Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:48:23 (1310)

1997-11-17 18:48:23# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:48]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef með athygli lesið það sem hæstv. iðnrh. hefur skrifað um þessi efni, bæði ræðu sem hann flutti í Orkustofnun 24. október og síðan grein í Morgunblaðinu. Mér finnst að ýmislegt sem þar er sagt bendi ekki til að öflugur stuðningur sé hjá hæstv. ráðherra við þau samningsmarkmið sem hæstv. umhvrh. hefur lagt áherslu á. Sé þetta hins vegar misskilningur þá eru það kannski upplýsingar sem vert er að taka eftir við þessa umræðu.

Ég hef farið yfir þá texta sem hafa verið lagðir inn í umræðurnar af Íslands hálfu nú, m.a. í Bonn og hæstv. umhvrh. hefur veitt mér aðgang að því sem þar hefur komið fram að mati samningamanna. Ég fæ ekki séð að þar séu sett ákvæði sem varða nýtingu umhverfisvænna orkulinda eða endurnýjanlegra orkulinda þannig fram að það gefi tilefni til þess að við Íslendingar þurfum að hrökkva þar frá. Ég les allt aðrar áherslur út úr máli hæstv. utanrrh. og hæstv. iðnrh. að þessu leyti, þ.e. að þeir vilji ganga miklu harðar fram en nokkrar líkur eru á að mínu mati að hægt verði að ná fram í þessum samningum, þ.e. að Ísland hafi nokkurn veginn sjálfdæmi í sambandi við sínar endurnýjanlegu orkulindir og nýtingu þeirra. Mér sýnist að inn í samningstextana, sem er að sjálfsögðu engin niðurstaða, sé að koma sveigjanleiki sem geti gefið möguleika til nýtingar í framtíðinni fyrir Íslendinga en augljóslega ekki á þeirri hraðferð sem hæstv. iðnrh. hefur verið að keppa að.

Það mætti hafa nokkur orð um það, virðulegur forseti, en það er ekki tími til þess hér og nú.