Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 16:41:23 (1285)

1997-11-17 16:41:23# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:41]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér er hafin og þá skýrslu sem hæstv. umhvrh. lagði fyrir þingið í síðasta mánuði um þessi þýðingarmiklu mál. Ég tel mikla þörf á því að þau verði rædd vel og ítarlega og auðvitað ekki aðeins hér úr þessum ræðustól heldur gaumgæfð af öllum á Alþingi og í þingflokkum þingsins vegna þess að um mikil alvörumál er að ræða. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. umhvrh. að minna hefur farið fyrir umræðu um þessi stóru mál á Alþingi en æskilegt væri og búast hefði mátt við miðað við stærð.

Þegar þessi mál voru til umræðu 1993 af tilefni samningsins um loftslagsbreytingar, samningsins sem Ísland undirritaði með fyrstu ríkjum í Rio de Janeiro á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, var um það góð samstaða. Í umræðu um málið undirstrikaði ég þýðingu þess og stærð og ég hef á þeim tíma sem síðan er liðinn leyft mér að taka þessi mál inn í umræðu um ýmis efni, þar á meðal um efnahagsmál vegna þess að þau mál sem tengjast loftslagsbreytingunum og gerð alþjóðasamnings varða efnahagsþróun ríkja geysilega miklu. Skýrasta dæmið um það hvernig umhverfismálin eru orðin og verða í enn ríkari mæli að mínu mati dagskrármál þegar talað er um alþjóðamál á komandi árum, þar á meðal um efnahagsmál. Það verður að gerast ef menn ætla að taka samræmt á þeim hlutum. Eitt af því sem ég hef gagnrýnt í sambandi við Alþjóðaviðskiptastofnunina, er framhaldið af GATT-samningnum, þau lög sem þar að lúta vegna þess að sá stóri samningur er ekki á því spori að hann sé líklegur til að ráða við þann vanda sem við blasir í umhverfismálum heldur þvert á móti að auka þann vanda í miklum mæli nema þar verði stórfelld breyting gerð á.

Ég tel ekki sanngjarnt að gagnrýna hæstv. umhvrh. hér og nú fyrir það hvernig hann leggur þetta mál fyrir þingið. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi með skýrslu sinni til þingsins og þeim gildu fylgigögnum sem fylgja, þar á meðal skýrslunni frá í október 1997, ítarlegri skýrslu þar sem er að finna ýmis gögn málsins sem ekki koma fram í þingskjalinu, sýnt viðleitni og mér finnst skipta afar miklu máli að þingheimur virði þessa viðleitni sem umhvrn. hefur sýnt ásamt öðrum ráðuneytum til þess að reyna nú loksins --- og ég segi loksins því það má vissulega gagnrýna að það skuli ekki fyrr hafa verið gert að koma með þessi mál þannig fram fyrir alþjóð, þing og þjóð að hægt sé að fjalla um þau á þeim forsendum sem ber.

[16:45]

Auðvitað má finna að mörgu sem snýr að málafylgjunni á fyrri stigum og mér hefur lengi verið ljóst að menn hafa ekki margir hverjir gert sér ljósa stærð þessa máls. Það er í rauninni ekki fyrr en í janúar sl. þegar hér á Alþingi komu svör hæstv. umhvrh. við fyrirspurn sem ég bar fram og tengdist áformum varðandi stóriðju, svör hæstv. ráðherra sem vörðuðu þau efni og viðræðurnar í aðdraganda Kyoto sem margir hrukku við, þar á meðal fjölmiðlar í landinu, og byrjuðu að fjalla um þessi mál í ljósi þess hvað þau koma við kvikuna á efnahagslegum fyrirætlunum á Íslandi. Ég held t.d. að þeir sem hafa verið að undirbúa magnesíumverksmiðju á Suðurnesjum hafi hrokkið rækilega við þegar það kom fram í svari hæstv. ráðherra þá, samkvæmt mati hans ráðuneytis, að bygging þeirrar verksmiðju með því framleiðsluferli sem kynnt hafði verið mundi losa gróðurhúsalofttegundir á Íslandi til jafns við það sem þegar er orðið og þeir aðilar hafa síðan verið að leita annarra leiða til að minnka þetta stórlega.

