Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 16:37:47 (1282)

1997-11-17 16:37:47# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að benda hæstv. ráðherra á að það er víðar til í heiminum mengunarlaus orka en á Íslandi. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því, herra forseti, að við höfum tekið þátt í því að undirbúna samning sem við vissum sjálfir eða gerðum ráð fyrir að yrði lagalega bindandi. Við þurfum þar af leiðandi að svara spurningunni: Hvernig ætlum við að standa frammi fyrir honum? Hvernig ætlum við að uppfylla hann? Ég sé enga leið að komast nálægt því að uppfylla hann á þessum tímapunkti þegar hæstv. umhvrh. segir sjálfur að við stefnum tugum prósenta fram úr því marki sem við höfum áður ákveðið. Ég sé enga leið til þess nema að byrja á að svipta öllum stóriðjudraumum út af borðinu eða a.m.k. að slá þeim á frest þangað til niðurstaða liggur fyrir.