Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 17:55:30 (1296)

1997-11-17 17:55:30# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki verið að tala um að staðsetja 720 þúsund tonna álver á Austurlandi eða eins og hv. þm. orðaði svo ósmekklega, að troða því þar inn. Það er verið að tala um 240 þúsund tonna álver og möguleika á stækkun. (HG: Hefur ráðherrann ekki lesið svör hæstv. iðnrh.?) Möguleika á stækkun en 240 þús. tonn í upphafi. Það má vel vera að þeir tímar komi að hægt verði að reka með ávinningi járnbraut sem gengur austur á Höfn í Hornafirði, en það er a.m.k. ljóst að það verður þá að byggja upp atvinnulíf í fjórðungnum til þess að það eigi að vera gjörlegt og það þarf líka mikið að koma til til að hagkvæmt verði að reka járnbrautarlest á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, en sá tími kemur örugglega. En þetta er ekki nokkuð sem við sjáum. Við sjáum ekki heldur fram á hagkvæmni vetnisframleiðslu alveg á næstunni þannig að jafnvel þótt menn horfi mjög langt inn í framtíðina, þá er það því miður þannig að ef á að nýta þessa orku nú alveg á næstunni og jafnvel næstu áratugum, þá er m.a. ál þar einna hagkvæmast. Og það hlýtur að vera hagkvæmara að framleiða slíka afurð hér á landi en t.d. í Suður-Afríku með kolum.

Að því er varðar stefnumótun ríkisstjórnarinnar sem hv. þm. kom einnig inn á, þá hefur ríkisstjórnin haft náið samráð í þessu máli og er að vinna að málinu og það þarf ekkert að óttast það, hæstv. umhvrh. mun hafa skýrt samningsumboð Íslands á þessari ráðstefnu. Það mun liggja fyrir.