Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 19:19:06 (1318)

1997-11-17 19:19:06# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[19:19]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa staðfest það, sem raunar liggur fyrir í þingskjölum, að ramminn um þá álbræðslu, sem ríkisstjórnin er að reyna að ná samningum um við Norsk Hydro, er um allt að 720 þús. tonn, sem mundi nýta yfir tíu teravattstundir í orku, sem er meira en samanlögð notkun Íslands upp úr aldamótum, og er þá stóriðja meðtalin. Þetta liggur fyrir.

En jafnframt liggur fyrir að það er ekkert einskorðað við Austurland að fyrirtækið ætti að rísa þar heldur hefur hæstv. ráðherra opnað fyrir aðra möguleika eins og tíðkað hefur verið og stendur í því, rétt eins fyrrv. hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson, að láta landshlutana bítast um trosið.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um spurninguna um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi, þá er vandalítið mál fyrir mig að svara hæstv. ráðherra. Heldur hæstv. ráðherra að lausnin á atvinnuvanda á Austurlandi eða annars staðar á Íslandi sé sú að reisa hér stóriðjuver og það sé þjóðráðið til lausnar á atvinnuvanda með hinni gífurlegu fjárfestingu og þeim fáu störfum sem það skapar? Ég tala nú ekki um það ef Austfirðingum væri ætlað að leggja til vatnsaflið, sem vel gæti orðið ef þessir draumar rættust, og það yrði síðan flutt suður á Keilisnes, teljandi á fingrum annarrar handar þau störf sem fylgja rekstri orkuveranna eftir að búið væri að beisla viðkomandi fallvötn. Að þetta sé sýn í atvinnumálum Íslendinga til framtíðar og binda landið samningum (Forseti hringir.) til kannski hálfrar aldar, sem tengdir eru áliðju, er ekki þjóðráð. Ég tala um þessi mál og leyfi mér að gera það með tilliti til landsins alls og að sjálfsögðu einnig til Austurlands.