Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 17:34:55 (1292)

1997-11-17 17:34:55# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir fagna umræðunni um þetta mikilvæga mál hér á Alþingi. Ég held að enginn vafi sé á því að þetta er eitt alstærsta mál sem Íslendingar og aðrar þjóðir heimsins hafa staðið frammi fyrir á alþjóðlegum vettvangi mjög lengi. Það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga að auðvitað verða Íslendingar að taka þátt í þessu samstarfi. Þeir hafa þar hagsmuna að gæta og verða að leggja sitt af mörkum til að minnka þá losun sem á sér stað í heiminum.

Sérstaða okkar er hins vegar mikil og við hljótum að krefjast þess í þeim samningum sem fara fram um þessi mál að okkar sérstaða sé virt og við fáum tækifæri til að nýta auðlindir okkar með hagkvæmum hætti m.a. til að minnka útblástur í heiminum.

Um það bil 1/3 af þeim útblæstri sem er hér á landi er vegna samgangna, um það bil 1/3 vegna fiskveiða og 1/3 vegna iðnaðar, landbúnaðar og annarra atriða. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að við verðum að taka á okkur minnkun að því er varðar bæði samgöngur og fiskveiðar. Það ættum við að geta gert t.d. hvað varðar fiskveiðarnar. Ef hér verður áfram rekin hagkvæm og skynsamleg sjávarútvegsstefna þannig að flotinn fari minnkandi og fiskstofnar stækki, þá liggur ljóst fyrir að minni orku þarf til að ná í fiskinn.

Að því er varðar samgöngurnar eru vandamálin vissulega mikil. Við erum að bæta okkar samgöngukerfi og auka mjög samgöngur á landi. Uppi eru metnaðarfull áform um að bæta það enn meir á næstu árum og áratugum sem byggðirnar kalla á og mun óneitanlega kalla á meiri samgöngur. Að þessu leyti erum við öðruvísi stödd en ýmsar aðrar iðnaðarþjóðir t.d. í Evrópu, sem hafa þegar byggt upp hagkvæmt samgöngukerfi. En þessar þjóðir hafa hins vegar miklu meiri möguleika á að nota járnbrautir, sérstaklega rafknúnar járnbrautir og minnka þannig losun.

En sérstaða okkar er kannski mest vegna þess að við eigum mikið af endurnýjanlegum orkulindum sem við höfum notað að tiltölulega litlu leyti. Mér er ekki kunnugt um nokkurt annað land í Evrópu sem býr við slíka sérstöðu. Okkar krafa hlýtur að vera sú að við getum nýtt þessar orkulindir til að byggja upp efnahagslífið og til þess að leggja þær fram í þeim tilgangi að minnka útblástur í heiminum. Það er óumdeilanlegt að hagkvæmt er á heimsvísu að svo sé gert. Ég held að ef Ísland væri t.d. aðili að Evrópusambandinu þá væri það eitt af því sem Evrópusambandið hefur lagt áherslu á í sinni stefnumótun að allar slíkar orkulindir væru nýttar.

Vegna ummæla hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um að ég hafi lýst því yfir að Íslendingar ættu ekki að taka neinn þátt í þessu, þá er það ekki rétt eða ég hef kannski misskilið hann. (HG: Það sagði ég aldrei.) Þá hef ég misskilið hann. Það sem ég hef sagt og ég vona að okkur geti borið saman um að sé óásættanlegt er að við getum ekki nýtt okkar hagkvæmu orkulindir m.a. til stóriðju. Við vitum að þær orkulindir sem t.d. eru á Austurlandi verða ekki nýttar eins og við sjáum myndina fyrir okkur í dag nema stóriðja komi til. Nema að leiða það rafmagn sem þar væri hægt að virkja í gegnum sæstrengi til Evrópu þannig að Evrópumenn gætu nýtt þá orku til þess m.a. að hún kæmi í staðinn fyrir aðra orku þar og minnkaði útblástur á meginlandinu. Þetta finnst mér vera óásættanlegt.

Nýjasta álver sem reist hefur verið er í Suður-Afríku og það nýtir kolarafmagn. Þetta álver á að framleiða rúmlega 460 þús. tonn af áli á ári hverju og heildarlosun vegna álversins er tæplega þreföld heildarlosun Íslendinga á koldíoxíði árið 1995. Er þetta sanngjarnt? Er það sanngjarnt og í þágu heimsbyggðarinnar að slíkt sé gert? Er ekki eðlilegra að þetta sama ál sé framleitt með rafmagni á Íslandi? Ef álverið í Straumsvík sem framleiðir 162 þús. tonn af áli væri t.d. knúið með raforku, framleitt með kolum, þá væri það svipað og öll losun Íslendinga var á árinu 1995. Mér finnst eðlilegt að við Íslendingar gerum þær kröfur að þessari ónýttu orku sé haldið utan við.