Ég vil leiðrétta það sem kom fram í umræðunni hjá hv. síðasta ræðumanni, talsmanni Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna, að sú losun gróðurhúsalofttegunda sem tengist stóriðjuhugmyndunum sem hv. þm. nefndi og er á dagskrá, sú tala var allt of allt of lág, um 2 millj. tonna sem þar yrðu losaðar. Talan er langtum hærri en það er ekki viðfangsefni þessarar umræðu að leggja hana hér fyrir. Það nægir að minna á að ramminn í umræðunum um álbræðslu á Austurlandi eða hér á landi vegum Norsk Hydro er ekki 400 þús. tonn heldur 720 þúsund tonn sem þýðir losun um nærri því 1,5 millj. tonna á gróðurhúsalofttegundum á sama tíma og við losum í heild um 2,8 millj. tonna. Þetta sýnir okkur stærðina í þeim hugmyndum.

Virðulegur forseti. Það sem ég hef sérstaklega áhyggjur af í sambandi við stöðu þessa máls hér og nú er það hvernig hæstv. ríkisstjórn fjallar um það og hvað fram kemur hjá hæstv. ráðherrum varðandi þetta stóra mál nú upp á síðkastið þar sem mér sýnist að mjög mikið vanti á að hæstv. ríkisstjórn hafi tekið á þessum málum sem bæri og veiti hæstv. umhvrh. þann stuðning sem ber í þeim mjög vandasömu viðræðum sem hæstv. ráðherra fer með fyrir ríkisstjórnarinnar hönd og þar sem kunna að verða stigin mjög ákvarðandi skref í Kyoto í næsta mánuði. En á það ber að leggja áherslu og þess ber að minnast sem hæstv. ráðherra vissulega nefndi að það kemur dagur eftir Kyoto og þó að ekki fari svo sem mér heyrist að hæstv. iðnrh. sé svona að gæla við sem líklega niðurstöðu, að ekkert komi út úr þeirri ráðstefnu, þá er eins víst og dagur er á eftir þessum að það verður annar fundur sem mun reyna að ná saman um þetta stóra vandamál seinni hluta næsta árs og er þegar farið að undirbúa slíkan fund vegna þess að auðvitað þarf að fjalla útfærslu á því sem kann að nást saman um í Kyoto og taka á stærstu þáttum málsins á næsta ári og áframhaldandi þangað til viðunandi alþjóðleg samstaða næst til þess að bægja frá þeirri stórhættu sem mannkyni öllu stafar af því ef fram heldur sem horfir í þessum málum og ekkert samkomulag tekst.

Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að finna orðum mínum stað um áhyggjuefni að því er varðar hæstv. ríkisstjórn. Þá hef ég í huga öðru fremur þann sem þar er fremstur, hæstv. forsrh., og það sem kom fram hjá hæstv. forsrh. í síðustu viku, bæði tilvitnanir í ræðu haldna úti í Ósló og bein ummæli hér í fjölmiðlum. Mér sýnist að það sem hæstv. forsrh. sagði þar beri vott um að íslenska ríkisstjórnin taki ekki af heilindum þátt í þeirri viðleitni sem hæstv. umhvrh. hefur í málinu. Þetta segi ég m.a. vegna þess að hæstv. forsrh. er þar, samkvæmt fjölmiðlum sem ég hef hér útskrift af og í Morgunblaðinu 13. nóvember sl., að vekja upp drauga sem eiga ekkert að vera viðfangsefni fundarins í Kyoto samkvæmt þeim samningsgrunni sem gengið var frá í Bonn á annarri ráðstefnu aðildarríkjanna þess efnis að ekki ætti að reyna að binda þróunarríkin við ákveðnar takmarkanir í þeim samningum sem þá var ákveðið að reyna að ná, heldur yrði það viðfangsefni síðari tíma hvernig þau kæmu inn í slíkt og öllum auðvitað ljóst að þau verða einhvern veginn að koma inn í slíkt í framtíðinni. En það er mjög alvarlegt mál þegar hæstv. forsrh. virðist ekki taka tillit til Berlínarumboðsins frá 1995 sem allt hvílir þó á og sem formaður samninganefndarinnar á fundinum í Bonn í síðasta mánuði ítrekaði sem niðurstöðu, ef ég hef skilið það rétt, á þeim fundi að væri óbreyttur grunnur, þ.e. að ríkjahópurinn 77 sem er auðvitað miklu stærri verði ekki hluti af þeim lagalegu skuldbindingum sem á að reyna að ná um lækkun á losun gróðurhúsalofttegunda og fyrst og fremst þau ríki sem tengjast viðauka I. Þetta er alvarlegt, sem og vangaveltur hæstv. forsrh. um það hvernig samningur sem skuldbindi iðnríkin við ákveðin losunarmörk og lækkun á losun gróðurhúsalofttegunda, rakst í alþjóðaviðskiptum. Er ekki öllum ljóst að með þeirri stefnu sem lagt var upp með í samningunum er auðvitað verið að breyta aðstæðum varðandi alþjóðaviðskipti? Þróunarríkin fá vissulega ákveðið forskot sem er þeirra góði réttur og hafa gild sanngirnisrök til þess að krefjast og á hefur verið fallist pólitískt. Ég skal ekki segja hver niðurstaða þessara mála verður í framtíðinni en ég leyfi mér að segja það hér að ég held að bindandi alþjóðasamningar um þessi efni hljóti að lokum að taka mið af því að hver einstaklingur á jörðinni hafi sama aðgengi að lofthjúpnum og þar með sama aðgengi að möguleikum til þróunar og mannsæmandi lífs, sömu möguleika til þess að losa í sameiginlegan lofthjúp. Það þýðir auðvitað sitt fyrir iðnríkin og fyrir þá sem nú eru komnir langt fram úr, miklu lengra fram úr en er mögulegt til þess að standa undir lífi á þessari jörð ef allir tækju sér þann rétt sem iðnríkin hafa tekið sér í sambandi við losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta vildi ég segja, virðulegur forseti, um ummæli hæstv. forsrh. og mætti þó fleira um það segja. Ég tel alveg nauðsynlegt að hér við þessa umræðu komi þetta skýrt fram: Styður hæstv. forsrh. þetta mál og að gengið verði frá niðurstöðu á grundvelli þess sem fram hefur komið hjá hæstv. umhvrh. og á grundvelli þeirrar stefnu sem samninganefnd, ég leyfi mér að kalla það það, Íslendinga á Bonn-fundinum í síðasta mánuði reyndi að færa þar fram miðað við að hægt sé að laga samningsgrundvöllinn að einhverju leyti að þeim markmiðum sem Íslendingar telja æskileg eða nauðsynleg? Auðvitað er alveg ljóst að við fáum þar aldrei allt. En mér er tjáð, m.a. eftir samningaviðræður í síðasta mánuði að viss atriði hafi þokast þar verulega í áttina, t.d. að möguleikarnir á að binding í einhverju formi verði viðurkennd hafi vaxið. Það er inni í þessu sveigjanleiki. Inni í þessu virðast vera möguleikar í sambandi við skipti á mengunarkvóta og ákveðnu tilliti til breytileika varðandi einstök ríki. Þetta er þýðingarmikið fyrir Ísland. En þó að þetta náist fram, þá er alveg ljóst að brautin er ekki vörðuð fyrir þau áform sem ríkisstjórnin hefur haft uppi í sambandi við stóriðjumál. Þar munu menn að samningagerð lokinni búa við allt annan veruleika. Það þarf ekki að þýða að lokað sé á orkunýtingu á Íslandi til iðnaðar með öllu. Það er verulega langt frá því. En landslagið er gjörbreytt að því leyti og það þýðir ekkert að hugsa sér einhver heljarstökk eins og ríkisstjórnin og hæstv. iðnrh. hefur verið að boða í þeim efnum og hæstv. utanrrh. sem hefur tekið undir alveg frá því síðasta vor í eldhúsdagsumræðum hér í Alþingi, að við mættum ekki binda okkur nokkurn skapaðan hlut ef það þýddi að við gætum ekki bara gengið fram í nýtingu orku eins og okkur gott þætti og þetta ítrekaði hæstv. utanrrh. í umræðum um utanríkismál á dögunum. Það eru þessar áhyggjur sem ég hef, að hæstv. ríkisstjórn standi ekki að baki hæstv. umhvrh. í þessu stóra alvörumáli. Ég bið um að hér á Alþingi verði stuðningur við skynsamleg samningsmarkmið að þessu leyti þannig að reynt verði að sjá fyrir hagsmunum Íslands eins og mögulegt er. En það sem aðalmarkmið á að vera er að taka þátt í alþjóðasamningi sem feti okkur áfram í að leysa í alþjóðlegu samhengi eða bægja frá þeirri vá sem mannkyn allt býr við nú og við blasir og mun fara vaxandi ef ekki tekst að ná þeim árangri sem stefna verður að.