Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:52:57 (1312)

1997-11-17 18:52:57# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:52]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég hef vaxandi áhyggjur af eftir því sem ég heyri í fleiri ráðherrum hér er að þeir eru að koma hér inn með kröfur og samningsmarkmið sem ríkisstjórnin hefur ekki lagt inn í þessar viðræður sem hafa átt sér stað lengi og hafa verið að þróast stig af stigi. Fundurinn í Bonn á dögunum var aðeins einn þáttur í þessari þróun. Hæstv. iðnrh. hefði betur látið í sér heyra fyrr og sett sig inn í málin fyrr og komið fram með þær áherslur sem hann vildi séð hafa. Það sama gildir um hæstv. forsrh. eins og ég hef bent á í þessari umræðu. Í grein hæstv. iðnrh. í Morgunblaðinu 12. nóvember --- hún er nú ekki eldri en svo --- tekur hann undir mat ýmissa um að erfitt verði, ef ekki útilokað, að ná samningum um þessi mál í Kyoto hvað svo sem það nú endurspeglar. Hann segir að vísu ,,því miður``, við skulum trúa því. En þar segir líka undir lok þeirrar greinar, með leyfi forseta:

,,Niðurstaða þeirra samningaviðræðna, sem fram fóru í Bonn á dögunum og á að ljúka í Kyoto í desember, á ekki, og má ekki, koma í veg fyrir að endurnýjanlegar orkulindir séu nýttar til efnahagslegra framfara, hvorki á Íslandi né í öðrum löndum.``

Ef hæstv. ráðherra ætlar að standa á þessari kröfu sinni og heimta að það verði tekið inn í samningsumboð Íslendinga á ráðstefnunni í Kyoto þá held ég að það fari svo, eins og hann er að láta liggja að, að ekki verði skrifað undir mikið af Íslands hálfu eða málið gangi upp gagnvart okkur. Ég tel að hæstv. ráðherra meti hlutina rangt í þessum efnum. Það sama kemur fram hjá hæstv. utanrrh. í þessari umræðu og af þessu hef ég miklar áhyggjur. Það skiptir máli að Ísland gangi fram með samræmdar kröfur og þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á því hafi traust bakland en ekki það að hæstv. ráðherrar séu að kalla inn í þessa umræðu nú á síðustu vikum nýjar og nýjar kröfur og heimta að breytt verði um stefnu í þessum málum.