Vera má að einhverjir séu þeirrar skoðunar að við eigum alls ekki að fara út í neina stóriðju. Mér heyrðist það á hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að hann væri þeirrar skoðunar og boðaði þar mikla stefnumörkun Alþfl. og mikla stefnubreytingu. Þetta er kannski það eina sem komið hefur út úr sameiningarviðræðunum til að koma til móts við einhverja úr öðrum flokkum. Við ættum bara að taka upp þá stefnu. (Gripið fram í.) Það gæti t.d. verið í Kvennalistanum. Kvennalistinn hefur haft þá opinberu stefnu að vera andvígur stóriðju eftir því sem ég hef skilið. --- Já, þetta er þá staðfest hér. Þetta eru mikil tíðindi. Ég er hræddur um að fyrrv. iðnrh., sem var ötull talsmaður stóriðju og hefur nú yfirgefið stjórnmálin, væri ekki sammála þessari nýju stefnu Alþfl. En þetta eru kannski mestu pólitísku tíðindi sem hafa komið fram á Alþingi í dag, að Alþfl. hafi gjörsamlega snúið við í þessu efni. Ég hefði nú haldið að í flestum flokkum þyrfti þetta að gerast á stórum fundum þar sem margir væru komnir saman.

Við Íslendingar verðum einfaldlega að vera menn til að halda fram okkar sérstöðu og fara þess á leit að tillit sé tekið til hennar en ekki hlaupa á eftir öllu sem Evrópusambandið og Bandaríkjamenn segja í þessu efni. Mér kemur á óvart ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson vill í einu og öllu hlíta því sem Evrópusambandið segir í þessum efnum. Þeir eru búnir að koma sér saman um mismun á milli ríkja innan Evrópusambandsins, að það sé allt í lagi að mismuna á milli ríkja í Evrópusambandinu en hins vegar eigi ekki að taka tillit til mismunandi aðstæðna annarra ríkja. Það er ýmislegt sem er tekið út úr í undirbúningi þessa máls. Það er t.d. ekki gert ráð fyrir að flugið verði þar með eða samgöngur á milli landa og ekki verði tekið tillit til fraktflutningaskipa. Það liggur alveg fyrir að menn eru að gera ýmsar undanþágur sem henta ýmsum ríkjum betur en öðrum. Evrópusambandið getur m.a. lagt á sig töluvert í þessu máli vegna þess að það er vitað mál að Austur-Evrópuríkin og Mið-Evrópuríkin munu ganga í Evrópusambandið og þar er mikið hreinsunarstarf fyrir höndum þannig að menn fá stóra kvóta til að vinna úr á þeim vettvangi. Þannig stendur ekki á fyrir Íslendingum. Eigum við að kyngja því þegjandi að íslenskar orkulindir skuli ekki nýttar í þágu stóriðju vegna þess að það hentar ekki stefnumörkun einhverra annarra ríkja? Þetta fannst mér vera mikil tíðindi og nauðsynlegt að ræða af mikilli alvöru á Alþingi.

[17:45]

Ég geri mér grein fyrir því að við erum með mjög mikilvægt mál hér í höndunum, bæði út frá hagsmunum Íslendinga og líka út frá hagsmunum heimsbyggðarinnar. Við erum að ræða hér um gerð á skuldbindandi samningi sem þjóðréttarlega er skuldbindandi fyrir Ísland. Jafnvel þótt hann verði ekki undirritaður alveg á næstunni, þá tek ég undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það kemur dagur eftir þennan dag og það verður haldið áfram að vinna að þessu máli alveg eins og unnið var t.d. að hafréttarsáttmálanum. Það tók langan tíma og Íslendingar voru fljótir til að samþykkja hann. En það er fyrst núna sem iðnríkin eru að staðfesta hann og töldu sér henta að vera með í þeim samningi þannig að jafnvel þótt Íslendingar standi ekki að slíkum samningi alveg í upphafi, þá má búast við því að það komi að því að Íslendingar verði að taka þátt í honum á einn eða anna hátt. Þess vegna er mjög mikilvægt að samningurinn sé strax í upphafi hagkvæmur Íslendingum og tillit sé tekið til okkar aðstæðna.

Fram hefur farið mikil vinna í þessu máli nú að undanförnu á vegum margra ráðuneyta og utanrrn. kemur að málinu vegna þess að hér er um undirbúning á máli að ræða sem snertir þjóðréttarlega bindandi samning og Alþingi þarf að lokum að samþykkja slíkan samning. Þess vegna er mikilvægt að þingmenn setji sig mjög vel inn í það hvað hér er að gerast og hvort menn séu tilbúnir þegar fram líða stundir að skrifa upp á bindandi samning um það að við getum ekki nýtt endurnýjanlegar orkulindir á Íslandi m.a. til stóriðju. Það er mjög stór ákvörðun. Það er ekki nóg að einhverri skoðun sé kastað fram eins sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði hér áðan.

Herra forseti. Ég tel að þessi umræða sé mjög mikilvæg. Hún er mjög mikilvæg fyrir ríkisstjórnina um þessar mundir vegna þess að menn sitja við það að marka samningsumboð og stefnu Íslendinga á fundinum í Kyoto. Það er margt orðið ljóst í því sambandi og alveg ljóst að við verðum allmikið á okkur að leggja. En það er líka nauðsynlegt að það sé skýrt hvað við teljum að verði að standa utan við þennan samning og hvar við teljum að við myndum slíka sérstöðu að ekki verði komist hjá því að taka tillit til þess. Að mínu mati er það fyrst og fremst varðandi endurnýjanlega orkugjafa sem á að geta verið framlag okkar í þessu máli og við hljótum að stefna að því að fá þá sérstöðu virta í þessum samningi.