæstv. umhvrh. eftir alla þá svörtu mynd sem hann hefur dregið hér upp, treysti sér ekki til þess að koma hingað upp og lýsa yfir að hann muni beita sér fyrir því að Ísland muni hlíta niðurstöðum Kyoto-samningsins?