Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:50:55 (1311)

1997-11-17 18:50:55# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:50]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skuli lesa af athygli og hlusta af athygli á það sem fram kemur hjá mér í þessum málum. Hafi hv. þm. gert það þá tel ég ekki ástæðu til fyrir hv. þm. að draga þá ályktanir sem hann dró hér í einu af sínum andsvörum við umræðuna fyrr í dag um afstöðu mína til þessa máls.

Ég hef fyrr í umræðunni farið yfir þau meginmarkmið sem við setjum okkur og eiga að vera okkar meginsamningsmarkmið. Um þau er enginn ágreiningur í ríkisstjórninni. Að halda öðru fram er í þeim tilgangi gert að reyna að skapa tortryggni. En það er alveg skýr samhljómur í málflutningi ráðherra ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Ég hef hins vegar lagt áherslu á það og tel að við eigum að ganga fram með það á þeim fundum sem fram undan eru að við höfum sérstöðu í þessum málum og að við eigum að óska eftir því að aðrar þjóðir séu tilbúnar til þess að taka tillit til okkar sérstöðu sem snýr að nýtingu á endurnýjanlegum orkulindum.

Það er ekkert óeðlilegt að menn gangi fram strax í upphafi samninga með þau meginmarkmið. Það er ekki skynsamlegt að halda þannig á í samningum að gefa sér fyrir fram að ekki sé hægt að fara fram með þau meginmarkmið sem menn vilja leggja áherslu á og eru hagsmunamál Íslands í þessu sambandi vegna þess að það vilji enginn hlusta á þau. Ef menn treysta sér ekki til að bera þau markmið fram af því að það vilji enginn hlusta á þau þá mun enginn hlusta því þau koma aldrei fram.