Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 17:18:09 (1290)

1997-11-17 17:18:09# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:18]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi Berlínargrundvöllinn og vissulega væri betri staða í samningunum í dag ef öll atriðin sem þar eru nefnd væru komin inn í samninginn sem við eigum von á að komi út úr umræðunum í Kyoto. Ég var ekki að bera það fyrir mig að við ættum ekki að undirrita samninga ef ekki væri búið að taka þróunarlöndin og Kína eða G-77 hópinn, eins og hann kallar það, inn í samkomulagið nú. Ég bar það ekki fyrir mig að það væri frágangssök. Ég nefndi þrjú atriði og taldi að tvö þeirra þyrftu að vera inni í samningnum til þess að hann væri vel viðunandi fyrir okkur. Það að allar þjóðir væru með í samningnum núna var ekki eitt af þeim atriðum.

Hvort hv. þm. hafi misheyrt og misskilið mig eða ekki þá komumst við að því þegar við lesum útskriftina af fyrstu ræðu minni.