Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 16:57:21 (1286)

1997-11-17 16:57:21# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:57]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Málið sem hér er til umræðu á að mínu mati sér engan samjöfnuð í því sem við fjöllum um hér á hv. Alþingi. Í fyrsta lagi er enn þá ákveðin óvissa í þeim vísindalega grunni sem liggur til grundvallar þeim kenningum sem verið er að fjalla um og afstaða manna til þeirra byggist meira á skoðun og jafnvel trú en því að um vísindalega sönnun sé að ræða. Hins vegar eru afleiðingar þess að misstíga sig í þessum efnum þvílíkar og koma ekki fram fyrr en svo langt er liðið á næstu öld að við verðum að taka tillit til þeirra vísindalegu ábendinga sem við þó höfum. Í þriðja lagi er málefnið þess eðlis að allar þjóðir heims verða að koma að því til þess að það verði leyst viðunandi.

Staða Íslands í þessu máli er bæði góð og slæm. Hún er góð í því tilliti að útblástur okkar í dag mælt á hvern íbúa er í lægri kantinum hvað varðar Annex I þjóðirnar. Hún er góð vegna þess að við höfum gert miklar breytingar á orkukerfi okkar á undanförnum áratugum og njótum þar okkar föstu orkugjafa.

Staðan er hins vegar slæm að því leytinu til að við erum lítil og fámenn þjóð í stóru landi, eylandi, og byggjum þar af leiðandi mjög mikið á samgöngum, bæði innan lands og við umheiminn. Og eins og allir vita þá eru samgöngur einn sá þáttur sem eyðir hvað mestri orku hér á landi og veldur hvað mestum útblæstri.

Okkar grunnatvinnuvegur er svo líka fiskveiðar og þar er orkunotkun gríðarlega mikil og hefur að undanförnu frekar farið vaxandi miðað við aflaeiningu heldur en hitt. Ég sé því ekki að við getum leyst þessi tvö stóru vandamál okkar hvað úblástur varðar nema til komi verulegar tækniframfarir sem annars vegar leiði til mun betri nýtingar eldsneytis eða til þess að nýir eldsneytisgjafar komi fram á sjónarsviðið sem valdi minni útblæstri.

[17:00]

En hver er staðan í samningunum í dag hvað okkur varðar og umheiminn? Við höfum lagt nokkur atriði til grundvallar í málflutningi okkar. Við höfum lagt áherslu á að nýjar skuldbindingar taki til allra gróðurhúsategunda og aðgerðir til að binda kolefni í jörðu og gróðri verði metnar jafngildar aðgerðum til að draga úr losun. Við höfum lagt áherslu á að tekið verði tillit til sérstakra aðstæðna einstakra ríkja, sérstaklega ríkja sem mæta orkuþörf sinni að verulegu leyti með endurnýjanlegum orkugjöfum. Og við höfum lagt áherslu á að nýjar skuldbindingar takmarki ekki möguleika aðildarríkja til að auka notkun endurnýjanlega orkugjafa vegna eigin framleiðslu jafnvel þótt framleiðsluferlið auki losun staðbundið.

Það má segja að í samningunum liggi fyrir fjögur tilboð, annars vegar frá samtökum smáeyríkja, hins vegar frá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og Ástralíu. Þrjú þessara tilboða eru í eðli sínu mjög svipuð. Þau byggja á flatri skerðingu útblásturs á tilteknu tímabili, tiltekin mörk við tiltekin ártöl. En tillaga Ástralíu er annars eðlis. Hún byggir ekki á flötum skerðingum og mismunandi ártölum, heldur á því að kostnaður ríkjanna við að mæta heildarskuldbindingunum verði sem líkastur, að mismunandi aðgerðir hjá mismunandi þjóðum verði lagðar til grundvallar en að þær kosti svipað, sama hvaða land er um að ræða.

Það er hins vegar annað sem er merkilegt í þessu sambandi og vert að hafa í huga en það er að Evrópuþingið hefur lagt fram allt, allt aðrar tillögur en Evrópusambandið hefur lagt fram. Þær tillögur byggjast ekki nema að hluta á því að um verði að ræða flatan niðurskurð á útblástursheimildum. Þær byggja þá til viðbótar á því að stórum hluta af heimildunum verði úthlutað á grundvelli þess að um sé að ræða aðgerðir sem koma heildinni til hagsbóta þannig að ríki sem fara í aðgerðir sem minnka útblástur heildarinnar njóti þess. Ég ímynda mér að ef þetta kerfi verði tekið upp þá mundi Ísland njóta þess að eiga hreina orkugjafa til þess að framleiða léttmálma eins og ál og magnesíum.

Tillaga Evrópuþingsins gerir ráð fyrir því að þeir sem ekki standa við sínar heimildir eða fara fram úr þurfi að borga sektir í sérstakan sjóð sem jafnframt verði varið til að koma af stað aðgerðum sem verði heildinni til hagsbóta og heilla.

