Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 17:13:50 (1288)

1997-11-17 17:13:50# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:13]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekkert að endurskoða málflutninginn. Ég held að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi hreinlega misskilið það sem ég sagði eða hann hefur kannski ekki heyrt það. Ég sagði að þrátt fyrir óvissuna ætti að takast á við það að leysa vandann, að afleiðingarnar væru þvílíkar að við gætum ekki horft fram hjá því að við þyrftum að takast á við þennan vanda.

En við erum að semja og ég var að segja frá því hvað ég teldi að væru þau atriði sem við þyrftum að leggja til grundvallar til þess að við gætum vel við unað og að hægt væri að ná heildarlausn í málinu.

Ég sagði ekki að allar þjóðir ættu að skuldbinda sig við þennan samning til þess að fara að draga úr útblæstri. Ég sagði þvert á móti að þróunarlöndin og Kína ættu að fá heimild til þess að auka, til að byrja með, en þau yrðu síðar meir, þegar lengra liði á þetta ferli, að minnka líka til þess að sem líkastur útblástur væri á íbúa í lokin hvar sem hann byggi í heiminum. Þar var ég að taka undir það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði í ræðu sinni fyrr í umræðunni. Þetta eru sjónarmið sem eiga ekki að koma hv. þm. á óvart. Hann þekkir þau og þau hafa verið til umræðu á alþjóðlegum ráðstefnum þar sem við höfum fjallað um þessi mál saman og ásamt með öðrum. Grundvallaratriði þess að lausn náist í málinu er að allir séu með frá upphafi, allir viti í upphafi hvar við ætlum að enda málið og að allir séu búnir að gera sér grein fyrir því strax að það séu ekki bara Annex I löndin sem byrji og ætli síðan að fá hina með sér heldur séu allir meðvitaðir um lokapunktinn strax í upphafi og skuldbundnir til þess að ná honum sameiginlega.