Ég tel að Ísland hefði átt að leggja áherslu á nokkur atriði til viðbótar í þessum samningaviðræðum. Í fyrsta lagi hefði ég talið mikilvægt að leggja áherslu á sameiginleg stefnuatriði við að ná tökum á vandanum og þá sérstaklega á skatt á kolefni. Ég tel að við munum ekki leysa okkar vanda hvað varðar samgöngur og fiskveiðar nema atvinnulífið og akademían í hinum stóra heimi taki höndum saman um að leysa vandamálið og eini þrýstingurinn til að fá þessa aðila til að takast á við vandamálið er fjárhagslegur, þ.e. að beitt verði efnahagslegum stjórntækjum eins og kolefnisskatti til þess að hafa áhrif á þessa þróun. Ég held einnig að það sé grundvallaratriði fyrir okkur, sama hvaða kerfi verður komið á, að leyft verði að versla með heimildir til útblásturs, þ.e. að hægt verði að hafa viðskipti með heimildirnar. Í þriðja lagi tel ég að við hefðum átt að leggja áherslu á að allar þjóðir heims kæmu að þessu vandamáli og að þessum samningum í upphafi því þegar til kastanna kemur erum við öll ábyrg fyrir þessu, ábyrg fyrir niðurstöðunni. Niðurstaðan verður ekki ljós fyrr en seint á næstu öld og því rétt að allir aðilar komi að málinu í upphafi jafnvel þó að þær byrðar eða þær skuldbindingar sem aðilar taki á sig séu ekki jafnar í upphafi, jafnvel langt frá því að vera jafnar. Þess vegna hef ég talið mikilvægt að þróunarlöndin tækju þátt í þeim samningaviðræðum alveg frá upphafi og sérstaklega að Kína væri þátttakandi í viðræðunum til þess að við gætum séð í framtíðinni að þessir aðilar væru tilbúnir til að takast á við það að leysa vandamálið á sama hátt og Annex I ríkin.

Í þessu samhengi er ég að tala um að við leggjum það til grundvallar að jafnframt því að Annex I ríkin taki á sig að lækka útblásturinn fengju þróunarlöndin heimild til að auka sinn útblástur tímabundið, en eftir því sem liði á næstu öld mundi þetta falla saman þannig að sem líkastur útblástur yrði á hvern íbúa í heiminum í lok aldarinnar þegar við værum komin á þann endapunkt sem við mundum ákveða að stöðvast við, hvort sem hann er 450, 550 eða 650 ppm. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við þurfum að ná samkomulagi um. Ekki síður þurfum við að ná samkomulagi um aðferðina og held ég að þetta sé eina aðferðin sem getur leitt okkur til farsæls enda á þessu máli.

En hvert stefnir í niðurstöðu þessara samninga núna? Líklegast er að ef einhver niðurstaða næst, þá verði það málamiðlun á milli tillagna samtaka smáeyríkjanna, Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. En hvernig þarf hún að vera til að við getum þolanlega við unað hér á landi? Ég held að það séu þrjú atriði sem eru afar mikilvæg fyrir okkur og til að þetta mál verði farsællega leyst fyrir okkur þarf að taka tillit til a.m.k. tveggja af þessu þrennu.

Í fyrsta lagi að tillit sé tekið til aðstæðna og möguleika þjóða, eins og okkar, sem nýta hreina orkugjafa og það verði viðurkennt að skynsamlegt sé út frá hagsmunum heildarinnar að framleiða léttmálma með hreinni orku við okkar aðstæður.

Í öðru lagi að tillit verði tekið til þess að hér séu möguleikar á því að binda kolefni í talsvert ríkum mæli.

Í þriðja lagi að heimilt verði að versla með heimildirnar á milli þjóða eða ríkjahópa. Í því tilliti finnst mér afstaða Evrópusamsambandsins afar sérstök, að ætla sér að beita mismunandi reglum innan sambandsins og á alþjóðlegum vettvangi.

Ég held að það verði mjög erfitt fyrir okkur að lifa við það að samningur verði gerður í Kyoto sem ekki tekur tillit til a.m.k. tveggja af þessum þremur atriðum sem ég nefndi og vafasamt hvort við ættum að skrifa undir slíkan samning jafnvel þó að færa megi rök fyrir því að við værum jafnilla stödd undir þeim kringumstæðum hvort sem við skrifuðum undir samninginn eða ekki. Það væri einfaldlega að mínu mati afskaplega óréttlát niðurstaða ef hluti heimsbyggðarinnar kæmist að niðurstöðu sem ekki tæki einu sinni stærsta hluta mannkynsins með í reikninginn en mismunaði og skerti verulega möguleika einstakra þjóða í þeirri heimsbyggð þjóðanna, sem við búum í, og það þjóðar sem ekki er í hópi þeirra sem valda hvað mestum útblæstri.

Eins og ég sagði í upphafi á þetta vandamál að mínu mati engan samjöfnuð og því er ekkert skrýtið þó erfiðlega gangi að finna lausn á því. Ég vona að í Kyoto verði stigið skref í átt til lausnar vandanum og við skulum ekki hafa áhyggjur af því þó að við þurfum að halda aðrar ráðstefnur á næsta ári til að halda áfram að leita lausnarinnar því að þetta vandamál verður ekki leyst á þessu ári, það verður ekki leyst á næsta ári, það verður ekki leyst á þessari öld. Það verður ekki endanlega fyrirséð um lausn vandans fyrr en seint á næstu öld og þá verða það væntanlega börn okkar og barnabörn sem þurfa að horfast í augu við það hvort okkur hafi tekist vel upp að leysa þetta vandamál eður ei.